— AFP/Vyacheslav Prokofyev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Vladimír Pútín Rússlandsforseti fagnaði í gær árangri rússneska hersins í Úkraínu, en varnarmálaráðuneyti landsins sagðist í gær hafa hertekið tvö þorp í sókn sinni í Karkív-héraði. Þá sagðist herinn hafa endurheimt bæinn Robotíne í Saporísja-héraði, en hann var einn af fáum bæjum sem Úkraínumenn náðu að frelsa í héraðinu í gagnsókn sinni síðasta sumar, en talsmenn Úkraínuhers sögðu þá yfirlýsingu vera uppspuna.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vladimír Pútín Rússlandsforseti fagnaði í gær árangri rússneska hersins í Úkraínu, en varnarmálaráðuneyti landsins sagðist í gær hafa hertekið tvö þorp í sókn sinni í Karkív-héraði. Þá sagðist herinn hafa endurheimt bæinn Robotíne í Saporísja-héraði, en hann var einn af fáum bæjum sem Úkraínumenn náðu að frelsa í héraðinu í gagnsókn sinni síðasta sumar, en talsmenn Úkraínuhers sögðu þá yfirlýsingu vera uppspuna.

Tíðindin komu sama dag og Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lýsti því yfir að hann hefði frestað fyrirhuguðum ferðalögum til erlendra ríkja vegna ástandsins í Karkív-héraði, en hann hugðist meðal annars fara í opinbera heimsókn til Spánar síðar í þessari viku. Þá tilkynnti skrifstofa Selenskís að hann myndi senda frekari liðsafla til Karkív-héraðs til að stemma stigu við sókn Rússa í héraðinu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hélt áfram tveggja daga heimsókn sinni til Úkraínu í gær, og nýtti tækifærið til þess að tilkynna um frekari hergagnasendingar, sem að þessu sinni væru metnar á um tvo milljarða bandaríkjadala, frá Bandaríkjunum til Úkraínumanna.

Þá vakti athygli að Blinken virtist einnig gefa grænt ljós á að bandarísk vopn væru notuð til árása innan Rússlands, en Bandaríkjastjórn er sögð hafa verið því mjög mótfallin undanfarin misseri. „Við höfum ekki hvatt til þess eða gert Úkraínumönnum kleift að ráðast á skotmörk utan Úkraínu, en á endanum verða Úkraínumenn að taka sínar eigin ákvarðanir um það hvernig þeir heyja þetta stríð,“ sagði Blinken.

Drógu sig frá landamærunum

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagðist í gær hafa náð þorpunum Hlíboke og Lúkjantsí á sitt vald í Karkív-héraði, en bæði eru rétt rúmlega fimm kílómetra frá landamærum Rússlands og Úkraínu. Áætlað er að Rússar hafi sent um 30.000 manna herlið til héraðsins og sögðu sjónarvottar um helgina að þeir hefðu sums staðar mætt lítilli sem engri mótspyrnu.

Talsmaður Úkraínuhers sagði í gær að það væri rétt að herinn hefði dregið lið sitt til baka frá landamærunum við Rússland síðustu daga, og að það hefði verið gert til þess að varðveita líf hermanna og til þess að taka upp betri varnarstöður, sem væru ekki jafnnálægt stórskotaliði Rússa.

Þá báru talsmenn hersins til baka yfirlýsingar Rússa um að þeir hefðu hertekið þorpið Robotíne á ný. Serhí Skibtsjúk, talsmaður 65. herfylkis Úkraínuhers, sagði við úkraínska fjölmiðla í gær að Rússar reyndu á hverjum einasta degi að hertaka bæinn en að þeim væri sömuleiðis „sparkað út á hverjum degi“.

Hvetja fólk til að flýja bæinn

Úkraínumenn hafa nú þegar flutt á brott um 8.000 óbreytta borgara frá þeim svæðum sem nú liggja næst víglínunni í Karkív-héraði, en yfirvöld í bænum Vovtsjansk skoruðu í gær á þá sem ekki hefðu yfirgefið hann að flýja við fyrsta tækifæri. Rússar gerðu harða hríð að Vovtsjansk í fyrradag og réðust á bæinn með loftárásum, drónum og stórskotaliði.

Oleksí Karkívkskí, lögreglustjóri í Vovtsjansk, sagði í gær að Rússar hefðu náð fótfestu í bænum, en að lögreglan væri að aðstoða fólk við að flýja undan átökunum. Þá sögðu yfirvöld að harðir götubardagar geisuðu nú í bænum, en um 20.000 manns bjuggu þar áður en Rússar hófu innrás sína.

Innanríkisráðuneyti Úkraínu sagði að þrír óbreyttir borgarar hefðu fallið í Karkív-héraði á undanförnum sólarhring og fimm til viðbótar særðust í skothríð Rússa í héraðinu. Þá féllu tveir óbreyttir borgarar í loftárás Rússa á borgina Dnípró.

Ætla að stórauka hergagnaframleiðslu Rússlands

Pútín Rússlandsforseti fundaði í gær með helstu yfirmönnum hersins og var sjónvarpað frá fundinum í rússnesku sjónvarpi. Var þetta fyrsti opinberi fundur Pútíns með Andrei Belousov, nýskipuðum varnarmálaráðherra Rússlands, eftir að Pútín skipaði hann í embættið. Fagnaði Pútín árangri Rússahers í Karkív-héraði, og sagðist hann trúa því að frá og með þessu ári myndi Rússaher bæta stöðu sína í Úkraínu á hverjum einasta degi.

Pútín sagði á fundinum að Rússar þyrftu að þróa kraftmeiri og háþróaðri vígbúnað, og að það gæti flýtt fyrir endanlegum sigri Rússa í Úkraínu, á sama tíma og hann kallaði eftir stóraukinni og nýtískuvæddari hergagnaframleiðslu Rússlands.

„Við höfum sagt mörgum sinnum að sá sem er fljótari að tileinka sér nýjustu aðferðir í hernaði fer með sigur af hólmi. Við þurfum að vera einu skrefi á undan,“ sagði Pútín m.a. á fundinum. „Við höfum allt sem við þurfum til þess, og margt hefur þegar verið gert, en við þurfum að tvöfalda og þrefalda viðleitni okkar á þessu sviði.“

Ummæli Pútíns þóttu renna stoðum undir þá kenningu að hann hefði m.a. skipað Belousov, sem er hagfræðingur með enga hernaðarlega reynslu, í embætti varnarmálaráðherra til þess að reyna að styrkja og betrumbæta hergagnaiðnað Rússa.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson