Formaður Íþróttir eru samofnar menningu og sögu bæjarins og við höfum átt afreksíþróttafólk í mörgum íþróttagreinum síðustu áratugi,“ segir Gyða Bergþórsdóttir, hér með dóttur sinni Andreu Sif, fjögurra ára.
Formaður Íþróttir eru samofnar menningu og sögu bæjarins og við höfum átt afreksíþróttafólk í mörgum íþróttagreinum síðustu áratugi,“ segir Gyða Bergþórsdóttir, hér með dóttur sinni Andreu Sif, fjögurra ára. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þetta er íþróttabær,“ segir Gyða Bergþórsdóttir sem á dögunum var kjörin nýr formaður Íþróttabandalags Akraness. ÍA er í raun regnhlífarsamtök íþróttastarfs á Skaganum, alls 19 aðildarfélaga. Margt hefur breyst á Akranesi á undanförnum árum og fólki þar fjölgað mikið. Samfélagsgerðin hefur þó haldist lík því sem hefur verið; íþróttir eru í aðalhlutverki og aðstaðan til iðkunar þeirra er fyrsta flokks. Aðildarfélögin hafa sjálfstæði í daglegum rekstri, en stjórn og framkvæmdastjóri ÍA eru þeim til stuðnings og ráðgjafar og í forsvari gagnvart Akraneskaupstað og öðrum eftir atvikum.

Íþróttir samofnar menningu og sögu bæjar

„Bæjaryfirvöld styðja vel við íþróttirnar, bæði hvað varðar fjármagn og aðstöðu. Íþróttir eru samofnar menningu og sögu bæjarins og við höfum átt afreksíþróttafólk í mörgum greinum síðustu áratugi. Ég held að þessa sterku íþróttamenningu megi rekja til þess að foreldrar sem stunda íþróttir vilja að börnin feti í þeirra spor. Þá er hér frábær aðstaða til þess að stunda margar greinar íþrótta svo flestir finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Gyða og heldur áfram:

„Í dag eigum við efnilegt íþróttafólk í flestum greinum og listinn er langur, í ljósi sögunnar. Héðan af Akranesi hefur komið íþróttafólk sem hefur verið frábærar fyrirmyndir. Þarna má nefna Ragnheiði Runólfsdóttur og Kolbrúnu Ýri Kristjánsdóttur í sundi og Birgi Leif Hafþórsson og Valdísi Þóru Jónsdóttur kylfinga. Þá hefur héðan komið fjöldi atvinnumanna í knattspyrnu sem eru stór nöfn í íþróttasögu Íslands. Af fólki sem nú er á sviðinu má líka nefna Kristínu Þórhallsdóttur í kraftlyftingum, Drífu Harðardóttur í badminton og svona mætti lengi telja.“

Fótbolti, fimleikar og golf eru vinsælustu greinarnar á Akranesi en einnig æfa margir sund og körfubolta. Síðustu ár hefur iðkendafjöldi í fimleikum þrefaldast, sem gerðist eftir að nýtt fimleikahús var tekið í notkun.

Flestir á Skaganum fylgjast með íþróttunum

„Frábær aðstaða, metnaðarfull þjálfun og góðir þjálfarar; þegar þetta þrennt fer saman gerast stundum alveg ótrúlegir hlutir,“ segir Gyða. Hún getur þess að Akurnesingar hafa verið valdir þjálfarar ársins af Fimleikasambandi Íslands. Sú staðreynd segi sitt um metnaðinn sem í starfinu liggur og árangurinn sem náðst hefur. Gaman sé líka að sjá að þátttaka drengja í fimleikum og parkour sé að aukast.

„Hér á Skaganum fylgjast flestir með íþróttum hvort sem það er fótbolti, sund, golf, fimleikar eða annað. Fótboltinn er þó alltaf áberandi. Þegar vel gengur er gaman og slík stemning hefur jákvæð áhrif á bæjarlífið. Gula ÍA-hjartað slær aldrei af meiri þunga né í betri takti en þegar okkar fólk gerir gott mót, eins og sagt er. Þá er líka metnaðarmál að ná til allra krakka og hafa breitt úrval íþróttagreina og í því skyni var í fyrra stofnuð rafíþróttadeild. Að bjóða upp á sem mesta fjölbreytni í íþróttastarfi er mikilvægt.“

Fjölnota íþróttahús er í byggingu

Verið er að byggja fjölnota íþróttahús við Jaðarsbakka á Akranesi sem tilbúið verður á næsta ári. Þar verða íþróttavellir sem eiga að uppfylla allar kröfur til keppnishalds í efstu deildum ýmissa boltagreina, þá sérstaklega körfuknattleik. Gert er ráð fyrir allt að 700 manns í áhorfendastúkum. Hugmyndin er sú, að þegar þessi bygging er tilbúin sé þar einn miðlægur aðgangur að öllum svæðum íþróttamiðstöðvarinnar á Jaðarsbökkum; sundlaug, íþróttahúsi, Akraneshöll og knattspyrnusvæði. Heildarkostnaður við verkefnið hefur verið áætlaður alls um þrír milljarðar króna.

„Uppbygging íþróttamannvirkja hér á Akranesi á síðustu árum hefur verið til mikillar fyrirmyndar. Við erum nýbúin að reisa glæsilega reiðhöll, nýtt fimleikahús og nýja íþróttahúsið á Jaðarsbökkum mun miklu breyta,“ tiltekur Gyða sem einnig greinir frá starfi innan ÍA til eflingar almenningsíþróttum. Í því sambandi má geta þess að Akranes er í samstarfi við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag sem svo er kallað. Því fylgir að skapa skal aðstöðu til þess að fólk geti við bestu skilyrði stundað daglega hreyfingu. Slíkt gera líka margir – og finnst til bóta bæði fyrir líkama og sál.

Stundar hlaup í fallegu umhverfi

„Hér eru góðir göngustígar sem margir hverjir eru með frábæru útsýni. Þá er góð aðstaða í skógræktinni Garðalundi, þar eru meðal annars æfingatæki sem hvetja fólk til einfaldra æfinga í fallegu umhverfi,“ segir Gyða, sem sjálf hefur stundað íþróttir alla sína tíð. Æfði fótbolta og sund – en í dag stundar hún hlaup jafnhliða því að sinna félagsstörfum og formennsku í ÍA.

„Ég nýt þess mjög að hlaupa í fallegu umhverfi á Akranesi, með Langasand, Akrafjall og sjóinn í kring.

Þá tók ég maraþonhlaup í Amsterdam síðasta haust. Ég hef núna setið í stjórn ÍA í tvö ár ár og kem einnig að starfinu sem móðir þriggja stelpna. Foreldrastarf hvers konar er stór þáttur í öllu innan íþróttafélaganna. Ég legg raunar mjög mikla áherslu á að dætur mínar stundi íþróttir og séu í skipulögðu starfi, því slíkt er frábær forvörn og lærdómur fyrir lífið sjálft,“ segir Gyða Bergþórsdóttir að síðustu.

Hver er hún?

Gyða Björk Bergþórsdóttir fæddist árið 1991 á Akranesi. Hún er með BS-gráðu í sálfræði og MS-gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa lokið námi í markþjálfun. Gyða hefur starfað við mannauðsmál síðan árið 2018 og er í dag mannauðsráðgjafi hjá Kviku banka.

Hefur frá árinu 2022 setið í stjórn Íþróttabandalags Akraness og var kosin formaður ÍA í apríl sl.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson