Þróun Hér má sjá hvernig vestasti hluti Akraness gæti litið út samkvæmt sigurtillögu í hugmyndasamkeppni.
Þróun Hér má sjá hvernig vestasti hluti Akraness gæti litið út samkvæmt sigurtillögu í hugmyndasamkeppni. — Mynd/Nordic Office of Architecture
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er afar spennandi samstarf og mikil viðurkenning fyrir okkur. Það sýnir jafnframt hversu mikil tækifæri eru á þessu svæði,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri þróunarfélagsins Breiðar á Akranesi.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er afar spennandi samstarf og mikil viðurkenning fyrir okkur. Það sýnir jafnframt hversu mikil tækifæri eru á þessu svæði,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri þróunarfélagsins Breiðar á Akranesi.

Hinn heimskunni hönnuður Philippe Starck hefur lýst yfir áhuga á að hanna hótel á Breiðinni á Akranesi. Starck skoðaði nokkra staði hér á landi en ákvað á endanum að þetta uppbyggingarsvæði á Akranesi félli best að hugmyndum hans.

Afar vinsæll hönnuður

Forsaga þessa máls er að fyrir rétt rúmu ári greindi Morgunblaðið frá því að Philippe Starck, sem eins og margir vita er einn vinsælasti hönnuður samtímans, sæktist eftir að hanna hótel við sjávarsíðuna á Íslandi. Ólafur Sigurðsson, eigandi og hótelstjóri 360 Boutique Hotel, var Starck til aðstoðar við að leita að réttu staðsetningunni fyrir hótelið en kynni tókust með þeim vegna viðbyggingar við hótel Ólafs. Í frétt Morgunblaðsins lýsti Ólafur eftir ábendingum að lóðum við sjávarsíðuna fyrir áform Starcks. Valdís las fréttina og setti sig í samband.

„Hann fékk fjölda annarra ábendinga um flotta staði víða um land. Í kjölfarið skoðaði hann 4-5 staði og einn þeirra var Breiðin. Starck féll fyrir þessum stað og hefur nú formlega lýst því yfir að hann vilji fara í samstarf um að hanna hótel á Breiðinni. Við höfum síðan verið í samskiptum síðasta árið til að ýta þessu af stað,“ segir hún.

Ósnortin náttúra og sjávarsýn

Valdís segir að hugmyndir Starcks falli vel að uppbyggingaráformum á Breiðinni. Bæði heimamenn og hann vilji að sjálfbærni verði þar í hávegum höfð. „Þetta er ótrúlega fallegt svæði. Hér er ósnortin náttúra, fuglalíf og sjávarsýn í 360 gráður. Hann kemur svo með eitthvað einstakt sem gæti orðið segull fyrir svæðið,“ segir hún.

Næsta mál á dagskrá er að sögn Valdísar að finna áhugaverða fjárfesta og rekstraraðila fyrir hótelið. Kveðst hún ekki eiga von á öðru en margir muni sýna því áhuga en eins og sakir standa er ekkert hótel á Akranesi. Því séu mikil tækifæri fólgin í slíkri uppbyggingu.

Vorið 2022 var haldin hugmyndasamkeppni um svæðið á Breið á Akranesi. Þar urðu Nordic arkitektar í samvinnu við Eflu hlutskarpastir. Valdís segir aðspurð að nú standi yfir vinna við undirbúning deiliskipulags svæðisins og annan undirbúning.

Lífleg starfsemi er þegar komin í Breið nýsköpunarsetur sem er til húsa þar sem áður var fiskverkun og útgerð Haraldar Böðvarssonar hf. Nýsköpunarsetrið er í eigu Brims hf. „Það eru hátt í hundrað manns þegar í nýsköpunarsetrinu okkar og næstum því uppselt,“ segir Valdís Fjölnisdóttir.

Fjölbreytni í fyrirrúmi

Baðlón og gróðurhús

Í vinningstillögu er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á Breiðinni. Hótel og baðlón eiga að rísa neðst á Skipasaga. Á myndinni má sjá baðlónið ofarlega til vinstri en hótelið er ofarlega til hægri. Þar sést hringlaga þyrping bygginga en rétt er að taka fram að það útlit hefur ekkert með áform Philippes Starcks að gera. Í kynningu á sigurtillögunni má sjá að auk þess eru hugmyndir um að á svæðinu verði gróðurhús, útsýnisbryggja, mathöll og tjörn sem nýst getur sem skautasvell á veturna. Endurgerð vörugeymsluhús Thors Jensens og vaskhús HB verða í öndvegi.