Björn Theodór Líndal fæddist 1. nóvember 1956. Hann lést 21. apríl 2024.

Útför hans fór fram 15. maí 2024.

Ég var tiltölulega nýbyrjuð í lagadeild Háskóla Íslands þegar ég féll fyrir Gumma, manninum mínum. Það var sérstaklega stressandi fyrir ungan laganema á fyrsta ári að vera kynnt fyrir hinni virðulegu Líndalsfjölskyldu, þar sem allir fjölskyldumeðlimir voru löglærðir. Björn tók mér hins vegar mjög vel og bauð mig velkomna í fjölskylduna. Svo velkomna að mér var strax boðið í jólaboð og veiðiferðir og tekin inn sem hluti af fjölskyldunni. Okkar fyrsta ár vorum við Gummi mikið á Tjarnargötunni, þar sem Björn og Sólveig bjuggu lengst af, en hófum svo okkar búskap á stúdentagörðunum. Við heimsóttum þó reglulega tengdaforeldra mína á háskólaárunum. Fráfall Sólveigar tengdamömmu árið 2010 var fjölskyldunni afar erfitt og tengdapabbi varð aldrei alveg samur. Árin sem tóku við snerust um að reyna að fóta sig í nýjum veruleika.

Á síðustu árum Björns bjó hann með Siggu sinni í Erluásnum. Við fáum þeim seint þakkað að taka inn fjölskylduna á miðjum covid-tímum þegar nauðsynlegt var að fara í framkvæmdir hjá okkur. Þá eru ótaldar góðar stundir í miðvikudagsmatnum, fullt hús af fólki og börnum, og spjallað langt fram á kvöld. Ósjaldan var þá Björn að segja okkur frá nýliðnum eða væntanlegum ævintýrum þeirra Siggu erlendis.

Við tengdapabbi áttum margt sameiginlegt, og þá helst að vera frekar íhaldssöm og iðulega með áhyggjur af hlutunum (eða hafa vit fyrir hlutunum eins og við vildum frekar orða það). Í sorginni held ég því sérstaklega upp á tvær minningar, annars vegar þegar við týndumst í leigubíl í Suður-Afríku og vorum að verða alltof sein í brúðkaup og svo nýlegu strætóferðina okkar á fjallavegum Kanaríeyju með Siggu, Gumma og barnabörnunum þar sem engin bílbelti voru. Í báðum ferðum dæstum við í takt.

Kæri Björn, ég þakka samfylgdina í gegnum árin, stuðninginn við framann og góðu samtölin okkar.

Þín tengdadóttir,

Kristín Lára.

Jæja, þá ertu farinn í sumarlandið elsku Bjössi tengdapabbi.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég lít yfir okkar vegferð saman en það sem ég staldra helst við og hefur sterkust áhrif á mig eru samræður okkar um alls konar hluti og hversu víðlesinn þú varst og fróður um alls konar málefni auk þess að vera mikill húmoristi. Það var ekki komið að tómum kofunum hjá þér með neitt umræðuefni nema helst ef það væru tæknimál, sem verður að segjast að voru alls ekki þín sterkasta hlið. Það sem kemur líka upp í hugann er ákveðin barnsleg gleði með suma hluti eins og t.d. innibombur á gamlárskvöld og þá kom upp prakkarasvipurinn með spékoppana þar sem hægt var að sjá svipmyndir af drengnum sem var.

Þín verður sárt saknað en ég vona að þú hafir fundið frið.

Ave atque vale.

Þórhallur Axelsson.

Afi minn, sem uppnefndur var Siggi grái er hann gegndi skólameistarastörfum norður í landi, sagði að góðar konur einkenndu Briem-ættina. Hann brýndi fyrir sonum sínum þessa speki sem lásu hana sem fyrirmæli um að reyna að mægjast við Briemara. Mér er ekki kunnugt um að neinn afkomenda Sigga hafi mægst Briemerum. En vinskapur tókst víða og a.m.k. einn þeirra mjög mikill, okkar Björns Líndal á millum, sem varði í nær hálfa öld.

Björn var Briemari heill í gegn þótt hann bæri ekki nafnið, en amma hans í föðurætt, Þórhildur, var Briem. Hvað svo sem jákvætt má segja um kvenlegg ættarinnar þá voru karlmenn hennar ekki síður góðir. Þessu er best lýst í útvarpsviðtali við föðurbróður Björns, prófessor Sigurð Líndal, og rakið efnislega í fréttabréfi ættfræðingafélagsins árið 2010.

