Saga í tónum „Sæunn er með öðrum orðum að segja hlustendum sögu með túlkun sinni,“ segir í rýni um túlkun Sæunnar Þorsteinsdóttur á sellósvítum Bachs.
Saga í tónum „Sæunn er með öðrum orðum að segja hlustendum sögu með túlkun sinni,“ segir í rýni um túlkun Sæunnar Þorsteinsdóttur á sellósvítum Bachs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geisladiskur Marrow ★★★★★ Verk eftir Johann Sebastian Bach (sex sellósvítur, BWV 1007-1012). Sæunn Þorsteinsdóttir (einleikari). Sono Luminus – DSL-92263, árið 2023. Heildartími: 91 mín. (tveir geisladiskar).

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Sellósvíturnar sex eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750) eru algjört grundvallarrit sellóbókmenntanna. Svíturnar samdi Bach að öllum líkindum á árunum 1717-1723. Þá starfaði hann sem hirðorganisti í Köthen í Þýskalandi. Ásamt partítunum og svítunum fyrir einleiksfiðlu, sem samdar voru um svipað leyti, eru sellósvíturnar stórkostlegasta strengjatónlist sem samin hefur verið. Raunar má segja að sá sellóleikari sem ekki hefur reynt sig við þær líkist helst presti sem á ólesna fjallræðuna.

Allar svíturnar sex eru byggðar upp með sama hætti. Þær hefjast þannig á prelúdíu en henni fylgja svo fimm dansþættir (allemande, courante, sarabanda, galanterie (menúett, bourrée og/eða gavotta) og loks gigue). Þær hafa ekki varðveist með hendi tónskáldsins en eitt elsta handritið er með hendi eiginkonu Bachs, Önnu Magdalenu. Það hefur gert forleggjurum nokkuð erfitt fyrir hvað útgáfu varðar en samanburðarrannsóknir hafa leitt í ljós að handrit Önnu Magdalenu er talið nokkuð nálægt upprunagerð verkanna.

Svíturnar voru lítið fluttar eftir daga Bachs og það var raunar ekki fyrr en spænski sellóvirtúósinn Pablo Casals rakst á prentaða gerð þeirra í fornbókabúð í Barcelóna árið 1889 – þá 13 ára gamall – að farið var að leika verkin á ný. Casals varð raunar fyrstur sellóleikara til þess að hljóðrita svíturnar (1936-1939) en síðan þá skipta hljóðritanir þeirra tugum ef ekki hundruðum. Má þar nefna sellóleikara á borð við János Starker, Paul Tortelier, Anner Bylsma, Mstislav Rostropovítsj og auðvitað Yo-Yo Ma. Samkeppnin er því hörð.

Nýjasta upptakan á sellósvítunum kemur frá bandaríska forleggjaranum Sono Luminus og það er Sæunn Þorsteinsdóttir sem leikur á sellóið. Hljómdiskinn nefnir hún Marrow og vísar þar til íslenska hugtaksins „[þetta er] mergurinn málsins“. Sjálf hefur Sæunn sagt frá því að í heimsfaraldrinum hafi hún hallað sér að svítunum og raunar leitað skjóls í þeim. Hún hóf þannig að leika þær í heild sinni og úr varð nokkurs konar ferðalag. Heildarmyndin sem dróst upp lýsir þannig mannlegum eiginleikum verkanna eða meðal annarra orða: „Þetta eru eins og sex manneskjur, allar með sína fegurð og eiginleika,“ eins og Sæunn hefur sjálf komist að orði. Upptökur fóru fram í miðjum heimsfaraldri (í mars 2021) og upptökum stjórnaði Dan Merceruio. Hljóðið er mjög gott; eftirhljómur er þannig alveg mátulegur og tónninn hjá Sæunni er bæði breiður og hlýr en um leið syngjandi.

Sæunn sleppir endurtekningum í svítunum en markmiðið með því er að varpa betra ljósi á heildarmynd verkanna. Sæunn er með öðrum orðum að segja hlustendum sögu með túlkun sinni. Tempóin hljóma öll býsna eðlilega og þó svo að hún leyfi sér að draga seiminn hér og þar er alltaf um að ræða eðlilega framvindu í flutningnum. Ég veit raunar ekki hvað ég á margar hljóðritanir af þessu meistaraverki Bachs en túlkun Sæunnar er með þeim betri sem ég hef heyrt í seinni tíma. Hún er þannig svo „hlý“, en gallinn við margar upptökur í dag, sérstaklega upprunatúlkanir, er að þær eru of „come scritto“, það er að segja leiknar án tilfinningar og hljóma þannig „kaldar“. Því er alls ekki að heilsa hjá Sæunni. Upptakan er líka „jöfn“, það er heildarsvipur á henni og „sagan“ sem hún er að segja með túlkuninni kemst vel í gegn. Hendingar eru þannig skýrar og músíkalskar og Sæunn leyfir þér einmitt að litast um í raddskránni og draga fram ýmis smáatriði, en þó aldrei á kostnað heildarinnar.

Ég saknaði endurtekninga ekki sérstaklega, nema ef vera skyldi í „tregafullri“ d-moll svítunni (númer tvö) en það er kannski bara vegna þess að sú svíta er í uppáhaldi hjá mér og mér finnst ég geta hlustað á hana endalaust – það er að segja aftur og aftur. Hins vegar skilar „sakleysi“ fyrstu svítunnar sér vel, sem og „bjartsýni“ þeirrar þriðju. Sama má segja um „óheflaða“ fjórðu svítuna, „harm“ þeirrar fimmtu og loks „endurlausnina“ í lokasvítunni.

Þetta er ferðalag sem ég mæli með að hlustendur leggist í. Af því verður enginn svikinn!