Vilborg Áslaug Sigurðardóttir fæddist 13. júní 1970. Hún lést 4. maí 2024.

Útför hennar fór fram 15. maí 2024.

Einhvers staðar stendur að án sorgar væri engin gleði og án gleði væri engin sorg.

Það er engin gleði að kveðja unga fallega konu sem var dóttir, systir, eiginkona, móðir, amma, vinkona og systurdóttir okkar. Það er með trega og tárum sem við kveðjum í dag Vilborgu, elsta systkinabarn okkar, sem þó var ekki nema 54 ára gömul. Andlát hennar bar brátt að, svo brátt að enginn tími var til kveðjustundar. Vilborg skilur eftir stórt skarð sem enginn og ekkert getur fyllt upp í nema minningin ein. Við minnumst Vilborgar með djúpu þakklæti, þakklæti sem má sín þó svo lítils í sorginni.

Elsku Vilborg, við kveðjum þig með orðunum einhvern tímann einhvers staðar aftur.

Elsku Óli, Sigurbjörg Lilja, Sigurður Friðrik, Hjörleifur Smári og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Missir ykkar er mikill.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Sigrún, Jónas, Guðríður, Ágústa og fjölskyldur.

Elsku Vilborg mín.

Aldrei óraði mig fyrir því að þurfa að setjast niður og skrifa niður orð á blað um þig, orð sem ég finn svo núna að ég hefði átt að segja þér á meðan þú lifðir.

Að eiga þrjár móðursystur er bókstaflega eins og að eiga þrjár aukamömmur og þvílík lukka. Alla tíð hef ég verið umvafin og umkringd sterkum og flottum konum, háværum og skoðanaglöðum, sem annt er um fjölskylduna sína og myndu ganga ansi langt til að vernda og passa sitt fólk og þar var Vilborg engin undantekning á.

Vilborg var elsta systir mömmu minnar og tók hlutverk sitt sem móðursystir afar alvarlega. Hún var gífurlega stór hluti af minni barnæsku og bý ég svo vel í dag að eiga ógrynni af fallegum, fjörugum og skemmtilegum minningum með henni og hennar fjölskyldu. Það hafa verið sönn forréttindi að eiga frænkur eins og Vilborgu sem er tilbúin til að taka þátt í uppeldi manns, taka alltaf á móti manni með opinn faðm, fagna gleðistundum og takast á við þær erfiðu, hvetja mann áfram og stappa í mann stálinu þegar á reynir.

Þrátt fyrir að ég væri komin á fullorðinsaldur og samskipti ekki eins mikil og áður var þá sinnti hún hlutverki sínu jafn vel. Hún talaði alla tíð við mig sem jafningja, ráðlagði mér eftir bestu getu og sagði sína skoðun og meiningu sama hvort ég var sammála henni eða ekki. Allt er og var þetta dýrmætt og svo fjarri því að vera sjálfsagt. Ráðleggingar hennar og stuðningur hafa komið mér í gegnum stór verkefni á mínum fullorðinsárum og gaf hún mér í leiðinni visku sem ég mun njóta góðs af alla tíð.

Vilborg var frábær móðir, sem ég hef alltaf átt mikla fyrirmynd í. Og sem amma var hún framúrskarandi, nokkuð sem dætur mínar nutu góðs af líka sem og flest börn sem henni kynntust. Hún naut þess að kynnast börnunum í kringum sig, gefa þeim smá gjöf eftir utanlandsferðirnar sínar og spurði mikið og var annt um þau.

Það er til fyrirmyndar hvernig Vilborg lifði lífinu lifandi, giftist Óla sínum, einhverjum besta manni sem sögur fara af, eignaðist þrjú dásamleg, kröftug og dugleg börn sem hún var svo stolt af, fjögur barnabörn sem hún sá ekki sólina fyrir, ferðaðist mikið, skemmti sér vel og stútfyllti sinn eigin minningabanka sem og okkar allra hinna. Ég á sérstaklega eftir að sakna trúnaðarsamtalanna okkar, kaffibollanna á Hamó sem og hláturskastanna.