Briemarar voru samkvæmt Sigurði sagðir samviskusamir og nákvæmir í störfum sínum, voru lögfræðingar góðir en einnig stærðfræðingar og verkfræðingar og umfram allt vandvirkir embættismenn. Þeir voru sagðir glaðværir, hrókar alls fagnaðar og miklir húmoristar.

Björn hafði öll þessi einkenni, auk þess að vera skarpgáfaður.

Björn var aristókrati í eðli sínu. Minnisstætt atvik úr okkar fjölmörgu veiðiferðum lýsir þessum eiginleika vel. Björn hrjáði mestan hluta ævinnar sykursýki, sem loks átti sinn þátt í ótímabæru brotthvarfi hans frá þessari jarðvist. Hann varð því að vakta sig vel.

Um aldamótin síðustu vorum við félagar hans við veiðar í Fljótunum í Skagafirði. Hann gætti sín ekki nægilega og við félagarnir sváfum á verðinum einnig. Björn missti meðvitund. Hringt var í sjúkrahúsið á Siglufirði, sem samstundis sendi sjúkrabíl af stað. Við ókum í loftköstum með „líkið“ í farteskinu til móts við sjúkrabílinn og mættumst á miðri leið í Siglufjarðarskriðunum. Þar var „líkinu“ komið á sjúkrabörur og var að svo búnu þeyst af stað með sírenuna og blikkljósin á fullum styrk. Við héldum í humátt á eftir á hinum bílnum. Þegar komið var að inngangi sjúkrahússins var þar samankominn mannsöfnuður, því „háttsettur maður úr bænum“ heiðraði ekki Siglufjarðarsjúkrahúsið með nærveru sinni á hverjum degi.

Þegar verið var að rúlla börunum inn reis „líkið“ skyndilega upp, brosti sínu breiðasta brosi og veifaði til mannfjöldans eins og þjóðhöfðingja sæmdi og uppskar hann kröftugt lófaklapp fyrir. Svona koma einungis aristókratar fram og varð Birni ekki frekara meint af volkinu. Við félagarnir uppskárum hins vegar ávítur frá honum fyrir að hafa ekki klætt hann sómasamlega upp fyrir ferðalagið.

Við Björn höfðum lofað hvor öðrum fyrir mörgum árum að skrifa hvor um annan við andlát, þó með þeim formerkjum að hinn væntanlegi framliðni fengi að semja minningargreinina sjálfur. Því miður tókst ekki að efna það loforð í þetta sinn en þessi fáu orð gætu alveg hafa komið úr ranni Björns.

Þín verður sárt saknað góði vinur. Hvíl í ró. Við Guðrún Salome sendum Vigdísi Evu, Guðmundi Páli og Sigríði sem og öllum ættingjum og fjölskyldumeðlimum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórður Ingvi
Guðmundsson.

Höggið var þungt þegar mér barst fréttin um lát mágs míns, Björns Líndal.

Þegar ég hitti Björn fyrst, eftir að ég fór að venja komur mínar á æskuheimili þeirra Þórhildar systur hans, kom hann mér fyrir sjónir sem ungur róttæklingur, enda með „Che Guevara-húfu“ á höfði sem hann skildi ekki við sig. Eftir því sem tíminn leið og við kynntumst betur kom í ljós að grundvallarviðhorf okkar voru býsna lík og fór svo að upp úr tvítugu gekk hann til liðs við Framsóknarflokkinn fyrir hvatningu mína.

Þótt virkum afskiptum okkar Björns af stjórnmálum hafi lokið nokkrum árum síðar hélst óskertur áhugi okkar beggja á málefnum líðandi stundar. Þegar við hittumst eða heyrðumst í síma, þar sem símtölin urðu stundum ærið löng, voru málin rædd og krufin í þaula. Þar miðlaði hann mér m.a. af fjölbreyttum fróðleik sínum, en mágur minn var einn víðlesnasti og um leið víðsýnasti maður, sem ég hef kynnst á lífsleiðinni, enda alinn upp á menningarheimili þar sem bækur skipuðu öndvegi og frjálslyndar skoðanir voru í hávegum hafðar.

