Ráðhús Reykjavíkur Nokkur umræða er nú um samninga borgarinnar og olíufélaganna um uppbyggingu á lóðum sem félögin leigja af borginni.
Ráðhús Reykjavíkur Nokkur umræða er nú um samninga borgarinnar og olíufélaganna um uppbyggingu á lóðum sem félögin leigja af borginni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kári Freyr Kristinsson karifreyr@mbl.is

Fréttaskýring

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Bæjarstjórar Akureyrarbæjar, Kópavogsbæjar, Garðabæjar, Hafnarfjarðarbæjar og Seltjarnarnesbæjar segja að þeir myndu ekki fara sömu leið og Reykjavíkurborg fór í tengslum við samninga borgarinnar við olíufélögin.

Fengu olíufélögin heimild til að reisa íbúðir með samkomulagi við Reykjavíkurborg á lóðum sem félögin leigðu með lóðarleigusamningi.

„Eins og málið blasir við mér virðist Reykjavíkurborg ekki hafa nýtt sér að næstum helmingur lóðarleigusamninga var útrunninn eða við það að renna út. Að mínu mati hefði verið eðlilegra að breyta landnotkun samhliða og endurúthluta lóðunum,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogsbæjar.

„Þá virðist sem borgin rukki ekki innviðagjöld á lóðunum, þótt það sé nokkuð augljóst að breyting úr bensínstöð í íbúðarhúsnæði kalli á allt aðra og nýja innviði eins og leik- og grunnskóla til að mæta væntri fjölgun íbúa,“ segir Ásdís, en hún tekur fram að hún hafi ekki séð samning borgarinnar og olíufélaganna.

„Ég myndi ekki styðja að rifta lóðarleigusamningum sem eru í gildi vegna breyttrar stefnu hjá bænum enda þarf að ríkja traust milli sveitarfélagsins og fyrirtækja sem skapa tekjur og störf í bænum.“

Hins vegar sé eðlilegt ef lóðarleigusamningar eru að renna út og landnotkun er ekki í samræmi við stefnu bæjarins að þá séu þeir mögulega ekki endurnýjaðir. „Frekar [yrði þá] endurúthlutað í samræmi við okkar stefnu og hagsmuni bæjarbúa,“ segir Ásdís.

Eru ekki á sama stað og borgin

Hún segir að í Kópavogi séu lögð á svokölluð innviðagjöld ef verið er að breyta landnotkun á lóðum úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Ástæðan sé sú að við slíkar breytingar þarf að byggja nýja innviði og þá sé eðlilegt að uppbyggingaraðilar standi straum af slíkum kostnaði en ekki útsvarsgreiðendur í Kópavogi.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar segir lóðarleigusamninginn um olíureitinn á Seltjarnarnesi renna út í júní 2029. „Síðan ætlum við bara að taka stöðuna í framhaldi af því. Þar af leiðandi erum við að gera þetta öðruvísi en til að mynda Reykvíkingar,“ segir hann.

„Við erum ekki á sama stað og borgin með okkar plön,“ segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar. Það liggur fyrir að ein bensínstöð víki á Akureyri að svo stöddu að sögn Ásthildar. Hún víki þó vegna breytinga á skipulagi.

„Það er ekkert óeðlilegt að breyta gömlum bensínstöðvarlóðum í íbúðarlóðir, svo er það aðferðafræðin um hvernig lóðunum er úthlutað sem skiptir máli,“ segir Ásthildur. Hún gerir ekki ráð fyrir að Akureyrarbær myndi framkvæma þetta eins og Reykjavíkurborg gerði. „Við myndum fara yfir hvað hentar okkar skipulagi en það er pólitísk ákvörðun hvernig farið verði í uppbyggingu á þessum reitum.“

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar segir engin mál eins og mál Reykjavíkurborgar og olíufélaganna vera hjá sveitarfélaginu.

„Við erum í viðræðum á nokkrum stöðum við lóðarhafa á ólíkum þéttingarreitum í bænum og það er alltaf gengið út frá því að það sé greitt fullt byggingarréttargjald,“ segir hún. Ekki öll sveitarfélög hafa byggingarréttargjöld en hún telji það nauðsynlegt til að mæta þeim kostnaði sem fylgir uppbyggingunni sem sveitarfélög verða að ráðast í.

„Okkar nálgun er að við bjóðum fullt byggingarréttargjald auk gatnagerðargjaldsins.“ Rósa bendir á að lóðirnar séu verðmæti sem sveitarfélög eigi þrátt fyrir að gerðir séu lóðarleigusamningar. „Við erum fyrst og fremst að gæta hagsmuna sveitarfélagsins og útsvarsgreiðenda.“

Eðlileg umræða

Aðspurð segir Rósa eðlilegt að umræður eigi sér stað um þessi málefni því um mikil verðmæti er að ræða. „Mér finnst þetta góð umræða. Það er gott að þessir hlutir séu ræddir opinskátt, þetta er hluti af því sem kjörnum fulltrúum er falið að gera og gæta hagsmuna þeirra sem við erum kjörin fyrir.“

„Þeir uppbyggingarsamningar sem við höfum gert við einkaaðila hafa verið þannig að við semjum sérstaklega um gjald fyrir byggingarrétt eða innviðauppbyggingu,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar. Aðspurður segir hann Garðabæ ekki hafa framkvæmt þetta eins og Reykjavíkurborg. Tekur hann fram að hann hafi ekki séð samning borgarinnar við félögin.

„Ég get ekki svarað því núna hvert samningsmarkmiðið yrði ef til slíkra viðræðna kæmi,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Við erum með tvö olíufélög og það hefur ekki verið tekið nein stefnumótandi ákvörðun um breytingar þar á. Hins vegar erum við að fara í vinnu á miðbæjarskipulagi og við verðum að sjá hvað kemur út úr því.“