Jóhann Rúnar Björgvinsson
Jóhann Rúnar Björgvinsson
Þriðja söguskoðunin um uppruna þjóðarsáttar. … Oft er sagt að það þurfi hagfræðing til að undirbúa jarðveginn eða plægja akurinn!

Jóhann Rúnar Björgvinsson

Heyri að menn eru ekki á eitt sáttir um uppruna þjóðarsáttar; hér fylgir smá innlegg í þá umræðu. En fyrst, hvenær kemur hugtakið þjóðarsátt fyrst fram í þeirri merkingu sem það er notað? Líklega er það í Morgunblaðsgreininni „Eru lægstu laun of lág eða þau hæstu of há?“ sem birtist 3. júní 1987, en þar segir m.a.: „(a) Heildarsamkomulag eða þjóðarsátt þar sem samið yrði um ákveðinn launastiga er mjög fjarlægt. Í fyrsta lagi er ólíklegt að menn sættist á slíkt. Í öðru lagi eru líkur á að ýmsir starfshópar mundu ekki æxla tilætlaða ábyrgð og rifu sig lausa. Og í þriðja lagi þyrfti slík sátt flókið og kostnaðarsamt eftirlits- og leiðréttingarkerfi.“

Brýning aðila vinnumarkaðarins

Í annarri grein, „Efnahagsvandinn“ frá 19. janúar 1988, eru aðilar vinnumarkaðarins hvattir; hér er brot úr þeirri grein: „Stjórnvöld bera ekki ein ábyrgð á hvernig þjóðarbúinu reiðir af. Aðilar vinnumarkaðarins bera einnig sína ábyrgð og sömuleiðis einstakir atvinnurekendur vegna verð-, framleiðslu- og fjárfestingarákvarðana þeirra. Allmargir hafa notið þeirra skammtíma kaupmáttaraukningar sem myndast hefur vegna mistaka í stjórn peningamála og ættu því að geta látið af hendi hluta hennar með langtíma hagsmuni í huga. … Líklegt er að sú lausn sem þar er mælt með (grein 3.6. 1987), þótt erfið sé, veiti aukið svigrúm og varanlegri lausn á efnahagsvanda okkar. Það er ekkert sem segir að það þurfi að vera einfalt að vinna að betra og réttlátara þjóðfélagi. Miklu frekar eru líkur á að menn þurfi að leggja sig fram til að ná slíkum markmiðum. Og spurningin er um siðferðisvitund þeirra kynslóða sem nú eru að vaxa úr grasi og taka við, hvort þær hryllir ekki við því óréttlæti sem verðbólgan veldur, og séu því tilbúnar til að leggja mikið á sig til að finna varanlega lausn á þeim vágesti sem ýtir undir spillingu og veikir lýðræðið …“

Og enn um þjóðarsátt

Í þriðju greininni, „Fastgengisstefna“ frá 26. apríl 1988, segir m.a.: „Eðlilegt er að menn vilji halda þeim kaupmætti sem þeir hafa áunnið sér, en þó er ljóst að hluti hans hefur komið til vegna mistaka eins og áður greinir. Í umræðunni er oft talað um að leiðrétting á gengi hafi aðeins í för með sér aukna verðbólgu og sömu erfiðleika og áður að nokkrum mánuðum liðnum, þar sem launþegar muni krefjast bóta vegna skerðingar á kaupmætti sem slík leiðrétting hefur í för með sér. En eitt er víst að mikill viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun getur ekki staðist til lengdar. Því verður að finna lausn á þessum vanda fyrr eða síðar og helst þá sem veldur samfélaginu minnstum tilkostnaði. Sú lausn er ekki auðfundin né einföld. Líklega liggur hún í einhvers konar þjóðarsátt um hvernig megi leiðrétta þessi mistök með minnstum tilkostnaði. Margir þurfa að gefa eftir skammtíma hagsmuni í stað langtíma hagsmuna og hagsmuna samfélagsins í heild. Vilji fyrir slíkri þjóðarsátt er ef til vill ekki mikill um þessar mundir, en hvert stefnir?“

Fleiri greinar voru birtar í Morgunblaðinu árið 1988, eins og „Orsakir þenslunnar“, „Ræða seðlabankastjóra“ og „Peningar og peningamagn“ sem voru á sömu nótum. Oft er sagt að það þurfi hagfræðing til að undirbúa jarðveginn eða plægja akurinn!

Höfundur er fv. starfsmaður AGS.