Áhugi á stangveiði var eitt af því, sem við áttum sameiginlegt, og annað að sjálfsögðu lögfræðin. Björn reyndist farsæll í starfi sem lögmaður og veit ég til þess að hann bar hagsmuni umbjóðenda sinna mjög fyrir brjósti og var lagið að ná sem bestri niðurstöðu fyrir þá. Oftar en ekki bar lögfræðileg álitaefni á góma í samtölum okkar og leyndi sér þá ekki sú ríka réttlætiskennd sem honum var í blóð borin.

Eitt af áhugamálum Björns voru ferðalög, gjarnan á framandi slóðir. Ógleymanleg er ferðin til Jamaíka, sem hann skipulagði í smáatriðum, þar sem við fjölskyldurnar tvær, ásamt Evu tengdamóður minni, bjuggum á virðulegu sveitasetri með öllum nútímaþægindum, en langt frá hefðbundnum ferðamannaslóðum. Fyrir vikið urðu kynni okkar af landinu og fólkinu, sem þar býr, nánari og allt öðruvísi en ella hefði orðið.

Böndin milli systkinanna, Björns og Þórhildar, voru sterk, þ. á m. áttu þau sameiginlegar æskuminningar frá uppvaxtarárunum við Laugarásveg. Á meðan tengdamóðir mín lifði hittumst við reglulega. Var þá spjallað um heima og geima og oft kátt á hjalla. Eftir það höguðu atvikin því svo að fundum okkar Björns bar sjaldnar saman, en alltaf þegar það gerðist eða við ræddum saman í síma var eins og við hefðum heyrt hvor í öðrum daginn áður.

Björn fór ekki varhluta af áföllum í lífinu. Um það leyti sem foreldrar hans voru að skilja og hann að byrja í menntaskóla greindist hann – eða réttara sagt greindi sig sjálfur – með sykursýki. Þetta var þungbær lífsreynsla fyrir svo ungan mann, en hann tókst alla tíð á við þennan sjúkdóm af æðruleysi og vildi lítið úr honum gera. Eftir ástríkt hjónaband varð mágur minn síðan að horfa á eftir Sólveigu að lokinni langri og hetjulegri baráttu við illvígt krabbamein þar sem hann stóð þétt við hlið hennar uns yfir lauk. Þetta – og ýmislegt fleira sem ástæðulaust er að nefna – tók sinn toll, enda var hann viðkvæmur í lund þótt það sæist ekki á yfirborðinu. Blessuð sé minning hans.

Eiríkur Tómasson.

Björn Líndal, fjarfrændi, er dáinn!

Ég hitti hann síðast fyrir nokkrum árum, fyrir framan glæsihús hans við Tjörnina í Reykjavík, þar sem hann var að snyrta trén sín við götuna. Bauð hann mér þá inn í erfðabústað sinn og upp á fínar kökur með meðlæti. Tókum við þá tal saman um ættfræði, útlönd, landsbyggðina og pólitíkina. Lýsti hann þá áhuga á að mæta næst á minn árlega fund Lækjamótsættarinnar; sem fjarfrændi af hinni stóru Líndalsættinni! Gaf ég honum síðan ljóðabók eftir mig; sem og bók með þýðingum mínum á ljóðum forn-grískra og rómverskra höfunda; til að koma áfram til frænda síns, Sigurðar Líndal.

Stuttu síðar sögðu ættingjar mínir ofar í götunni þeirri, að hann hefði ritað ritgerð á netið þar sem ættir okkar voru raktar saman á 19. öld. Taldi hann að sú ritsmíð hans myndi geymast þar áfram til framtíðar!

Mér er minnisstætt frá samtali okkar, hvernig hann hafði fyrir leiftrandi samræðustíl að blanda saman óvæntum hlutum úr óvæntum áttum. Minnti það mig helst á ljóð mitt sem heitir: Horfi þreytulega til Esjunnar. En þar segir í lokin í kafla sem minnir mig nú ögn á okkar burtkallaða vin:

Hvað mér svosem finnist um

hrafnamergð er blasir við úr glugga:

baðar sig í góðærisins ljósum?

Þar við Esju rætur

dvergar þó í myrkri

strita víst í skjóli frá vor sjónum:

Bralla þar í leyni hagvöxt góðan

kaupaþrælar framagjarnrar þjóðar,

er þekja vill nú landið ferðastöðum

og manna hótelþrifin leiguhjörðum.

