Hjörvar Garðarsson fæddist 30. júní 1943. Hann lést 3. maí 2024.

Útför hans fór fram 14. maí 2024.

Í dag kveðjum við elskulegan mág og svila okkar, Hjörvar Garðarsson.

Hjörvar og Ágústa systir mín gengu í hjónaband í nóvember 1970.

Fyrstu búskaparárin bjuggu þau í Vesturbergi og urðum við nágrannar þar um nokkurra ára skeið. Það var mikill samgangur á milli heimila okkar og börnin okkar léku sér saman og urðu góðir vinir. Þau keyptu síðan æskuheimili Hjörvars á Hjallavegi 10 og bjuggu þar lengst.

Á heimili Ágústu og Hjörvars var alltaf mikill gestagangur og áttu margir athvarf hjá þeim. Hjörvar var greiðvikinn og hjálpsamur og mátti ekkert aumt sjá. Hjörvar var mikill félagsmálamaður og starfaði í félögum tengdum áhugamálum sínum. Hann var mikill Alþýðubandalagsmaður og trúr sínum skoðunum. Barðstrendingafélagið var honum kært alla tíð enda átti hann sterkar rætur í fæðingarbæ sínum Patreksfirði.

Hann var mikill fjölskyldumaður og naut þess að vera með Ágústu sinni og fjölskyldunni þeirra. Þau nutu þess að ferðast vítt og breitt um landið með tjaldvagninn sinn.

Hjörvar var yfirleitt með bros á vör, tilbúinn að glensast og gleðjast með okkur öllum í stórfjölskyldunni. Nú þegar komið er að kveðjustund minnumst við Hjörvars með þakklæti og virðingu.

Við vottum Ágústu, Borgþóri, Svanhildi og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð í sorginni við fráfall Hjörvars.

Minning um góðan mann lifir.

Ingiríður Þórisdóttir og Ingvar Einarsson.