Bjarni Þór Einarsson fæddist 15. mars 1936. Hann lést 18. apríl 2024.

Útför Bjarna fór fram 6. maí 2024.

Elsku Bjarni.

Nú ertu farinn til Imbu þinnar elsku Bjarni og mikið hefur hún Imba mín tekið vel á móti þér. Ég varð þeirra gæfu aðnjótandi að kynnast Bjarna og Imbu í gegnum Grétar og þá hafði ég sjaldan kynnst annarri eins góðsemi, þau eignuðu sér hvert bein í mér og mér þótti svo undurvænt um þau. Því miður voru heimsóknirnar ekki eins margar og ég vildi þar sem langt var á milli okkar en þegar maður kom í heimsókn var ávallt hlaðborð hjá Imbu og Bjarni sýndi okkur með stolti fínu svalirnar í Pósthússtrætinu þar sem hann gat fylgst með bátunum koma inn í höfnina og vökvað jarðarberjaplönturnar.

Einnig minnist ég með hlýju allra símtalanna frá þeim meðan Imba var á lífi. Takk fyrir hlýjuna og kærleikann sem þið sýnduð mér elsku Bjarni og ég mun ávallt minnast ykkar með mikilli hlýju í hjarta.

Ekki standa við gröf mína grátandi …

Ég er ekki hér …

Ég er allir þeir þúsund vindar sem blása …

Ég er demantaglitrið í snjónum …

Ég er sólargeislinn sem vekur þig að morgni dags …

Ég er ljúft haustregnið sem kyssir vanga þinn …

Ég er stjarnan sem skín skærast á nóttunni …

og horfi til þín á meðan þú sefur svo ekki gráta mig.

Takk fyrir allar góðu minningarnar.

Ellen Erlingsdóttir.