Elfa Ingibergsdóttir fæddist 4. ágúst 1975. Hún lést 27. apríl 2024.

Útför fór fram 15. maí 2024.

Æskuvinkonur, það erum við.

Einhverjar okkar kynntust fyrst í sandkassanum á leikskóla og bökuðu saman drullukökur. Hópurinn stækkaði næstu árin í Flataskóla þar sem við skiptumst á límmiðum og spiluðum brennibolta, Garðaskóla þar sem við dönsuðum á opnu húsi í Garðalundi og í Fjölbraut Garðabæ þræddist hópurinn okkar saman í það sem hann er í dag – saumaklúbbinn okkar. Sjö úr Garðabæ, ein úr Hafnarfirði og ein úr Kópavogi. Með sjálfar okkur og svörin alveg á hreinu héldum við saman af stað inn í fullorðinsárin.

Þetta er saumaklúbburinn sem hefur á 35 árum ekki saumað eitt einasta spor með nál, aldrei farið saman í ferðalag og aldrei grillað með mökum okkar. Vinátta, styrkur og hvatning í gegnum súrt og sætt öll þessi ár er leiðarljósið okkar. Hvenær við hittumst og hversu oft hefur alltaf verið með frjálsri aðferð en saman höfum við klárað 23 meðgöngur og fæðingar, jafnmargar ef ekki fleiri námsgráður og leyst óteljandi lífsgátur. Hressandi göngutúrar og góðar veitingar eru ómissandi hefðir en það allra besta er að við höfum ekki enn (og munum vonandi aldrei) þroskast frá því að leyfa okkur líka að vera kjánaprik þegar við hittumst. Veltast um og grenja úr hlátri og keppa í afturábak-kollhnís. Eina slíka nærandi samverustund áttum við í febrúarlok en þá fæddist danslagið „Það er svo gaman“. Við tístum af fyndninni í sjálfum okkur líkt og við værum aftur orðnar sex ára og aldrei hefði okkur órað fyrir því að tveimur mánuðum síðar stæðum við frammi fyrir þeim ískalda veruleika að Elfa okkar væri fallin frá, langt fyrir aldur fram.

Elfa, með rólegu lundina og ljúfa fasið, tignarleg og traust. Glaðvær og með hlátur sem var jafn eftirtektarverður og fallega brosið hennar. Þá var Elfa hörkudugleg og fróðleiksfús, alltaf í innri endurskoðun og óhrædd við að gera nýja hluti. Matreiðslu- eða hlaupanámskeið, hreinræktaðir hundar og hundasýningar eða venda kvæði sínu í kross og lesa til BA-prófs í sálfræði, síðar markþjálfun og nú síðast næla sér í kennararéttindi á framhaldsskólastigi. Elfa var á vegferð og lifði lífi sem henni leið augljóslega vel með. Hún var hamingjusöm, gleðin skein af henni á okkar síðustu stund saman.

Þeir dagar sem hafa liðið frá því við fengum fregnir af andláti Elfu hafa verið erfiðir og óraunverulegir og saman höfum við nýtt tímann til að ljúka við okkar fyrsta saumastykki. Bútasaumsteppi, samsett úr ótal mörgum fallegum minningum sem við eigum um einstaka vinkonu okkar. Með djúpri sorg og söknuð í hjarta þurfum við að kveðja. Minningarteppið leggjum við í faðm Elfu og megi það fylgja henni á þeirri vegferð sem hún hefur verið kölluð til.

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

(Ómar Ragnarsson)

Elsku Ragnar Már, Anna Karen, Hlynur Freyr, Úlfur Már og aðrir aðstandendur Elfu. Við vottum ykkur okkar dýpstu samúð, hugur okkar er hjá ykkur öllum.

Agnes Björk Elfar,
Andrea Magnúsdóttir, Andrea Róbertsdóttir, Ágústa Hlín Gústafsdóttir, Dóra Eyland Garðarsdóttir, Edda Hrund Halldórsdóttir, Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir og Sara Reginsdóttir.

Nánast fyrirvaralaust er Elfa, skólasystir okkar frá Bifröst og kær vinkona, farin í sína hinstu för til fjarlægra slóða. Við kynntumst Elfu haustið 1996 þegar við hófum nám á Bifröst að loknum framhaldsskóla og bjuggum saman í Norðurárdalnum meðan á háskólanámi stóð. Þetta var frábær tími og þroskandi fyrir ungar konur sem voru að flytja að heiman í fyrsta sinn og fóta sig í lífinu. Elfa var fljót að kynnast samnemendum, tók virkan þátt í félagslífinu og eignaðist marga vini fyrir lífstíð. Hún var félagslynd og glaðleg og smitandi hlátur hennar heyrðist á milli húsa í hrauninu.

Við vorum svo lánsamar að vinátta okkar hefur haldist óslitin í þau 28 ár sem liðin eru frá því að við hittumst fyrst. Við stofnuðum fjölskyldur og eignuðumst börn á svipuðum tíma og bundust þær elstu í barnahópnum, Anna Karen og Íris Líf, órjúfanlegum böndum sem eru svo dýrmæt, ekki síst nú þegar svona skyndilegt fráfall dynur á.

Elfa var kærleiksrík móðir og börnin hennar þrjú voru stolt hennar og yndi og hún studdi þau með ráðum og dáð. Hún elskaði að ferðast og heimsótti þau til Danmerkur meðan þau stunduðu þar nám. Það er huggun harmi gegn að hún var einmitt nýlega komin heim að utan þar sem hún heimsótti Hlyn Frey. Við vinkonurnar eigum ógleymanlegar minningar úr ferðalagi til Skotlands þar sem Elfa var í essinu sínu hlaðin innkaupapokum eftir vel skipulagðan verslunarleiðangur. Hún fann ekki aðeins ánægju í að versla, heldur einnig í að deila og sýna frá vali sínu, sem var alltaf hugsað til að fegra og bæta eigið líf og annarra.

Elfa var falleg og smekkvís stemningskona sem naut þess að hitta vini sína og gleðjast á góðri stundu. Hún var tryggur vinur sem átti oft frumkvæði að því að leiða okkur saman og mætti manna hressust og glæsilegust til leiks hvert sem tilefnið var. Hún var afkastamikill námsmaður og ítrekað hafði hún bætt við sig nýrri námsgráðu eða diplómu þegar við hittumst. Hún starfaði lengst af í banka- og fjármálageiranum en síðustu árin nýtti hún jafnframt sálfræðinámið í göfuga vinnu fyrir Pietasamtökin. Þar svaraði hún ótal símtölum á öllum tímum sólarhringsins samhliða vinnu við innri endurskoðun hjá Reykjavíkurborg og námi í opinberri stjórnsýslu.

Hún fékk allt of skamman tíma í þessu lífi en kom miklu í verk og snerti mörg hjörtu. Missir fjölskyldu hennar er meiri en orð fá lýst en minningin um einstaka móður og vinkonu mun lifa í hjörtum okkar allra um ókomna tíð.

Góða ferð elsku vinkona, þín

Geirlaug (Gilla)
og Jóna Soffía.

Við hjá Píeta-samtökunum höfum misst góðan samstarfsmann.

Elfa var liðsmaður neyðarsíma Píeta-samtakanna frá upphafi og sinnti því starfi af mikilli ábyrgð.

Hún var einstaklega traust, var kletturinn okkar í símateyminu, alltaf tilbúin að hjálpa og aðstoða.

Eftir situr mikill missir og söknuður eftir frábærum fagmanni, góðum vini og samstarfsfélaga. Við viljum votta nánustu ættingjum og fjölskyldu okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd starfsfólks Píeta-samtakanna,

Benedikt Þór
Guðmundsson.

Elsku hjartans Elfa æskuvinkona mín er fallin frá. Hvað á maður að segja, ég næ bara ekki utan um það að hún sé farin. Við vorum búnar að vera vinkonur síðan ég flutti í Aratúnið tveggja ára og Elfa þá eins árs.

Mæður okkar urðu vinkonur og við vinkonur. Elfa mín var falleg að innan sem utan, góð, hlý, dugleg, skemmtileg, jákvæð og með svo smitandi hlátur. Síðustu daga hef ég verið að rifja upp allar þær stundir og óteljandi minningar sem við áttum saman. Vænst þykir mér um hefðina okkar að hittast alltaf á aðfangadag og skiptast á gjöfum og spjalla. Eftir að við fluttum að heiman kom hún alltaf til mín í hádeginu á aðfangadag í kaffi, jólaöl og smákökur. Þá rifjuðum við upp gamla tíma og skiptumst á fréttum. Hún stoppaði lengi síðasta aðfangadag og náðum við góðu spjalli. Elfa var svo stolt af börnunum sínum og sagði mér frá því að hún væri svo ánægð með að Hlynur væri að fara í lýðháskóla til Danmerkur og hvað allt gengi vel hjá Önnu Karen og hvað Úlfur væri fjörugur og skemmtilegur.

Í æsku vorum við mikið saman, sváfum í tjaldi í bakgarðinum heima hjá Elfu og róluðum endalaust í bílskúrnum í rólunni sem pabbi hennar setti upp, héldum tombólu og fórum í sumarbústaðinn með foreldrum hennar. Mikil vinátta var á meðal fólksins í Aratúninu og voru ófár útilegurnar sem fjölskyldurnar í götunni fóru saman í.

Ég minnist líka Glasgow-ferðarinnar þegar við vorum svona 12-13 ára sem við fórum í með mömmum okkar, fyrsta skipti í verslunarferð til útlanda. Þá var nú gaman að sjá allar þessar stóru búðir með rúllustigunum og gista á hóteli með morgunmat. Einnig þegar við fórum saman til Færeyja þegar við vorum svona 10-11 ára og fórum á skemmtun hjá Norræna félaginu og dönsuðum fram á nótt færeyska dansa.

Það liðu oft margir mánuðir á milli þess sem við töluðum saman en það var alltaf eins og við hefðum hist í gær, ræturnar voru svo sterkar.

Elsku Raggi, Anna Karen, Hlynur, Úlfur og aðrir fjölskyldumeðlimir, ég sendi ykkur hlýju og styrk á þessum erfiðu tímum.

Þín vinkona,

Inga Birna.