Tryggvi V. Líndal.

Frændi minn og góður vinur alla tíð, Björn Theodór Líndal, hefur nú óvænt kvatt allt of snemma.

Leiðir okkar lágu oft saman í æsku þegar Björn og fjölskylda hans kom á heimili afa okkar og ömmu, Theodórs og Þórhildar Líndal á Bergstaðastræti 76, Reykjavík, þar sem ég bjó fram á unglingsár. Sigurður Líndal, bróðir foreldra okkar, sem einnig bjó þar, tók þar síðar við búsforráðum þannig að þar var áfram vettvangur stórfjölskyldunnar vel fram á þessa öld, ekki síst um jól. Þá átti ég margar góðar stundir á æskuheimili Björns á Laugarásvegi 34.

Við vorum þrír frændur, systkinabörn, á svipuðu reki, Björn Theodór; Theodór, sonur Álfheiðar systur foreldra okkar, sem fæddur var 10 dögum á eftir Birni og síðan ég, einu og hálfu ári yngri, sem stundum héldum hópinn. Theodór lést af slysförum vorið 1969. Þrátt fyrir lítinn aldursmun á okkur Birni get ég ekki neitað því að á yngri árum fannst mér Björn, og hef ekki skipt um skoðun á því, vel á undan mér í þroska og andlegu atgervi enda bráðger og snemmþroska. Hann var víðlesinn, vel heima í málum líðandi stundar, skemmtilegur og fær í flestu sem hann tók sér fyrir hendur. Alltaf leit ég upp til hans og fannst oft þegar við vorum á táningsaldri eins og hann ætti frekar heima í hópi fullorðinna en jafnaldra þegar málin voru rædd. Lét ég mér því oft duga að hafa hljótt um mig en hlusta af athygli á það sem hann og aðrir fullorðnir ræddu hvort sem það var við afa okkar, Theodór, Sigurð frænda okkar eða aðra. Lögfræðin var hans fag og starfssvið og málefni tengd henni því gjarnan til umræðu.

Björn átti glæstan starfsferil, heima og erlendis, sem aðrir kunna að rekja betur en ég. Hann átti notalegt og vel búið heimili með Sólveigu, kærri eiginkonu sinni, sem einnig kvaddi allt of snemma, og þótt ég hafi löngum búið á Ísafirði og því um langan veg fyrir mig að fara leitaðist ég við að missa ekki af heimboðum hjá þeim hvort heldur sem var um áramót eða af öðru tilefni, ekki síst meðan þau bjuggu í sínu virðulega og fallega húsi við Tjörnina, Tjarnargötu 28.

Síðustu ár bjó Björn með Sigríði Kristinsdóttur, nú kollega mínum í hópi sýslumanna, sem varð til að efla tengsl okkar á skemmtilegan hátt.

Fyrir hönd móður minnar, Bergljótar Líndal, og bróður, Guðmundar Þórs, færi ég börnum og barnabörnum Björns, systur hans, bróður og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Jónas B. Guðmundsson.

Það var í upphafi 10. áratugar síðustu aldar sem við félagar stofnuðum veiðihóp sem við gáfum hið tvíræða nafn „Salmon spiritualis“ sem við kjósum að kalla „Anda laxins“. Þar var Björn í broddi fylkingar og óhætt að segja að góður andi hafi svifið yfir vötnum þegar við félagarnir héldum í okkar árlegu veiðiferðir.

Allnokkur fyrstu árin veiddum við í Vatnsdalsá sem kom sér vel fyrir okkur, því Björn var þar öllum hnútum kunnugur. Vatnsdalsáin var honum kær, en hann hafði tekið þátt í því með Guðmundi Gunnarssyni tengdaföður sínum að byggja laxastiga við Stekkjarfoss og greiða laxinum þannig leið fram allan Forsæludal. Opnaðist þar drjúgt veiðisvæði sem þeir „stigamenn“ höfðu síðan aðgang að í nokkur ár eftir að framkvæmdum lauk. Kynntist Björn þeim kafla árinnar þá ágætlega.

