Árbæjarlaug Fleiri gestir komu í allar sundlaugar í borginni í ár.
Árbæjarlaug Fleiri gestir komu í allar sundlaugar í borginni í ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ekkert lát var á aðsókninni að sundstöðum Reykjavíkurborgar á fyrstu mánuðum ársins og fóru fleiri í sund á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tölum um aðsókn í sundlaugar, á ylströndina í Nauthólsvík, á söfn og í…

Ekkert lát var á aðsókninni að sundstöðum Reykjavíkurborgar á fyrstu mánuðum ársins og fóru fleiri í sund á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tölum um aðsókn í sundlaugar, á ylströndina í Nauthólsvík, á söfn og í fjölskyldu- og húsdýragarðinn á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem lagðar voru fram í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði. Gestir sundlauganna voru samanlagt tæplega 630 þúsund talsins í janúar, febrúar og mars sl.

Í bókun fulltrúa meirihlutans á fundi ráðsins segir að tölur um gestafjölda sýni „að aðsókn í sundlaugarnar og ylströndina jókst talsvert frá fyrra ári, eða um 11%, sömuleiðis jókst aðsókn um 15% í Borgarsögusafn og aðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn jókst verulega eða um rúmlega helming. Lítillega dregur hins vegar úr útlánum Borgarsögusafns og gestafjöldi í Listasafn Reykjavíkur lækkar um 16% frá sama tíma í fyrra.“

Mest aðsókn var í Laugardalslaug, í marsmánuði komu 52.437 gestir í hana. Næstflestir fóru í Breiðholtslaug eða 44.657 í mars. Umtalsvert fleiri en í fyrra. Sundgestum í Vesturbæjarlaug fjölgaði einnig mikið og voru t.a.m. 31.625 talsins í mars.

Tæplega 24 þúsund gestakomur voru í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu á tímabilinu janúar til mars í ár og nokkru færri eða tæplega 22 þúsund komu á Kjarvalsstaði. omfr@mbl.is