Sjónmengun Verið er að undirbúa niðurrif á Hvaleyrarbraut 22.
Sjónmengun Verið er að undirbúa niðurrif á Hvaleyrarbraut 22. — Morgunblaðið/Kristján H.
Unnið er að skipulagi á Hvaleyrarbraut 20, 22, 26, 28 og 30 í Hafnarfirði. Þetta segir Ævar Sigmar Hjartarson, formaður húsfélagsins Hvaleyrarbraut 22, í samtali við Morgunblaðið en húsið brann sem kunnugt er í ágúst á síðasta ári

Unnið er að skipulagi á Hvaleyrarbraut 20, 22, 26, 28 og 30 í Hafnarfirði. Þetta segir Ævar Sigmar Hjartarson, formaður húsfélagsins Hvaleyrarbraut 22, í samtali við Morgunblaðið en húsið brann sem kunnugt er í ágúst á síðasta ári. Rústir þess standa enn með tilheyrandi sjónmengun og hættu fyrir bæjarbúa.

Ævar segir alla lóðarhafa vinna saman að málinu. Unnið sé að gerð deiliskipulags á lóðunum. „Það er ekkert bara þetta eina einstaka hús. Það eru allir í viðræðum við bæinn. Að vinna að því að koma skikki á þetta – bæði að skipuleggja á lóðinni og byggja í framhaldinu. Hver byggir veltur svo á því hvað hver og einn gerir,“ segir Ævar.

Í góðu sambandi við bæinn

Undirbúningur stendur yfir svo hægt verði að sækja um leyfi til niðurrifs á þeim rústum sem eftir standa að sögn Ævars, sem segir ekki tímabært að segja nákvæmlega frá því hvað verði gert og hverjir muni standa að uppbyggingunni. „Þó deiliskipulag verði ekki unnið af bæjaryfirvöldum þá verður það unnið af þeim sem hafa umráðarétt yfir lóðunum í samráði við bæjaryfirvöld. Við erum í góðu sambandi við Hafnarfjarðarbæ og höfum átt góðan fund með bæjarstjóra.“

Í Morgunblaðinu í gær var m.a. fjallað um að lóðarleigusamningur sé útrunninn á lóðinni en Ævar segir þó rétt að halda til haga að raunin sé sú á öllum lóðunum. „Við erum ekkert í annarri stöðu en hinir að öðru leyti en að við erum með brunnið hús. Það eru margir vinklar á þessu máli en framhaldið hvað okkur snertir verður kynnt öðrum eigendum á húsfundi í júní í kjölfar þess að ákvörðun hefur verið tekin.“