Ána þekkti hann alla vel, en þar veiddi hann árlega með bankastjórum Landsbankans og Seðlabankans. Björn hafði á hendi undirbúning þeirra ferða og annaðist m.a. ýmis nauðsynleg innkaup, því ekkert mátti skorta í þessum ferðum. Síst vínföng. Var gerð krafa um allrífleg innkaup af slíku sem aldrei kláraðist í túrnum. Nutum við þess að bankamennirnir nenntu ekki að taka restina heim með sér, en svo skemmtilega vildi einmitt til að okkar holl var hið næsta á eftir þeim.

Sem var reyndar engin tilviljun.

Þegar nýir leigutakar tóku við Vatnsdalnum kvöddum við þá fallegu á með söknuði. Nenntum ekki að taka upp nýja siði; að veiða og sleppa. Gerðum við næstu árin víðreist í þessum efnum; veiddum m.a. í Laxá í Dölum, Kjarrá, einhverri ársprænu í Skagafirði sem enginn man lengur hvað heitir og síðustu árin í Straumunum.

Einhvern tímann á þessum árum veiddum við í Hvolsá og Staðarhólsá í Saurbæ í Dölum vestur. Björn var einn leigutaka þar.

Dag einn, þegar við komum akandi niður að einum veiðistaðnum, sáum við hvar jeppi stóð með stangartoppum standandi upp úr þakinu að því er virtist, við hyl einn skammt þar fyrir neðan. Töldu menn augljóst að þarna væru veiðiþjófar á ferð. Gaf Björn bílstjóra okkar þau fyrirmæli að aka rakleiðis að hinum meintu veiðiþjófum sem reyndar sáu sitt óvænna þegar jeppinn okkar nálgaðist óðfluga og brunuðu áleiðis upp á veg. Hertum við þá eftirförina og náðum loksins í skottið á hinum grunuðu. Björn stökk út úr bílnum, þess albúinn að lesa þeim pistilinn í krafti sinnar stöðu sem leigutaki, boða kæru til lögreglunnar, auk fleiri viðurlaga sem hann hafði í handraðanum.

Okkur til undrunar sneri hann til baka, örlítið brugðið að því er okkur virtist. Spurður um viðbrögð afbrotamannanna svaraði hann því til að þeir væru víst saklausir. Stangartopparnir reyndust vera loftnet á bílþakinu.

Björns verður sárt saknað í veiðiferð komandi sumars. Hann var kær vinur og góður félagi, auk þess að vera góður veiðimaður. Hann var gleðimaður og allra manna skemmtilegastur í góðra vina hópi. Hann hafði afbragðs frásagnargáfu og gamansögurnar hans eru okkur eftirminnilegar, enda voru þær gjarnan fluttar með tilþrifum.

Við félagarnir vottum börnum hans, barnabörnum og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúð.

Benedikt, Björn, Brynjólfur, Guðni, Ólafur, Svavar og Þórður.

Minn kæri vinur Björn Líndal er fallinn frá um aldur fram. Ótímabært andlát hans kom þó ekki alls kostar á óvart, enda var hann búinn að stríða við heilsubrest undanfarin ár og jafnvel áratugi, en heilsu hans hafði hrakað talsvert upp á síðkastið.

Við Björn kynntumst í háskólanum, en vinátta tókst ekki með okkur fyrr en nokkrum árum síðar. Þá var Björn aðstoðarbankastjóri Landsbankans en ég fréttamaður á Sjónvarpinu. Það var sameiginlegt áhugamál sem einkum tengdi okkur saman. Veiðidellan. Gleðskapur í góðra vina hópi reyndar líka.

Ekki spillti það fyrir að eiginkonum okkar beggja, Írisi Erlingsdóttur, eiginkonu minni, og Sólveigu heitinni konu Björns, kom ákaflega vel saman. Úr varð að við ákváðum að fara saman í veiðiferð vestur í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi og slógust vinahjón okkar beggja, Hreinn Loftsson og Ingibjörg Kjartansdóttir, með í ferðina. Með voru börnin okkar, öll á svipuðum aldri. Það varð upphafið að árlegum veiðiferðum sem vörðu á meðan Sólveig lifði.

Margs er að minnast úr þessum ferðum. Eitt skiptið áðum við á Hólmavík á leiðinni vestur. Heimsóttum Galdrasafnið og hlýddum á skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur um galdra og kukl á þeim slóðum fyrr og síðar. Eftir að hafa messað yfir okkur góða stund gaf galdrakarlinn okkur gjöf; steinvölu ávala. Með fylgdu þau áhrínisorð að völunni myndi gæfa fylgja ef yrði henni kastað burt eigi síðar en á sýslumörkum. Ella myndum við hafa verra af.

