Elín Guðrún Ingólfsdóttir fæddist 12. desember 1925. Hún lést 27. apríl 2024.

Útför fór fram 15. maí 2024.

„Blessað veri ljósið sem logaði á grönnum kveik, örlítil blaktandi týra í heimskautanóttinni,“ kvað Vilborg Dagbjartsdóttir.

Amma dró fyrsta andann fyrir norðan í Aðaldalnum, við heimskautsbaug í rafmagnsleysi í baðstofu í torfbæ í kaldri vetrartíð í desember.

Þessi granni kveikur stækkaði smám saman, logarnir urðu stærri og bjartari og urðu að sannkölluðum eldmóði. Og logarnir lifa áfram í öllum hennar afkomendum.

Þvílíkt og annað eins ævistarf er vandfundið! Amma eignaðist átta börn og kom þeim öllum til manns og bjó þeim fallegt og öruggt heimili – þau eru öll ótrúlega vel gerð, hraust, hamingjusöm og stundum aðeins of hress.

Hún stjórnaði og rak sitt stóra fyrirmyndarheimili meðfram því sem hún vann í fiski, vaknaði fyrst allra og bar út Moggann, skúraði Stapafell um tíma, setti niður kartöflur og ræktaði garðinn sinn (bæði bókstaflega og ekki). Hún bakaði allt milli himins og jarðar, eldaði frábæran mat og lagði sig fram um að bera fram hollan mat. Hún hafði stundum á orði að börnin sín væru helst til of grönn, hún hóf því hvern dag á að gefa þeim lýsi og heimalagað berjasaft.

Hún saumaði allt sem hægt er að sauma; barnaföt, gardínur, skírnarkjóla, jakkaföt, kápur, skvísukjóla, sængurver og jafnvel gallabuxur. Það liggja eftir hana meistaraverk í útsaumi, harðangur og klaustur í milliverkum og blúndur sem voru svo fínlegar að það mætti draga þær í gegnum giftingarhring. Það er mér í fersku minni þegar hún sat við og flosaði Gunnhildi kóngamóður. Seinna fór hún að leira, bræða gler og mála myndir.

Sama hvað það var, það lék allt í höndunum á henni – og afköstin, þau voru ótrúleg. Ég held samt að prjónaskapurinn hafi verið hennar eftiræti, já, kannski að hekla líka. Það ultu heilu lopapeysurnar af prjónunum hennar á meðan hún sat og horfði á sjónvarpið – ávallt með afa sér við hlið.

Allur ættbálkurinn á eftir hana lopapeysur, sokka, vettlinga, húfur og rúmteppi sem er svo vandað að ef þú skoðar verkin á röngunni er eins og það séu engin samskeyti.

Amma gerði allt og gat allt.

Það er svo merkilegt að hafa átt svona ömmu – hún var alltaf eitthvað að sýsla en hafði samt allan tíman í heiminum til að spjalla og hafði áhuga á öllu á milli himins og jarðar.

Hún kenndi mér t.d. að spila og við spiluðum oftast rússa. Henni fannst alveg sjálfsagt að fimm ára nafna hennar lærði að telja spilasortirnar. „Þú verður að telja Ella mín, annars vinn ég þig bara alltaf.“ Ég lærði auðvitað að telja sortir.

Hún hafði frábært skopskyn og það var fátt eins skemmtilegt og að segja henni brandara því hún skellihló alltaf þó allir aðrir ranghvolfdu í sér augunum.

Það var þó ekki bara það sem hún gerði sem er svo eftirminnilegt heldur líka hennar frábæri karakter. Hún var með ákveðnar skoðanir á hlutunum og ég á ótal setningar frá henni ömmu sem ég vitna reglulega í, og það fylgir yfirleitt hlátur í kjölfarið hjá okkur.

Ætli amma sé ekki mín stærsta fyrirmynd í lífinu. Ég ber óendanlega virðingu fyrir þessari stóru konu sem hefur verið mér svo mikilvæg. Ég hef alltaf dáðst að dugnaðinum í henni, gleðinni, væntumþykjunni (ég var að sjálfsögðu uppáhaldsbarnabarnið – spyrjið bara hvern sem er), ákveðninni og þrautseigjunni. Það sem ég er heppin að hafa átt svona ömmu – og fengið að heita í höfuðið á henni.

Takk elsku amma mín fyrir að þykja alltaf svona vænt um mig (það er svo sannarlega endurgoldið), takk fyrir brúnu augun og hvassa augnaráðið, takk fyrir stórkostlegar æskuminningar. Ég veit að þú varst orðinn södd lífdaga en ég á samt erfitt með að kveðja þig – því ég var ekki södd.

Þó ég búi ekki yfir hæfileikunum hennar ömmu né þessu stóíska geðslagi þá sé ég henni oft bregða fyrir í börnunum mínum og það hlýjar mér.

Elín G.
Ragnarsdóttir.

„Ég vil ekki fara til ömmu“ sagði ég víst fyrir 43 árum, þegar ég átti að fara í pössun í fyrsta skipti. Systkini mín voru gapandi hneyksluð, svo þegar mamma mín spurði af hverju ég vildi ekki fara til ömmu svaraði ég: „Amma segir að ég er Gudda grís!“

Amma mín var alls ekki stríðin eða hrekkjótt (hann afi sá um það) þvert á móti var hún einstaklega hlý og notaleg og sagði hlutina umbúðalaust og blátt áfram. Guddu grís kallaði hún mig af væntumþykju og ást.

Þetta er fyrsta ömmutengda minningin mín, sem er reyndar alls ekki mín minning þar sem ég var of ung til að muna eftir þessu, en ég hef heyrt söguna svo oft að mér finnst stundum eins og ég muni hana sjálf.

Mínar eigin minningar eru hinsvegar þannig að ég sótti mikið í að vera hjá ömmu og afa á Skólaveginum. Það var alltaf mikið líf og fjör á heimilinu enda eru mamma og systkini hennar átta talsins og öll sem eitt með rödd sem gæti borist yfir hafið. Best fannst mér samt þegar við amma vorum bara tvær að dúllast, amma sat þá við eldhúsborðið með prjónana sína og ég undir eldhúsborði með töluboxin hennar og dreifði þar úr öllum fallegu hnöppunum sem fylltu einar þrjár makkintosdollur og hlustaði hugfangin á á meðan amma söng fyrir mig allar Jesúvísurnar sínar.

Amma og afi áttu sumarbústað á Þingvöllum og þangað fékk ég að fara með þeim oft á tíðum, stundum vorum við fleiri barnabörnin og stundum fékk ég að taka vinkonur með, alltaf var Pedró hundurinn minn velkominn og þegar ég hugsa út í það núna held ég að amma hafi sjaldan fengið frið frá börnum, en ég fann aldrei fyrir öðru en að við værum öll hjartanlega velkomin.

Elsku dásamlega amma mín var aldrei of upptekin til að hlusta á vandamálin mín, hvort sem þau tengdust heimilisstörfum eða málum hjartans, hún gat ráðið í alla drauma og stutt við bakið á manni á meðan maður eltist við sína eigin drauma.

Eftir að amma flutti á Nesvelli naut ég þess að koma við hjá henni í kaffi, ég snyrti þá á henni neglurnar og hún sagði mér sögur af sér sem lítilli stelpu í Aðaldalnum, mikið sem mér þykir vænt um þessar stundir okkar. Heimsóknunum fækkaði þegar heimsfaraldurinn reið yfir og svo fór amma að veikjast. Þegar ég heimsótti hana í síðasta skiptið lá hún í rúminu og veitti mér litla athygli og ég var ekki viss hvort hún heyrði rausið í mér, en þegar ég sagði henni frá því að ég væri að fara að verða amma þá breiddist út breitt og bjart bros af vörum hennar og ég vissi að hún hlustaði á hvert orð.

Takk fyrir allt elsku amma mín og hvíldu í friði.

Ég læt fylgja með kvæði sem þú söngst alltaf fyrir mig þegar ég var lítil stelpa að leika mér á eldhúsgólfinu hjá þér á Skólaveginum.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson)

Jenný Rut
Ragnarsdóttir
Kaaber.

Elsku amma Ella.

Alltaf tókst þú vel á móti okkur systrum með þínu hlýja brosi og góða hjarta, svo létt í lund og ljúf við alla í kringum þig. Þú hafðir alltaf svo mikinn áhuga á því sem við vorum að gera, og hvattir okkur til að halda áfram að vera duglegar. Það var mjög skemmtilegt að koma í sumarbústaðinn ykkar afa á Þingvöllum. Þar var sko nóg að gera fyrir okkur krakkana, dúkkukofinn í garðinum var skemmtilegastur og gátum við gleymt okkur þar í leik allan daginn. Þú varst alltaf búin að baka góðar kræsingar fyrir okkur, kleinurnar þar fremst í flokki.

Elsku amma, þú varst mikil fyrirmynd, hörkukona sem hélst uppi stóru heimili og gerðir allt svo vel, svo hæfileikarík og listræn. Þú gerðir þér lítið fyrir og prjónaðir á alla fjölskylduna og njótum við systur nú góðs af og okkar börn. Einnig gerðir þú falleg listaverk úr gleri sem við systur munum alltaf eiga á heimilum okkar.

Við vitum að þú varst orðin mjög þreytt síðustu mánuði og mikið er gott að vita að þið afi séuð loks saman í draumalandinu.

Þín verður sárt saknað, elsku amma.

Þínar

Sandra og Sunna
Árnadætur.

Ung og fögur frá Húsabakka.

Ástina fannst í Keflavík.

Eignaðist þar átta krakka

Svo ótrúlega rík.

Margt eigum við þér að þakka.

Þú varst engri lík.

Lopapeysur, vettlingar og sokkar.

Handavinna, brauðbakstur og myndarlegheit.

Þú ætíð verður fyrirmyndin okkar.

Við njótum nú og pössum upp á þína sveit.

Nú komið er að kveðjustund.

Óteljandi minningar í okkar hjarta.

Þú alltaf svo hraust og létt í lund

með fallega brosið þitt bjarta.

Afi hefur þig kallað á sinn fund,

Ó hve ljúf verður sú stund.

Þú kenndir okkur að vera ánægð með það sem við höfum

Við út í lífið með þau heilræði förum.

Góða ferð elsku amma okkar.

Þín Hafsteinsbörn,

Helga, Hafdís,
Hjördís og
Hafþór.