Grímsey Enn er nokkuð í land með kirkjuna þó vilji heimamanna sé mikill.
Grímsey Enn er nokkuð í land með kirkjuna þó vilji heimamanna sé mikill. — Ljósmynd/Óli Björn Björgvinsson
Framkvæmdir eru nú stopp við nýja Miðgarðakirkju í Grímsey. Þetta staðfestir Alfreð Gíslason, formaður sóknarnefndar Miðgarðakirkju, í samtali við Morgunblaðið en tæp þrjú ár eru síðan gamla kirkjan brann til grunna

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Framkvæmdir eru nú stopp við nýja Miðgarðakirkju í Grímsey. Þetta staðfestir Alfreð Gíslason, formaður sóknarnefndar Miðgarðakirkju, í samtali við Morgunblaðið en tæp þrjú ár eru síðan gamla kirkjan brann til grunna. Var þá strax hafist handa við að byggja nýja.

Fjárskortur er ein helsta fyrirstaða þess að framkvæmdir geti haldið áfram hratt og örugglega. Samfélagið hefur að undanförnu staðið fyrir peningasöfnun, eða allt frá því gamla kirkjan brann, og stendur söfnunin enn yfir. Vonast er nú til að ferðamenn leggi söfnuninni lið, en búast má við skemmtiferðaskipum til Grímseyjar í sumar.

Aðspurður segist Alfreð ekki sjá fyrir sér hvenær verkinu lýkur. Hann kveðst þó engu að síður bjartsýnn á að það klárist.

Fólk frætt um brunann

Við höfnina, þar sem skemmtiferðaskipin leggjast að, er búið að koma fyrir eins konar líkani af kirkjunni sem varð eldinum að bráð. Þar geta ferðamenn nálgast upplýsingar um brunann og um leið styrkt byggingu nýrrar kirkju með peningagjöfum.

Alfreð segir hljóðið í Grímseyingum gott, þrátt fyrir framkvæmdastoppið. Menn vilji þó auðvitað ljúka verkinu með sóma.

Höf.: Drífa Lýðsdóttir