Hvorki við Íris né Hreinn og Ingibjörg höfðum kjark og þor til að bregða út af þessum fyrirmælum, enda þótt steinvalan væri falleg og vísast til gæfu fallin. Stoppuðum við því bílana á Steingrímsfjarðarheiði, á vatnaskilum að því er okkur virtist, og köstuðum steinunum í urðina.

Birni þótti steinninn hins vegar fallegur og lét steinkastið vera, enda steinninn eigulegur. Gaf hann lítið fyrir varnaðarorð galdrakarlsins.

Honum hefndist fyrir það. Niðurstaða veiðiferðarinnar, sem reyndar var skemmtileg eins og ævinlega, var sú að hann veiddi langminnst okkar, sem var óvenjulegt, því Björn var bæði góður laxveiðimaður og fengsæll.

Að þessari niðurstöðu fenginni varð að orðtaki í okkar félagsskap: „Eigi veiða þeir sem engum steininum kasta.“

Laugardagshádegi eitt sátum við Jón Gunnarsson þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á Jómfrúnni sem er ekki í frásögur færandi. Nema hvað, Björn Líndal sat við þar næsta borð, einn síns liðs og las Morgunblaðið. Við kölluðum hann til okkar og upphófust strax líflegar umræður ásamt því að við fengum okkur hressingu ríflega, bæði í föstu formi og fljótandi. Hverfðist talið eðlilega mjög um pólitík og kom síðan að því að Björn, sem á yngri árum hafði hneigst til Framsóknarflokksins – sem okkur Jóni þótti óskiljanlegt – játaði fyrir okkur að hans pólitíska sannfæring ætti nú orðið meiri samleið með Sjálfstæðisflokknum sem okkur þótti tíðindum sæta.

Þegar komið var að skuldadögum á Jómfrúnni brá svo við að Jón gerði upp reikninginn sem kom Birni nokkuð á óvart. Spurði hann mig hverju þetta sætti. Ég svaraði: „Hafðu ekki áhyggjur af því Björn. Hér er verið að fagna inngöngu þinni í Sjálfstæðisflokkinn.“

Brosti Björn út í bæði og játaði að víst væri tilefnið ærið.

Andlát Björns varð okkur vinum hans mikið áfall. Við Íris vottum börnum hans, barnabörnum og ástvinum öllum okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Björns Líndals.

Ólafur E. Jóhannsson.

Við Bjössi vorum æskuvinir. Hann bjó við hliðina á ömmu minni, Hólmfríði Zoega, á Laugarásvegi og urðum við fljótt heimagangar hvor hjá öðrum. Brölluðum margt saman, oft með vinum okkar í hverfinu, Adda, Ragga og Bensa. Bárum út Moggann á Laugarásveginum, stundum alla götuna saman eða skiptum henni á milli okkar. Fullorðna fólkið hafði á orði að við værum of litlir fyrir blaðburðinn, ekki síst í hvössu vetrarveðri – við svöruðum brattir að blaðapokarnir væru svo þungir að ekkert gæti haggað okkur. Þegar við náðum í launin okkar í Moggahúsið við Aðalstræti með Evu mömmu Bjössa man ég að henni fannst við fá of lítið borgað fyrir erfiða vinnu. Okkur Bjössa var sama enda gátum við keypt okkur milksjeik í Austurstræti í forláta glerglösum fyrir eigin pening hinir hróðugustu.

Við Bjössi lærðum saman að hjóla áður en malbik og steyptar gangstéttir komu til. Eitt sinn sem oftar hjóluðum við Laugarásveginn og eins og hendi væri veifað fyrir framan mig hjólaði Bjössi á fullri ferð á ljósastaur og blóðið fossaði. Eva mamma Bjössa kom fljótlega askvaðandi í sjokki og spurði hann hvað hefði eiginlega gerst. Bjössi lá óvígur eftir en furðu rólegur og sagðist bara hafa séð svo sæta stelpu hinum megin á götunni! Löngu fyrir daga kynþroskans. Bjössi hafði alltaf svör á reiðum höndum.

