ÍR tryggði sér í gærkvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næsta tímabili með því að vinna Sindra, 109:75, í þriðja leik liðanna í umspili um laust sæti í Breiðholti. ÍR vann einvígið 3:0 og snýr því aftur í deild þeirra bestu eftir árs fjarveru.
María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði tvívegis og Hildur Antonsdóttir skoraði eitt mark þegar lið þeirra Fortuna Sittard vann stórsigur á Zwolle, 7:1, á útivelli í lokaumferð hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á laugardag. Lára Kristín Pedersen var ekki í leikmannahópi Sittard, sem hafnaði í fjórða sæti.
Norska liðið Storhamar vann í gær Evrópudeild kvenna í handknattleik með því að leggja rúmenska liðið Gloria Bistrita að velli, 29:27, í úrslitaleik í Graz í Austurríki. Axel Stefánsson er aðstoðarþjálfari Storhamar og lætur af störfum í sumar eftir þriggja ára starf. Storhamar lagði franska liðið Nantes í undanúrslitum á laugardag, 28:27, eftir ótrúlega endurkomu. Axel þjálfaði íslenska kvennalandsliðið frá 2015 til 2018.
Þórir Jóhann Helgason reyndist hetja Eintracht Braunschweig þegar hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Wehen í þýsku B-deildinni í knattspyrnu í gær. Með sigrinum tryggði Braunschweig sæti sitt í deildinni þegar ein umferð er óleikin. Þórir Jóhann lék allan leikinn fyrir Braunschweig.
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti stórleik fyrir Alba Berlín þegar liðið vann öruggan sigur á Crailsheim Merlins, 103:83, á útivelli í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í gær. Martin skoraði 15 stig, tók eitt frákast og gaf átta stoðsendingar á 19 mínútum hjá Alba. Alba hafnaði í öðru sæti deildarinnar og mætir Bonn, Ludwigsburg, Oldenburg eða Hamburg í 8-liða úrslitum.
Kristall Máni Ingason var í aðalhlutverki þegar lið hans SönderjyskE hafði betur gegn AaB, 1:0, í toppslag dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á laugardag. Kristall Máni skoraði sigurmark SönderjyskE tveimur mínútum fyrir leikslok úr vítaspyrnu og fékk gult spjald fyrir fagn sitt. Fimm mínútum síðar fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt. Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn fyrir SönderjyskE en Atli Barkarson er frá keppni vegna meiðsla. Nóel Arnórsson lék allan leikinn fyrir AaB.
Íslenskir leikmenn Kristianstad létu vel að sér kveða þegar liðið hafði betur gegn Trelleborg, 3:1, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í gær. Hlín Eiríksdóttir skoraði og lagði upp annað mark auk þess sem Guðný Árnadóttir lagði upp mark Hlínar. Þær léku báðar allan leikinn fyrir Kristianstad líkt og Katla Tryggvadóttir.
Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Kortrijk fá tækifæri til þess að halda sæti sínu í belgísku A-deildinni. Kortrijk tapaði 3:1 fyrir Charleroi í lokaumferðinni á laugardag en á meðan vann Íslendingalið Eupen 2:0-sigur á Molenbeek. Guðlaugur Victor Pálsson og Alfreð Finnbogason eru báðir frá vegna meiðsla hjá Eupen, sem var þegar fallið og tók Molenbeek með sér niður í B-deild. Kortrijk, sem var langneðst í deildinni þegar Freyr tók við, mætir Lommel úr B-deildinni í umspili um sætið.
Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, lét vel að sér kveða þegar lið hans Bilbao tapaði naumlega fyrir Barcelona, 68:72, í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar í gærkvöld. Bilbao hafnaði í 13. sæti af 18 liðum, en átta efstu liðin fara í úrslitakeppni um spænska meistaratitilinn. Tryggvi nýtti mínúturnar vel en hann skoraði níu stig, tók átta fráköst og gaf eina stoðsendingu á 18 og hálfri mínútu.
Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði eitt marka Wolfsburg og lagði upp annað þegar liðið vann öruggan útisigur á Werder Bremen, 3:0, í þýsku 1. deildinni í gærkvöld. Sveindís Jane lék allan leikinn fyrir Wolfsburg. Var þetta þriðja deildarmark hennar og þriðja stoðsendingin á tímabilinu í tíunda leiknum.