Lögreglustjórinn Birgir Jónasson lögreglustjóri situr á fundnu fé.
Lögreglustjórinn Birgir Jónasson lögreglustjóri situr á fundnu fé. — Morgunblaðið/Eggert
„Á þetta reynir annað slagið þegar skilvísir borgarar koma með verðmæti, stundum er það í formi reiðufjár og stundum einhvers annars,“ segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við Morgunblaðið

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Á þetta reynir annað slagið þegar skilvísir borgarar koma með verðmæti, stundum er það í formi reiðufjár og stundum einhvers annars,“ segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við Morgunblaðið.

Tilefni samtalsins er reiðufé sem fannst í sveitarfélaginu Húnabyggð fyrir skemmstu og var komið til lögreglu þar. Lögregluþjónar embættisins sáu þar gott efni í pistil á Facebook-síðu sinni og greindu þar frá málinu með vísan til opins bréf frá kansellíinu í Kaupmannahöfn sem Íslendingum var sent í júní 1811.

Bréfið, sem enn hefur gildi að íslenskum lögum og fjallar um fundið fé í kaupstöðum, boðar að slíkt fé skuli auglýsa með plaggi sem hengt er upp á almannafæri í viðkomandi kaupstað og skuli eigandi reiða finnanda fram hæfileg fundarlaun fyrir heiðarleikann.

„Þetta opna bréf konungs er ígildi laga þótt vissulega sé það komið til ára sinna,“ segir lögreglustjóri. „Við höfum farið þá leið að auglýsa á Facebook en í einhverjum tilfellum höfum við komið þessu á framfæri við staðarblöð, það er ekki eins og við séum að hengja þetta upp einhvers staðar, við höfum ekki fylgt þessari réttarheimild út í ystu æsar,“ segir lögreglustjóri.

Aðspurður segir Birgir ekki hægt að gefa of mikið upp í tilkynningum um fundið fé, upphæð megi til dæmis ekki gefa upp þar sem þá gætu Pétur eða Páll mætt á lögreglustöð til að vitja fjárins og gefið upp nákvæma upphæð. Enn fremur segir hann mál á borð við það sem hér er til umræðu sjaldan sæta lögreglurannsókn þegar eigandi gefur sig fram – að minnsta kosti ekki á landsbyggðinni.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson