Gerður Helgadóttir (1928-1975) Síðsumar, án ártals Skúlptúr úr málmi 65 x 55 x 55 cm
Gerður Helgadóttir (1928-1975) Síðsumar, án ártals Skúlptúr úr málmi 65 x 55 x 55 cm
Gerður Helgadóttir nam við Handíðaskólann á árunum 1945-47 en engin höggmyndadeild var þá við skólann og sótti hún einkatíma á því sviði til Sigurjóns Ólafssonar. Gerður varð fyrst Íslendinga til að nema í Flórens og var þar 1948-49

Gerður Helgadóttir nam við Handíðaskólann á árunum 1945-47 en engin höggmyndadeild var þá við skólann og sótti hún einkatíma á því sviði til Sigurjóns Ólafssonar. Gerður varð fyrst Íslendinga til að nema í Flórens og var þar 1948-49. Þá lá leið hennar til Parísar þar sem hún nam við Académie de la Grande Chaumière 1949-50 og árið eftir í einkaskóla Ossips Zadkines. Gerður bjó og starfaði í eða nærri Parísarborg að mestu leyti það sem eftir lifði ævinnar en hún lést aðeins 47 ára að aldri.

Gerður Helgadóttir var fyrst íslenskra myndhöggvara til að vinna fullkomin abstraktverk, verk þar sem ekki er vísað til veruleikans. Hún tileinkaði sér geómetríska abstraktlist í París en slík myndgerð var efst á baugi þegar Gerður kom þangað árið 1949. Á fyrstu einkasýningunni sem hún hélt á Íslandi, í Listamannaskálanum árið 1952, sýndi hún þrívíða abstraktlist hér á landi fyrst allra. Notkun járns í höggmyndalist var einnig nýlunda hér en sá málmur hentar vel til að útfæra fíngerð form sem útheimta nánast vísindalega nákvæmni. Síðar einkenndust verk hennar af hárfínum stálþráðum og eftir að hún hafði numið glerlist í París árið 1954 tengdi hún glerið einnig við höggmyndir sínar, felldi það inn í verkin. Gerður var frumkvöðull í glerlist hér á landi og gerði steinda glugga sem sjá má í nokkrum kirkjum landsins, svo sem Skálholtskirkju en einnig í kirkjum í Frakklandi og Þýskalandi. Auk glugga og skúlptúra gerði hún mósaíkmyndir og þekur ein þeirra flennistóran vegg Tollhússins við Tryggvagötu. Að Gerði látinni var Listasafni Kópavogs ánafnað fjölda listaverka eftir hana og kallast nú Gerðarsafn.

Verkið Síðsumar var líklega gert á árunum 1955-56 og er úr járni og gleri. Það er eitt þeirra myndverka Gerðar sem eru að mestu leyti samhverf en þó með tilbrigðum sem gæða það lífi sem dregur þó ekkert úr hve vandlega uppbyggt það er.