Verðlaun Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á liðnum árum, ýmist sjálfur eða fyrir hönd Kerecis.
Verðlaun Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga á liðnum árum, ýmist sjálfur eða fyrir hönd Kerecis. — Þjóðmál/Kristinn Magnússon
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur verið tilnefndur til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna 2024 (European Inventor Award). Hann keppir þar á móti teymum frá Svíþjóð annars vegar og Þýskalandi og Ítalíu hins vegar. Tilkynnt verður um vinningshafa á verðlaunahátíð á Möltu 9. júlí. Þetta er í annað sinn sem íslenskt þróunarteymi er tilnefnt til verðlaunanna en í fyrra voru Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson, prófessorar emeriti við Háskóla Íslands og stofnendur Oculis, tilnefndir til verðlaunanna.

Valin úr hópi 550 tilnefndra

Tilnefninguna hlýtur Guðmundur Fertram fyrir þá uppfinningu sína að nota fiskroð til sáragræðslu. Í tilkynningu frá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO), sem veitir verðlaunin, kemur fram að að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þjáist yfir 60 milljónir manna í Evrópu af sykursýki. Fram kemur að sjúkdómurinn skerði getu líkamans til að græða sár og mikið hafi skort á viðunandi úrræði.

„Uppfinning Guðmundar Fertrams felst í því að nota fiskroð til að hjálpa sárum að gróa hratt og vel, hvort sem það eru sár af völdum sykursýki, bruna eða skurðaðgerða. Fiskroðið býður upp á marga kosti umfram aðrar sáragræðandi vörur á markaðnum og framleiðsla vörunnar er mjög sjálfbær og mikil verðmæti eru sköpuð úr aukaafurð fiskvinnslu sem annars væri ekki nýtt,“ segir í tilkynningunni.

Guðmundur Fertram og þróunarteymi hans voru valin úr hópi rúmlega 550 tilnefndra, en verðlaunin eru viðurkenning á uppfinningum sem veitt hafa verið einkaleyfi fyrir í Evrópu.

Hafa hlotið fjölda verðlauna

Danska lækningavörufyrirtækið Coloplast keypti sem kunnugt er Kerecis fyrir tæpa 180 milljarða króna í fyrrasumar. Kerecis varð við það eitt verðmætasta fyrirtæki Íslandssögunnar og fyrsti íslenski „einhyrningurinn“ en það hugtak er notað um félög sem seld eru fyrir meira en einn milljarð bandaríkjadala. Samhliða var samið um að Guðmundur Fertram myndi áfram gegna starfi forstjóra til tveggja ára hið minnsta.

Vörur Kerecis byggjast á hönnun og uppfinningu Guðmundar Fertrams, sem býr yfir sérþekkingu í efnafræði og verkfræði. Hann steig árið 2007 sín fyrstu skref í því að raungera hugmynd sína um að nota fiskroð til að meðhöndla sár og vefjaskemmdir. Þetta leiddi til þess að Kerecis, sem stofnað var í kringum uppfinninguna, setti nýja vöru á markað árið 2013. Bæði Guðmundur og Kerecis hafa á liðnum árum fengið fjölmörg verðlaun, ýmist fyrir uppfinninguna sjálfa eða uppbyggingu fyrirtækisins. Má þar nefna Norrænu vaxtarverðlaunin (The Nordic ScaleUp Awards), Nýsköpunarverðlaun Íslands, Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Frumkvöðlaverðlaun ársins á árlegri ráðstefnu Evrópsku sárasamtakanna (EWMA) fyrr í þessum mánuði. Evrópsku nýsköpunarverðlaunin eru ein virtustu verðlaunin á sviði nýsköpunar í Evrópu. Óháð dómnefnd, sem samanstendur af aðilum sem áður hafa komist í úrslit verðlaunanna, velur þau sem komast í úrslit og verðlaunahafa.