Garpar Góður hópur í glampandi sólskini á Hrútsfjallstindum. Í baksýn sést til Öræfajökuls, þangað sem margir horfa þessa dagana og ætla sér óhikað að ná alla leiðina á toppinn.
Garpar Góður hópur í glampandi sólskini á Hrútsfjallstindum. Í baksýn sést til Öræfajökuls, þangað sem margir horfa þessa dagana og ætla sér óhikað að ná alla leiðina á toppinn. — Ljósmynd/Hermann Snorrason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þó að fólk sé þrautreynt í fjallaferðum og hafi mikla reynslu er ekkert til í Öræfunum sem kallast getur auðveldur tindur,“ segir Bjarni Már Gylfason, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. „Göngur á hæstu fjöll landsins eru alltaf krefjandi og þarfnast góðs undirbúnings

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þó að fólk sé þrautreynt í fjallaferðum og hafi mikla reynslu er ekkert til í Öræfunum sem kallast getur auðveldur tindur,“ segir Bjarni Már Gylfason, fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands. „Göngur á hæstu fjöll landsins eru alltaf krefjandi og þarfnast góðs undirbúnings. Því fylgir einstök tilfinning að komast á þessa tinda. En toppurinn er ekki það eina sem skiptir málið heldur leiðangurinn allur og að tryggja öryggi og góða líðan fólks alla leið.“

Umhverfið er stórbrotið og fallegt

Maí er yfirleitt besti tíminn til að ganga á hæstu tinda landsins á Öræfajökli. Vetrarsnjór liggur enn yfir og flestar jökulsprungur fullar af snjó. Og nú skal leggja á brattann og horfa hátt.

Bjarni Már Gylfason er meðal þeirra sem verða í forystu í 20 manna leiðangri á vegum Ferðafélags Íslands á Hrútsfjallstinda í Öræfum nú um helgina, hvítasunnuna. Um aðra helgi, eftir rúma viku, er svo stefnt á Hvannadalshnúk, hæsta fjall landsins. Í síðustu viku fór um 20 manna hópur á vegum FÍ á Sveinstind, sem er annar hæsti tindur landsins.

Hrútsfjallstindar eru sunnanvert á Vatnajökli, norðvestan við Hvannadalshnúk. Að ganga á tindana, sem eru alls fjórir, er 15-16 tíma ferð sem hefst við Hafrafell. Eftir þramm á láglendi er gengið upp brattar hlíðar Hafrafells og svo um fjallseggjar milli Skaftafells- og Svínafellsjökuls. Leiðin á þessum slóðum er brött, grýtt og seinfarin en umhverfið stórbrotið og fallegt, samkvæmt lýsingum Bjarna Más. Farið er um Sveltiskarð sem dregur nafn sitt af því að fé sem þangað álpaðist komst ekki í burtu, svalt heilu hungri og drapst.

„Þarna virðist við fyrstu sýn að engum sé fært nema fuglinum fjúgandi, en allt er þetta fært vönu fólki með góðan búnað,“ segir Bjarni Már þegar hann lýsir leiðinni að Hrútsfjallstindum sem eru alls fjórir. Í ferð helgarinnar er stefnt á þann hæsta, Hátind, sem er 1.875 metra hár og ef færi gefst er farið á fleiri. Útsýni þaðan er einstakt, sérstaklega er útsýni til Hvannadalshnúks magnað úr þessari átt.

„Gangan upp á Hrútsfjallstinda er 8-9 tímar og tekur býsna mikið á en við förum hægt og reynum líka að njóta. Niðurleiðin er líka krefjandi og getur tekið 5-6 tíma. Þetta er með öðrum orðum sagt ganga sem krefst mikils undirbúnings. Enginn styttir sér leið eða fer beint úr sófanum af stað í svona leiðangur. Göngur sem byggja upp þol eru nauðsynleg þjálfun. Einnig tekur tíma að læra að athafna sig í vetrarferðum,“ segir Bjarni Már sem ætlar 15-16 tíma í verkefnið allt. Væntanlega verður lagt af stað snemma aðfaranótt næstkomandi laugardags, en slíkt ræðst þó alfarið af veðri. Sæta þarf lagi til að ná allra bestu aðstæðum en það mat kallar á mikla reynslu.

Ísöxi, broddar, jöklabelti, hjálmar og línur eru nauðsynlegur búnaður í göngum upp á háa jökultinda auk þess sem huga þarf vandlega að næringu og öllum klæðnaði.

„Fararstjórar eru auk þess með margvíslegan öryggisbúnað en það er okkar fyrsta forgangsmál að tryggja öryggi göngufólksins,“ segir Bjarni Már.

Ljónshöfuð og lengsta brekka á Íslandi

Í göngu á Hvannadalshnúk um aðra helgi fer hópur FÍ sem er kallaður Alla leið. „Fyrir metnaðarfullt göngufólk er varla til flottara markmið en að komast á Hvannadalshnúk,“ segir Bjarni Már. „Við göngum frá Sandfelli í Öræfum upp á Sandfellsheiði og í átt að jöklinum. Förum væntanlega fyrripart nætur af stað til að nýta tímann sem best. Fólk í hópnum hefur á milli sín línu þegar gengið er upp eina lengstu brekku á Íslandi. Þarna reynir á alla. Þegar svo komið er upp á sléttu Öræfajökuls í 1.850 metra hæð blasir hnúkurinn við í öllu sínu veldi og minnir helst á ljónshöfuð.“

Eftir göngu á hásléttu Öræfajökuls er lagt á sjálfan Hvannadalshnúk. Þá setur göngufólk á sig brodda og tekur sér ísöxi í hönd fyrir atlöguna að sjálfum hnúknum sem er 2.109 metra hár. „Svona leiðangur tekur oftast 13-15 klukkustundir og er krefjandi fyrir alla. Fyrir mér er alltaf sérstakur hátíðarbragur á göngu á Hvannadalshnúk með FÍ,“ segir Bjarni Már sem nú stefnir á þennan hæsta tind Íslands í 35. sinn.