Bílar Númerslausir bílar standa víða á bílastæðum á höfuðborgarsvæðinu.
Bílar Númerslausir bílar standa víða á bílastæðum á höfuðborgarsvæðinu. — Morgunblaðið/sisi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarnar vikur aukið eftirlit með ómerktum ökutækjum. Vegna þessa hefur lögreglan klippt fleiri númeraplötur af bílum en oft áður. Einnig hefur verið meira um ómerkta bíla á almenningsstæðum en lögregla og sveitarfélög hafa heimild til að fjarlægja þá

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarnar vikur aukið eftirlit með ómerktum ökutækjum. Vegna þessa hefur lögreglan klippt fleiri númeraplötur af bílum en oft áður.

Einnig hefur verið meira um ómerkta bíla á almenningsstæðum en lögregla og sveitarfélög hafa heimild til að fjarlægja þá. Bílar án númera mega þó standa óhreyfðir á einkalóðum en heilbrigðiseftirlitið og viðkomandi sveitarfélög geta gert sínar athugasemdir.

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir við Morgunblaðið að einnig sé alltaf eitthvað um númerslausa bíla í umferðinni, hlutfallið sé ekki hátt en reglulega komi það fyrir að lögregla stöðvi þá.

Einstaklingi sem stöðvaður er á númerslausum bíl ber að hætta akstri samstundis ásamt því að borga sekt sem nemur allt frá 20 og upp að 40 þúsundum króna.

Bílar án bílnúmera eru ótryggðir og ef ökumaður lendir í slysi er hann á eigin ábyrgð og því ekki tryggður fyrir tjóninu. drifa@mbl.is