Jarþrúður Baldursdóttir fæddist í Reykjavík 6. nóvember 1952. Hún lést á heimili sínu 7. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Baldur Árnason, f. 8.5. 1926, d. 4.4. 2002, og Anna

Ástveig Guðmundsdóttir, f. 17.10. 1930, d. 29.1. 2005.

Alsystkini Jöru eru Magnús Baldursson, f. 11.4. 1949, Sveinlaug Júlíusdóttir, f. 26.6. 1950, d. 10.4. 2008, Þorsteinn Lavoque, f. 11.12. 1954, Þórbjörg Heiða Baldursdóttir, f. 20.2. 1957.

Hálfsystkini eru Sigríður Berglind Baldursdóttir, f. 6.6. 1946, d. 16.1. 2024, Gísli Einarsson, f. 5.6. 1948, Baldur Baldursson, f. 3.12. 1957, Guðmundur Júlíusson, f. 26.10. 1959, Árni Baldursson, f. 9.8. 1960, Dagbjört Baldursdóttir, f. 11.9. 1965.

Eiginmaður Jöru er Hólmar Víðir Gunnarsson, f. 31.5. 1951. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Gunnar, f. 10.2. 1970, og á hann tvær dætur, Brynju, f. 8.7. 1988, og Ásgerði, f. 30.9. 1993. 2) Svava Júlía, f. 17.5. 1974, maður hennar er Sigurður Steinsson, f. 9.5. 1977, dóttir þeirra er Júlía, f. 10.6. 2007. 3) Sóley, f. 5.6. 1975, eiginmaður hennar er Magnús Ninni Reykdalsson, f. 18.5. 1970. Þau eiga börnin Hólmfríði Erlu, f. 14.9. 1998, og Reykdal Mána, f. 7.3. 2010. 4) Gilbert Árni, f. 16.12. 1980, eiginkona hans er Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir, f. 6.6. 1987, og eiga þau börnin Sæmund Hólm, f. 14.9. 2008, Jöru Björgu, f. 15.6. 2010, og Ásdísi Björgu, f. 15.10. 2019. Gilbert á soninn Andra Frey, f. 24.7. 2002, móðir hans er Tinna Ingibergsdóttir, f. 22.3. 1982.

Útförin hennar fer fram í Þorlákshafnarkirkju í dag, 16. maí 2024, klukkan 13.

Það er erfitt að skrifa minningargrein til þín elsku eiginkona, mamma, tengdamamma og amma okkar. Við trúum því ekki að þú sért farin frá okkur. Konan sem var stoð okkar og stytta. Konan sem var okkur svo mikils virði. Þú varst alltaf svo ótrúlega sterk og æðrulaus gagnvart veikindum þínum undanfarin ár og vildir hlífa okkur við því en skammaðir okkur hiklaust ef við reyndum að hlífa þér við okkar áhyggjum og verkefnum í lífinu.

Við minnumst þín með miklu þakklæti fyrir allt sem þú varst. Þú varst fallega, duglega, góða og lífsglaða konan mín, hlýja góða mamma okkar og yndisleg amma okkar. Sem hlúðir vel að æsku okkar systkina og bjóst okkur hlýtt og gott heimili og þrátt fyrir mikla vinnu utan heimilis þá varstu góð húsmóðir og t.d. saumaðir þú fötin á okkur og gerðir það oftast seint á kvöldin og á næturnar þegar ró var í húsinu. Þegar mikið lá við leyfðir þú okkur að koma með í vinnuna, t.d. þegar þú varst að vinna í síldinni í Suðurvör, og munum við hvað þú varst mikið hörkutól og eldsnögg að fylla hverja tunnuna á fætur annarri. Eftir langa vinnudaga sástu um allt sem viðkemur heimilishaldi og þetta gerðir þú að mestu ein því ég, eiginmaður þinn, var mikið á sjó til að færa björg í bú.

Við reyndum eftir bestu getu að ferðast því það þótti okkur öllum mjög gaman. Fórum mikið austur á Núp, fórum í útilegur með appelsínugula tjaldvagninn, hringferðir og utanlandsferðir. Við minnumst þessara tíma með hlýju og söknuði þar sem þú varst svo hraust, kát og lífsglöð.

Þú opnaðir heimilið fyrir öllum sem óskuðu þess og hlúðir að öllum af bestu getu. Það eru ófáar kveðjurnar sem við erum að fá frá fólki sem þú hefur reynst vel á erfiðum tímum í lífi þess.

Þú áttir góðar vinkonur og var síminn óspart notaður. Því miður eru nokkrar þeirra látnar en þær hittir þú núna.

Þegar þú varst um fertugt byrjaði skrokkurinn þinn að verða þér erfiður og byrjaði langt og strangt ferli með læknum að finna út hvað hrjáði þig, en þú harkaðir áfram og stóðst þig svo vel.

Þú sást um bókhald fyrir útgerðina og fiskverkunina sem við rákum og varst ótrúleg í að fá í gegn það sem þú vildir í viðskiptum. Við börnin munum vel hvernig þú settir þig í stellingu, röddin breyttist þegar þú varst að hringja í bankann eða eitthvað varðandi útgerðina.

Seinni árin hafa verið þér erfið, yndið okkar, en aldrei tókstu annað í mál en að við fengum að væla í þér yfir einhverjum erfiðleikum sem við vorum að eiga við sem voru samt svo smáir miðað við hvað þú varst að ganga í gegnum. Þú varst alltaf kletturinn okkar og vonandi við þinn.

Við skiljum ekki hvernig þú gast verið svona andlega sterk en það varstu elsku gull. Hundrað milljón orð geta ekki lýst hvernig okkur líður núna því missirinn er svo sár og mikill.

Við elskum þig af öllu hjarta og geymum allar dýrmætu minningarnar í hjörtum okkar og reynum að halda áfram án þín. Við elskum þig og söknum þín.

Hinsta kveðja,

Hólmar Víðir
og fjölskylda.