Fasteignafélagið Þórkatla hefur samþykkt kaup á 660 húseignum í Grindavík eða um 85% allra umsókna sem félaginu hafa borist. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Fasteignafélagið var stofnað í febrúar til að annast kaup, umsýslu…

Fasteignafélagið Þórkatla hefur samþykkt kaup á 660 húseignum í Grindavík eða um 85% allra umsókna sem félaginu hafa borist.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Fasteignafélagið var stofnað í febrúar til að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlisins í Grindavík. Var þetta gert með tilliti til jarðhræringa sem hafa skekið byggð á svæðinu á liðnum mánuðum.

Alls hefur Þórkatla fengið 781 umsókn um kaup á íbúðarhúsnæði í bænum, en heildarfjöldi þeirra eigna sem geta fallið undir úrræðið er um 900.

Búið er að undirrita og þinglýsa 471 kaupsamningi. Þórkatla hefur greitt 22,2 milljarða króna í kaupsamningsgreiðslur og yfirtekið lán hjá 16 lánastofnunum að andvirði um 11,4 milljarðar króna.

Í tilkynningu stjórnvalda segir einnig að Þórkatla hafi ákveðið að leigja fasteignir sem félagið hefur keypt í Grindavík, en fyrst um sinn verði fasteignir eingöngu leigðar til fyrri eigenda þeirra.