Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ferðalög flugvirkja, sem vann hjá Samgöngustofu árið 2018, teljist til vinnustunda. Staðfesti Hæstiréttur þar dóm Landsréttar sem hafði dæmt á þann veg að ferðatími teldist til vinnustunda en héraðsdómur komst einnig að sömu niðurstöðu

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ferðalög flugvirkja, sem vann hjá Samgöngustofu árið 2018, teljist til vinnustunda.

Staðfesti Hæstiréttur þar dóm Landsréttar sem hafði dæmt á þann veg að ferðatími teldist til vinnustunda en héraðsdómur komst einnig að sömu niðurstöðu. Málið hefur verið sagt geta haft fordæmisgildi fyrir íslenskan vinnumarkað.

Flugvirkinn hafði ferðast tvívegis til Austurlanda nær árið 2018 en ekki fengið greiddar þær vinnustundir sem það tók hann að koma sér á milli staða utan hefðbundins vinnutíma. Fór hann í mál við íslenska ríkið á þeirri forsendu.

Hvað telst til vinnutíma?

Málsatvik eru þau að maðurinn er flugvirki hjá Samgöngustofu. Hefðbundinn vinnutími hans er frá 8-16 á virkum dögum en vegna vinnu sinnar þarf hann að fara í eftirlitsferðir til útlanda.

Samgöngustofa hefur miðað við að á ferðadögum sé skilað átta stunda vinnudegi þegar farið er á virkum dögum. Ef ferðast er um helgar eða á helgidögum hefur stofnunin veitt frídag á launum á móti. Jafnframt hefur stofnunin greitt flugvirkjum ferðaálag í samræmi við kjarasamning. Ágreiningurinn lýtur því að ferðatíma fyrir og eftir átta stunda dagvinnu á virkum dögum en stofnunin hefur ekki talið tíma utan dagvinnu til vinnutíma.

Til viðbótar þessu hafa flugvirkjar gert þá kröfu að til vinnutíma teljist tíminn allt frá brottför að heiman þar til komið er á hótel erlendis og það sama gildi þegar ferðast er aftur til Íslands.

Ríkinu er gert að greiða flugvirkjanum um milljón króna í málskostnað. Jón Sigurðsson hrl. sótti málið en Óskar Thoranensen hrl. varðist.