Stórsöngvari Hér má sjá gamla mynd úr safni af Hauki Morthens en hún var fyrst birt árið 1987.
Stórsöngvari Hér má sjá gamla mynd úr safni af Hauki Morthens en hún var fyrst birt árið 1987. — Morgunblaðið/Sverrir Vilhelmsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni þess að einn ástsælasti og þekktasti dægurlagasöngvari Íslands, Haukur Morthens, hefði orðið 100 ára á morgun verður blásið til stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 26. maí klukkan 17

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Í tilefni þess að einn ástsælasti og þekktasti dægurlagasöngvari Íslands, Haukur Morthens, hefði orðið 100 ára á morgun verður blásið til stórtónleika í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 26. maí klukkan 17. Blaðamaður ákvað að forvitnast meira um þennan viðburð og sló því á þráðinn til Jógvans Hansens, söngvara og eins skipuleggjenda tónleikanna, sem var þá akkúrat staddur í bíl sínum á leið til Vestmannaeyja á svartfuglsveiðar.

„Þetta snýst fyrst og fremst um ástríðuna fyrir þessari gömlu tónlist, hún hefur einhvern veginn alltaf verið efst í huga manns,“ segir hann spurður að því hvernig hugmyndin að þessum tónleikum hafi kviknað. „Svo er það ekki bara áhuginn á tónlistinni heldur áhuginn á fólki líka og hvað það hefur gert í gegnum tíðina.“

Lög sem allir elska

Auk Jógvans koma fram á tónleikunum þau Sigtryggur Baldursson, einnig þekktur sem Bogomil Font, Valdimar Guðmundsson og Unnur Birna Björnsdóttir. Þá sér Karl Olgeirsson um útsetningu og hljómsveitarstjórn en sérstakur gestur verður Karlakór Kjalnesinga. „Okkur langaði að halda upp á afmælið hans Hauks og minnast hans. Svo er ég algjört nörd þegar kemur að tónleikum og hvað þá tónleikahaldi, þetta er allt svo skemmtilegt,“ segir Jógvan og tekur fram að áhorfendur megi búast við stórkostlegri skemmtun. „Þetta verða vel spiluð og sungin lög en það er svona kjarni tónleikanna. Svo fáum við góða og sterka aðstoð frá Karlakór Kjalnesinga en það er gríðarlega gaman að fá kórnálgun í þessum dásamlegu lögum. Svo mun snillingurinn Kalli Olgeirs sjá um að útsetja en þetta eru lög sem allir elska og ekki sjálfgefið að heyra þau í dag,“ segir hann og bætir því við að Haukur hafi verið einstök goðsögn í tónlistinni og fyrirmynd margra.

En hvað skyldi helst hafa einkennt hann sem tónlistarmann? „Það er svo margt en ég verð að nefna þennan sterka front sem Morthens-fjölskyldan hefur. Ég held að þetta snúist líka oft um kjark til að þora að leggja sönginn fyrir sig og hafa hann að atvinnu. Ég tala nú ekki um á þessum tíma þar sem menn þurftu að spila á hverju einasta kvöldi og náðu varla að lifa á því. Menn þurftu jafnvel að vinna á daginn og spila svo öll kvöld. Mér finnst svo aðdáunarvert að fólk hafi gert þetta,“ segir Jógvan og bætir við að í dag séu tímarnir aðrir. „Það er hægt að lifa eingöngu á því að flytja og spila tónlist en að hafa haft kjark til að gera þetta á þessum tíma er virkilega vel gert. Það er ekki nóg að kunna eitthvað fyrir sér í tónlist, það þarf kjarkinn í að þora að stíga fram og gera eitthvað við þessa hæfileika. Það er ekki nóg að kunna bara að syngja. Það er svo margt annað sem þarf að ganga upp áður en þú kemur fram og flytur þetta þriggja mínútna lag.“

Fæddur aðeins of seint

Inntur eftir því hvernig tilfinning það sé að heiðra Hauk á þessum tímamótum segir Jógvan hana dásamlega. „Það er algjör heiður og forréttindi að fá bita af þessari köku. Ég óska þess oft að ég hefði verið uppi og lifað á þessum tíma. Ég er fæddur aðeins of seint því ég fíla þessa gömlu tónlist langmest. Ég þoli ekki eitthvert hipphopp og beatbox. Ég hlusta bara á gömul lög og hef gert það síðan ég man eftir mér. Ég þorði þó seint að viðurkenna það fyrir sjálfum mér en það er bara mjög stutt síðan ég gerði það. Það eru kannski tíu ár síðan,“ segir hann.

Að sögn Jógvans var alls ekki einfalt að setja saman lagalista fyrir tónleikana og velja úr þeim fjöldamörgu lögum sem Haukur söng og flutti. „Þú getur rétt ímyndað þér, hann gaf út svo mikið af efni. Við tökum helstu lögin hans, eigum við ekki bara að segja „best of“,“ segir Jógvan og nefnir í kjölfarið lög eins og „Hæ mambó“, „Simba sjómann“, „Ó, borg mín borg“, „Bjössa kvennagull“, „Frostrósir“ og „Þrek og tár“. „Þetta er endalaus listi af flottum lögum.“

Spurður út í það hvort hann eigi sér uppáhaldslag með Hauki nefnir Jógvan hina sígildu dægurlagaperlu „Til eru fræ“. „Það er svo fallegt og „Frostrósir“ auðvitað líka en svo hef ég oft sungið „Hæ mambó“ sem ég hef mjög gaman af,“ segir hann og syngur smá brot af laginu, blaðamanni til mikillar ánægju. „Það er alveg frábært lag og gaman að heyra hvernig tekist hefur að gera það ekta íslenskt en þetta er auðvitað frægt erlent lag. Það er enginn sem tengir það við Dean Martin, þetta er bara Haukur Morthens,“ bætir hann við.

Slegist um Simba sjómann

Segir Jógvan mikla tilhlökkun í hópnum fyrir tónleikunum og undirbúninginn hafa gengið mjög vel. „Við eigum það öll sameiginlegt að við elskum þessa tónlist. Valdimar sendi mér til dæmis skilaboð og spurði hvort hann fengi ekki örugglega að syngja „Simba sjómann“. Ég hélt nú ekki og sagði að það væri ekki séns því ég myndi aldrei gefa það frá mér,“ segir hann og skellir upp úr. „Svo við Valdimar þurfum að fara í sjómann til að skera úr um hvor okkar fær að flytja þetta lag. Það er því ekki komið í ljós enn þá hver flytur lagið en ég gef það ekki frá mér svo auðveldlega.“

Þá verða aðeins þessir einu tónleikar í boði og segir Jógvan því um að gera að fólk tryggi sér miða í tæka tíð. „Við vildum bara gera eina flotta tónleika og hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni. Þetta er svolítið þannig, hafa tónlistina fjölbreytta og eins og ég segi það þarf svona tónleika til að fá tækifæri til þess að syngja þessi lög. Mitt hlutverk sem tónlistarflytjandi er að finna góða tónlist í kringum mig og klæða hana í búning, ekki endilega í nýjan búning heldur bara að bera hana og halda henni uppi. Það að semja nýja tónlist er ekki endilega málið, við þurfum líka að hugsa um það sem er til nú þegar,“ segir hann að lokum áður en hann kveður og stekkur um borð í Herjólf, spenntur fyrir veiðunum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir