Dís Guðbjörg Óskarsdóttir fæddist á Stóru-Vatnsleysu 10. október 1943. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 2. maí 2024.

Foreldrar hennar voru Friðrik Óskar Sigurjónsson, f. 7. maí 1914, d. 1. desember 1996, og Salvör Pálína Guðjónsdóttir, f. 18. júlí 1917, d. 29. mars 1993.

Systkini Dísar eru Svavar Páll, f. 6. águst 1939, d. 10. september 1992, Kristinn Sigurjón, f. 2. mars 1941, d. 5. janúar 2017, Árni, f. 31. maí 1942, d. 21. apríl 2021, Svanhvít, f. 4. nóvember 1944, Reynir, f. 19. september 1946, Guðfinna María, f. 11. febrúar 1948. Samfeðra er Eiríkur, f. 30. júlí 1937.

Börn Dísar eru: Sigurbjörg Hafsteinsdóttir, f. 13. október 1959, d. 8. júlí 1966, Pálína Gunnarsdóttir, f. 30. nóvember 1962, Signý Hermannsdóttir, f. 5. maí 1965, og Hafrún Hermannsdóttir, f. 31. júlí 1966. Ömmubörn eru 12 og langömmubörn eru 13.

Dís bjó til 11 ára aldurs á Selfossi en þá flutti fjölskyldan í Garð. Eftir Grunnskóla vann hún við ýmis verkakvennastörf. Hún kynnist Hafsteini Ólafssyni i Garði og fluttu þau seinna til Reykjavíkur. Þar giftust þau. Hann lést 7. apríl 2009. Bjó hún áfram i Bakkagerði 7 þar til hún lést.

Útför Dísar fer fram frá Útskálakirkju í dag, 16. maí 2024, klukkan 14.

Dís var fermd frá Útskálakirkju, sama ár og ég fæddist á Útskálum í Garði. Það var mikill samgangur milli heimilanna og hjónin Pálína og Óskar foreldrar hennar í Móakoti voru mér einstaklega góð. Dís var fjórða í röðinni af sjö systkinum. Hún passaði mig sem snáða og síðar átti ég eftir að passa hennar dætur af og til.

Dís eignaðist ung dótturina Sigurbjörgu eða Simbu eins og hún var kölluð og var hún leikfélagi minn og systur minnar Hrafnhildar. Simba féll frá á sjöunda ári eftir erfið veikindi. Það var okkur öllum mikið áfall. Á þeim tíma var ætlast til að maður byrgði sorg sína inni. Enginn talaði um sorgina eða spurði. Fólk bar harm sinn í hljóði. Dís flutti í lítið hús, Móa, rétt handan götunnar. Garðurinn var lítið þorp á þessum tíma og húsin hétu öll sínu nafni. Dís bjó þar lengi ásamt dætrum sínum Signýju og Hafrúnu. Pálína dóttir hennar ólst upp hjá ömmu sinni og afa.

Dís var skemmtileg með húmor í lagi og lét yfirleitt allt flakka. Það var eins og hún lifði frá degi til dags og kviði ekki mikið framtíðinni. Hún var glæsileg kona og kunni vel að meta góðar stundir. Ég heimsótti hana oft í Móa og hún talaði við mig unglinginn eins og ég væri fullorðinn maður. Hún flutti síðar til Reykjavíkur og sambandið rofnaði en þó aldrei í hug og hjarta. Ég votta fjölskyldu hennar innilega samúð.

Barði Guðmundsson.