Slóvakía Á þessu skjáskoti má sjá lífverði Ficos bera hann að bílnum.
Slóvakía Á þessu skjáskoti má sjá lífverði Ficos bera hann að bílnum. — AFP/RTVS
Forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, var sagður í lífshættu eftir að honum var sýnt banatilræði í gær. Fico var á leiðinni frá ríkisstjórnarfundi, sem haldinn var í bænum Handlova, þegar hann var skotinn

Forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, var sagður í lífshættu eftir að honum var sýnt banatilræði í gær. Fico var á leiðinni frá ríkisstjórnarfundi, sem haldinn var í bænum Handlova, þegar hann var skotinn. Lífverðir og vegfarendur sem urðu vitni að tilræðinu sneru tilræðismanninn niður á staðnum.

Sjónarvottar sögðust hafa heyrt minnst fjóra skothvelli, og féll Fico í jörðina eftir að hann var skotinn. Lífverðir Ficos brugðust skjótt við og lyftu honum upp í bíl forsætisráðherrans. Þaðan var honum ekið að þyrlu sem flutti hann á næsta sjúkrahús.

Engar fregnir bárust af líðan Ficos fyrst um sinn, en stjórnandi sjúkrahússins sagði síðar um daginn að Fico yrði fluttur til borgarinnar Banska Bystrica, þar sem höfuðborgin Bratislava væri of langt í burtu. Þá staðfestu stjórnvöld að Fico væri talinn í lífshættu og að hann hefði verið hæfður nokkrum sinnum.

Árásin fordæmd víða

Þjóðarleiðtogar víða um heim brugðust við árásinni með því að fordæma hana og senda bataóskir til Ficos og fjölskyldu hans. Zuzana Caputova Slóvakíuforseti fordæmdi árásina í gær og óskaði Fico skjóts bata. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fordæmdi árásina einnig mjög og sagði að ofbeldisverk af þessu tagi ættu sér engan stað í samfélagi okkar og græfu undan lýðræðinu. Sagði Von der Leyen að hugur sinn væri hjá Fico og fjölskyldu hans.

Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands lýsti sömuleiðis yfir hryllingi sínum vegna árásarinnar á Fico, sem Orbán kallaði vin sinn. Óskaði Orbán þess að Guð blessaði Fico og Slóvakíu. Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fordæmdi einnig árásina og sagði brýnt að tryggja að ofbeldi yrði ekki að normi í ríkjum heims.