Í aðstæðum sem þessum er ómetanlegt að eiga góðar minningar að leita í, aðstæður þar sem við þurfum að taka þessi þungu skref, að halda áfram án hennar.

Vilborg minnti mig stundum á hvað henni fannst hún heppin að eiga smá í mér og bróður mínum. Mikið vildi ég óska þess að ég hefði sagt þér það oftar elsku Vilborg, en heppnin var öll mín.

Margs er að minnast, margs er að sakna.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Elsku Óli, Sigurbjörg Lilja og fjölskylda, Sigurður Friðrik og fjölskylda og Hjörleifur Smári, ég vildi svo sannarlega að ég ætti réttu orðin, missir ykkar er gríðarlegur en minning Vilborgar mun lifa í gegnum ykkur um ókomna tíð.

Þar til næst – þín systurdóttir,

Jóhanna Sif.

Laugardagsmorguninn 4. maí, níu ósvöruð símtöl frá Körlu, minn sími á silent. Jónas bróðir hringir í Val sem vekur mig: „Ágústa, hún Vilborg er dáin,“ tíminn stöðvast. Viku seinna er ég að skrifa minningargrein um elstu systurdóttur mína. Það er bara eitt ár á milli okkar Vilborgar og skilst mér að ég hafi nú ekki verið neitt sérlega hrifin af henni í fyrstu og ekki verið til í að deila mömmu og pabba með þeim systrum ef út í það er farið. En þar sem ég er nær systkinabörnum mínum í aldri en systkinum mínum átti það eftir að breytast.

Minningar streyma fram eins og kvikmynd í hægagangi; góðar minningar. Við urðum góðar vinkonur með árunum. Djömmuðum, fórum til Ródos, hún 17, ég 18, okkur fannst mjög fyndið að segja hvernig við værum skyldar, að mamma mín væri amma hennar, já, svona þroskaðar vorum við.

Svo byrjaði lífið, Vilborg eignaðist Sigurbjörgu Lilju og ég Brynjar ári seinna, hún eignaðist Sigurð Friðrik og ég nokkrum mánuðum seinna Enok. Vilborg var fyrstu árin einstæð móðir og var þá töluverður samgangur okkar á milli. Hún kom mikið til okkar Vals í Kinnarnar og höfðum við töluvert samband á þeim árum. Vilborg var dugleg að koma sér áfram og bjó börnum sínum fallegt heimili; fyrst á Holtinu í Hafnarfirði, síðar í Setberginu. Hún kynntist svo Óla sínum og má segja að þau hafi smollið vel saman frá fyrsta degi. Svo fór að hann flutti til þeirra í Setbergið, síðar fluttu þau á Vellina þar sem þau undu hag sínum vel síðustu 23 árin eða svo. Hún og Óli eignuðust síðan Hjörleif Smára sem var dásemdarmoli og velkomin viðbót við fjölskyldu þeirra. Það þróaðist svo þannig að ég, Valur og strákarnir áttum eftir að fá að hafa Hjörleif Smára hjá okkur eina helgi í mánuði í einhvern tíma og veit ég að Vilborg bar fullt traust til okkar að hugsa um gullmolann þeirra. Vilborg var mikil fjölskyldukona og veit ég að fráfall hennar er þeim mikið áfall. Árin líða og við höfðum alltaf eitthvert samband. Við fórum til að mynda að læra að dansa kántrídans og þar var hún mér fremri svo ekki sé meira sagt. Vilborg var metnaðargjörn og kláraði stúdentinn sem hún var mjög stolt af.

Það er margt sem mann langar að skrifa og segja, en einhvern veginn rennur þetta allt saman. Ég vildi óska að við hefðum haldið betur saman síðari ár og eitt er víst að maður veit aldrei hver kveður þetta jarðlíf næstur.