Síðan skildi leiðir okkar Bjössa eins og gengur en um tvítugt hittumst við á förnum vegi og spurðum frétta. Vorum báðir á leið til Evrópu um sumarið og Bjössi sagði í gríni þegar við kvöddumst að við myndum bara hittast einhvers staðar í Evrópu. Í ágústmánuði á fáfarinni götu í París rakst ég síðan fyrir algera tilviljun á Bjössa! Vitaskuld fagnaðarfundir.

Fyrir nokkrum árum hafði Bjössi samband við okkur æskuvinina Adda, Ragga og Bensa og spurði hvort við ættum ekki að hittast. Fá okkur snarl saman á Laugaási, rölta gegnum gamla hverfið, rifja upp gömul bernskubrek. Þegar við nú kveðjum æskuvin okkar eru þessar stundir sem við félagarnir áttum saman einkar dýrmætar. Lífið er nefnilega bara eitt lítið en verðmætt augnablik. Hvíl í friði gamli vinur.

Helgi Gunnlaugsson.

Þegar Björn Líndal var fimm ára og ég árinu eldri kom hann inn í tímakennslubekkinn minn, óttalegt smábarn fannst mér. Ég vissi auðvitað hver Bjössi var, því hann bjó hinum megin við Laugarásveginn. Eftir þetta voru leiðir okkar samtvinnaðar um langt skeið. Um tíu ára gamlir gáfum við út og skrifuðum Íþróttamanninn með Ragga vini okkar. Ritstjórnarfundir voru oft stormasamir því við Bjössi vorum báðir skapstórir, rifumst ósjaldan en sættumst jafnoft. Í frásögur er fært þegar mér sinnaðist svo við Bjössa í afmælinu hans að ég rauk á dyr og heimtaði að fá afmælisgjöfina til baka. Hún skilaði sér á réttan stað á endanum!

Á sjötta og sjöunda áratugnum voru krakkar í hverju húsi á reitnum okkar í Laugarásnum, sums staðar þrjú eða fjögur börn. Þá var ýmislegt brallað. Bjössi sagði að einu sinni hefðum við sett lifandi kött í pappakassa og sett fyrir utan hjá Gunnari Gunnarssyni skáldi, hringt á bjöllunni og hlaupið í burtu. Ég held það hljóti að hafa verið stóru strákarnir sem datt það í hug.

Við vorum ekki alveg venjulegir drengir. Þegar Gunnar Thoroddsen bauð sig fram til forseta stjórnuðum við Bjössi kjördeild okkar hverfis á kosningaskrifstofunni og hringdum í kjósendur, 11 og 13 ára gamlir. En við fórum líka að sjá Led Zeppelin sumarið 1970. Í MR bað ég Bjössa að bjóða sig fram í stjórn Framtíðarinnar með mér. Ég varð forseti og hann gjaldkeri. Við skiluðum góðu búi.

Svo varð sambandið minna eins og gengur þegar menn fullorðnast og velja sér hvor sína leið. Alltaf fór þó vel á með okkur þegar við hittumst. Mér þótti vænt um það þegar Bjössi sagðist hafa stutt mig í pólitíkinni.

Síðustu ár var þráðurinn tekinn upp á ný. Bjössi tók upp á því að ná okkur strákunum saman og við fengum okkur plokkfisk á Laugaási. Við röltum upp Laugarásveginn og rifjuðum upp gamla daga. Þegar við komum veginn á enda blasti við gamla Sunnutorgs-sjoppan, hrörlegt tákn um glæsta fortíð. Enginn okkar strákanna hafði komist í klíkuna sem hékk þar, því við lærðum aldrei að reykja. Þrátt fyrir allt vorum við nefnilega prúðir piltar. Við hús númer 34 þar sem Bjössi ólst upp stóð núverandi íbúi fyrir utan og spjallaði við okkur. Þarna eyddum við áður fyrr löngum stundum, lékum okkur og spiluðum Matador. Eva, mamma Bjössa, var indæl kona og tók alltaf vel á móti okkur.

Síðastliðið haust var Björn hætt kominn af veikindum og lá á spítala í margar vikur og var vart hugað líf. Ég heimsótti hann þá á spítalann og hann sagði mér margt af sinni ævi. Fengi hann nýtt tækifæri ætlaði hann að nýta það vel.

Svo hjarnaði hann við og var kominn aftur til starfa eftir áramótin. Við töluðum um að tímabært væri að við strákarnir færum aftur að fá okkur hádegismat saman með þeim Ragga, Adda og Helga. Eigi má sköpum renna og við verðum ekki allir fimm úr því sem komið er.

Bjössi Líndal var drengur góður, fróður og vel máli farinn. Hans er saknað úr góðra vina hópi.

Börnum hans og öðrum ástvinum votta ég samúð á erfiðri stundu.

Benedikt Jóhannesson.

Í dag er borinn til grafar góðvinur minn og fyrrum samstarfsfélagi Björn Líndal.

Ég kynntist fyrst Birni heitnum í gegnum son hans Guðmund Líndal þegar við vorum samnemendur við lagadeild Háskóla Íslands. Á þessum háskólaárum mínum var ég tíður gestur á fallegu heimili fjölskyldunnar við Tjarnargötu í Reykjavík þar sem ég naut gestrisni fjölskyldunnar. Mín fyrstu hughrif af kynnum mínum við Björn tengdust þeirri yfirgripsmiklu þekkingu sem hann bjó að vegna þess hve víðförull hann var og veraldarvanur. Það kom gjarnan blik í augu hans þegar umræður okkar bárust út fyrir landsteinana. Víst er að ég bý enn að fróðleiknum sem Björn miðlaði á þessum árum í heimsóknum mínum í Tjarnargötuna þar sem ég fylgdi honum eftir í huganum um stræti og torg stórborga Evrópu sem hann lýsti með nákvæmum og ljóslifandi hætti.

Árið 2015 lágu leiðir okkar Björns svo saman aftur þegar hann varð einn eigendanna að lögmannsstofunni Lögmenn Sundagörðum, en þar starfaði undirritaður á þeim tíma sem fulltrúi. Í þeim störfum mínum kom strax í ljós hvað dómgreind Björns var góð og hve gott vald Björn hafði á íslenskri tungu, bæði í ræðu og riti. Í samstarfi okkar Björns kom í ljós hve vel við unnum saman og ekki spillti fyrir að við vorum skoðanabræður á marga vegu. Björn var helsti hvatamaður þess að ég gerðist sjálfstæður lögmaður. Hann og Sævar Þór buðu mér að kaupa þriðjungshlut í lögmannsstofunni árið 2017 sem mér þótti stórt og skuldbindandi skref á þeim tíma. En fyrst og fremst fannst mér það mikil viðurkenning að þessi gamalreyndi og slyngi lögmaður vildi vera í slagtogi með unga lögmanninum. Það að hlíta ráðum Björns í því efni reyndist mér mikið heillaskref og ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir þau ráð og fyrir að hafa verið stoð mín og stytta á þessum fyrstu árum mínum sem sjálfstæður lögmaður. Leiðsögn hans og reynsla var og er mér enn mikilvægt veganesti í störfum mínum. Í mínum huga liggur fyrir að Björn mun halda áfram að veita mér leiðsögn að handan.

Samstarf mitt og Björns var ánægjulegt og farsælt en segja má að við höfum miklu fremur verið vinir en samstarfsfélagar. Vinátta okkar byggðist á trausti og gagnkvæmri virðingu en sameiginleg áhugamál og sú staðreynd hversu vel við áttum skap saman gerði það að sérstöku tilhlökkunarefni að hitta Björn, ekki síst þegar ég komst með honum í skipulagðar gönguferðir og veiðiferðir. Sérstaklega minnisstæð er ferð sem ég fór með Birni í Stóru-Laxá árið 2020, þar sem við deildum stöng og ræddum heima og geima. Síðasta skiptið sem ég hitti Björn var þegar við fengum okkur saman hádegismat á Parliament hóteli við Austurvöll. Sá lokafundur okkar Björns var góð og falleg stund þar sem Björn fór yfir sögu Hótel Borgar og við ræddum stangveiði sumarsins og lögfræðileg málefni. Stund sem skildi eftir sig jákvæð hughrif eins og allar stundir með Birni.

Nú þegar þessi góði, ljúfi og glettni vinur minn er fallinn frá þá átta ég mig betur á hve væntumþykja mín í hans garð er mikil. Hvíldu í friði, elsku vinur.

Guðbrandur Jóhannesson.