Jón Jens Kristjánsson segir á Boðnarmiði: Ólafur Ragnar hélt því fram í heimildarmynd fyrsta maí, að hann væri höfundur þjóðarsáttarinnar. Stórvirki hefir Ólafur átt sem aðrir frá honum stálu – þegar hann útbjó þjóðarsátt og þegar hann samdi Njálu

Jón Jens Kristjánsson segir á Boðnarmiði: Ólafur Ragnar hélt því fram í heimildarmynd fyrsta maí, að hann væri höfundur þjóðarsáttarinnar.

Stórvirki hefir Ólafur átt

sem aðrir frá honum stálu

– þegar hann útbjó þjóðarsátt

og þegar hann samdi Njálu.

Sigþór Hallfreðsson svaraði og sagði: Þetta framhald prjónaðist við:

Þegar hann Lilju þýða kvað

þakklæti fékk og hólið.

Og flestir vita eflaust að

Ólafur fann upp hjólið.

Ólafur Stefánsson yrkir:

Það er þrettándi dagur í mánuði maí

mánudagur að auki.

Á matseðlinum er maðkað pæ

og mannætuhákarl með lauki.

Jón Gissurarson spáir því að næsti forseti Íslands verði kona, en hvaða kona það verður á eftir að koma í ljós.

Næst mun kona flott og fríð

úr frambjóðenda röðum

vinna fyrir land og lýð

lengi á Bessastöðum.

Reynir Jónsson er í sólskinsskapi: Nú eru gæsin og gróandinn mætt, víða léttist lundin og grasnálar skjóta upp oddinum:

Vænkast hagur ljóst og leynt,

léttist margra brúnin.

Grær nú það sem greri seint,

grænka heima túnin.

Í Stefjakroti er ljóðið Eftir mat eftir Pétur Stefánsson:

Lambasteikin gladdi geð,

gleitt varð bros á trýni.

Skolaði niður matnum með

malti og appelsíni.

Eftirréttur æ er vís,

ekki brást hann vonum,

er konan bauð mér upp á ís

át ég slatta af honum.

Á blístri er með belgdan kvið

býsna hress í geði,

ropa hátt og rek nú við

og rym af skærri gleði.

Veirulimra eftir Gunnar J. Straumland:

Þjóðina þurfum að peppa

(þá sem að veiruna hreppa).

Oft er, því miður,

algengur siður,

veiru að veiða, – og sleppa.

Öfugmælavísan:

Kattarskinns ég kerti sá,

koparhúfu væna,

meðalaglas af mjúkum snjá

og mjöll á jörðu græna.