Nýsköpun Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra nýsköpunarmála kynnti í Kolaportinu í gær helstu breytingar sem orðið hafa á verklagi í ráðuneytinu.
Nýsköpun Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra nýsköpunarmála kynnti í Kolaportinu í gær helstu breytingar sem orðið hafa á verklagi í ráðuneytinu. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýsköpunarvika Íslands er í fullum gangi í Kolaportinu og á Hafnartorgssvæðinu, þar sem vakin er athygli á ýmsum nýjungum í nýsköpun og sprotaverkefnum. Dagskránni lýkur annað kvöld og búist er við að um 3.000 manns sæki um 700 viðburði vikunnar

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir

vally@mbl.is

Nýsköpunarvika Íslands er í fullum gangi í Kolaportinu og á Hafnartorgssvæðinu, þar sem vakin er athygli á ýmsum nýjungum í nýsköpun og sprotaverkefnum. Dagskránni lýkur annað kvöld og búist er við að um 3.000 manns sæki um 700 viðburði vikunnar.

„Nýsköpunarvikan er viðburðadrifin en út 17. maí verður ókeypis aðgangur að þessum um 700 viðburðum. Síðan erum við með okkar eigin sviðsdagskrá á Hafnartorgssvæðinu, bæði inni í Kolaportinu og kringum Hafnartorgið, sem hægt er að kaupa miða á. Í heildina sækja um þrjú þúsund manns hátíðina í ár,“ segir Edda Konráðsdóttir framkvæmdastýra Nýsköpunarviku sem kom hátíðinni á árið 2020 ásamt Melkorku Sigríði Magnúsdóttur.

Kerfisbreyting ráðherra

Sem hluti af Nýsköpunarviku var ráðherra nýsköpunarmála, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, með kynningu í Kolaportinu síðdegis í gær þar sem hún kynnti m.a. breytingar sem orðið hafa á verklagi í hennar ráðuneyti. Breytingarnar hefðu þegar skilað sér í því að auðvelda frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum að koma nýsköpun sinni frá hugmynd til framkvæmda.

Sem dæmi um verkefni sem hefði verið hrundið af stað í ráðuneyti hennar nefndi Áslaug Arna breytt fjármögnunarlíkan háskólanna, róttækar breytingar á flóknu og þungu kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES-svæðisins og innleiðingu stafrænna lausna og nýsköpunar hjá hinu opinbera.

Meðal annarra dagskráratriða Nýsköpunarviku má nefna að Loftslagsleikhúsið Ok, bye verður með sýningu í Kolaportinu í dag frá kl. 9 til 12.30.

„Ok, bye er vísun í Ok, fyrsta jökulinn sem hvarf á Íslandi. Við erum að kveðja hann. Við fjöllum um loftslagsmál á skemmtilegri máta, drögum fram lausnir og hvernig fólk fyllist af innblæstri í raun og veru. Við viljum ekki að fólk labbi út af viðburðinum að kikna undan álagi af loftslagskvíða, heldur viljum við frekar að það fái innblástur og verkfærasett til að fara og gera eitthvað. Við erum með þema á hverju ári og í ár er þemað rusl og hringrásarhagkerfið. Við fyllum sviðið af rusli, verðum með dansara og tónlistarfólk á milli atriða. Þetta er í raun og veru bara einstök upplifun og ég myndi segja að enginn ætti að missa af því,“ segir Edda Konráðsdóttir.

Höf.: Valgerður Laufey Guðmundsdóttir