María Guðbjörg Maríusdóttir
María Guðbjörg Maríusdóttir
Forseti verður að vinna vel undir álagi og geta fengið fólk til starfa með sér. Hann þarf líka að geta staðið í báða fætur af öryggi og fálmlaust þegar að honum er sótt.

María Guðbjörg Maríusdóttir

Laust er til umsóknar starf forseta Íslands. Starfið hefur þegar verið auglýst og eftir standa 12 umsækjendur með mismunandi bakgrunn og reynslu.

Sem atvinnurekandi hef ég margoft staðið í þessum sporum, að auglýsa eftir fólki til starfa. Mér finnst eðlilegt, þegar ég stend frammi fyrir því að velja næsta forseta, að nota sömu aðferðafræði.

Í auglýsingu kemur fram lýsing á því um hvað starfið snýst og hvaða eiginleikum ég leita eftir hjá þeim sem hreppa eiga hnossið. Þá er óskað eftir upplýsingum um hæfni, þekkingu og reynslu.

Forseti Íslands er fyrst og fremst fulltrúi þjóðarinnar. Hann þarf því að vera vel menntaður og vera mjög góður í samskiptum við annað fólk. Ég vil að hann hafi reynslu af stjórnunarstörfum og hafi breiða þekkingu á stjórnskipulagi, viðskiptalífi og alþjóðamálum. Forseti verður að vinna vel undir álagi og geta fengið fólk til starfa með sér. Hann þarf líka að geta staðið í báða fætur af öryggi og fálmlaust þegar að honum er sótt.

Ég vil að starfinu gegni einstaklingur sem brennur fyrir jafnréttismálum í víðum skilningi þess orðs. Hann þarf að skynja mikilvægi þess að við göngum um auðlindir okkar þannig að næstu kynslóðir geti átt gott líf og bjarta framtíð. Hann á að leggja áherslu á að jafna kynslóðabilið og þarf ekki síst að tryggja að unga kynslóðin hafi mikið um það að segja hvaða ákvarðanir verði teknar um framtíð þess, og að reynsla kynslóðanna á undan fái einnig hljómgrunn.

Ég hef farið vandlega yfir umsóknirnar og sé fljótt að þarna er saman kominn ágætur hópur fólks. Ég sé þó strax að ég get lagt til hliðar margar þeirra af ýmsum ástæðum en skoða betur nokkra umsækjendur. Nú er mikilvægt að rýna vel og kynna sér af kostgæfni það sem þeir hafa fram að færa. Í þeirri yfirferð sé ég að einn er og verður litaður af flokkspólitísku starfi, það hugnast mér ekki svo ég legg þá umsókn til hliðar. Næsti segir í kynningarbréfi að viðkomandi hafi ákveðið fyrir fram hvaða málum hann muni vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil ekki að forseti hafi slíkar fyrirframmótaðar skoðanir svo ég legg þá umsókn einnig til hliðar. Ég ákveð að skoða af kostgæfni þær tvær konur sem eftir standa, sjá þær og heyra í þeim svo ég finni hvaða áhrif þær hafa á mig. Önnur talar af ákafa en mér finnst innihaldið ekki vera í samræmi við væntingar og ég efast um styrk hennar, úthald og þroska til að taka utan um þjóð sína á erfiðum stundum.

Niðurstaðan er að ég mun kjósa Höllu Tómasdóttur sem næsta forseta Íslands. Hún hefur allt til að bera sem ég tel að góður forseti þurfi að hafa. Í viðtalinu um starf forseta Íslands sem hún átti við mig og alþjóð í kappræðunum í Sjónvarpinu kom hún, sá og sigraði. Heillandi, einlæg, hiklaus og vitur.

Halla Tómasdóttir fær mitt atkvæði til starfa sem forseti Íslands.

Höfundur er kaupmaður og lífeyrisþegi.