Að því sögðu. Elsku Vilborg, um þig ég hugsa en fæ ekkert sagt og mörg falla tárin, þau segja svo margt. Og eftir við sitjum og hugsum til þín, með söknuð í huga, þegar sumarsól skín. Elsku Vilborg, takk fyrir allt það góða sem við áttum saman. Ég næ því bara ekki að við eigum ekki eftir að hitta þig aftur til að spjalla og hlæja saman.

Elsku Óli, Sigurbjörg Lilja, Sigurður Friðrik, Hjörleifur Smári og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill.

Ágústa og Valur.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Mikið er sárt að þurfa að kveðja kæra vinkonu sem var kölluð frá okkur allt of snemma og er nú stórt skarð höggvið í litla vinkonuhópinn okkar.

Vinkona sem var bara um daginn hress og kát að skipuleggja ferðir sumarsins en svo bara allt í einu urðu dagarnir ekki fleiri. Þarna skall á mann allt í einu hvað lífið getur verið stutt.

Þegar við lítum til baka og rifjum upp samverustundirnar þá koma upp ansi margar og góðar minningar. Öll ferðalögin, hvort heldur það voru sumarbústaðarferðirnar, tjaldútilegurnar eða ferðirnar erlendis, öll spilakvöldin, línudansinn sem við dönsuðum á stofugólfinu hjá henni, spjallið í saumó og líka allar aðventuferðirnar svo eitthvað sé nefnt.

Við höfum átt svo margar góðar stundir sem við höfum notið saman en þær áttu bara að verða svo miklu fleiri, það var svo margt sem við áttum eftir að gera.

Elsku Vilborg, við þökkum fyrir allar yndislegu minningarnar sem munu aldrei gleymast og eru huggun í sorginni að rifja upp.

Við óskum þér góðrar ferðar á þínu hinsta ferðalagi, takk fyrir allt, elsku vinkona.

Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessari erfiðu stund.

Rakel, Sigurlína, Ásta María og Inga Lind.

Samstarfskona okkar er fallin frá og hennar verður sárt saknað. Við sem höfum starfað með Vilborgu minnumst hennar með hlýhug og þakklæti fyrir stundirnar saman í erlinum í Héraðsdómi Reykjaness. Undantekningalaust var Vilborg boðin og búin til að aðstoða við að leysa öll verkefni og þau vandamál sem upp komu. Eftir sitja ótal góðar minningar um góða vinkonu og frábæran samstarfsfélaga.

Fráfall Vilborgar var mikið reiðarslag og óskiljanlegt er hvers vegna verið er að kippa í burtu svo ungri konu í blóma lífsins. Henni hlýtur að vera ætlað eitthvert sérstakt hlutverk annars staðar.

Við fyrrverandi samstarfskonur Vilborgar viljum þakka henni góð kynni, góðar stundir og umfram allt gott samstarf á undanförnum árum.

Við sendum fjölskyldu og ástvinum Vilborgar innilegar samúðarkveðjur. Minning hennar lifir.

Nú kveðja þig vinir með klökkva
og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur
að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Hildur Guðfinnsdóttir, Erna Björt Árnadóttir, Stefanía Knútsdóttir, Hulda Kristinsdóttir, Jenný Jónsdóttir.

Það dimmdi í hugskoti mínu þegar þær fregnir bárust að Vilborg okkar í Héraðsdómi Reykjaness, þessi elskulega, bjarta og fallega kona, væri komin í tölu þeirra sem burt eru kallaðir allt of snemma. Ég kynntist Vilborgu þegar ég kom til starfa í héraðsdómi haustið 1998 og vann með henni í svokölluðu Dvergshúsi, sem fáir vilja minnast. Á þeim árum var Vilborg allt í öllu á skrifstofunni; kunni allt, gat allt og gerði allt. Þótt ekki væri hún á launum skrifstofustjóra var mér frá upphafi ljóst hver stjórinn var í brúnni og hver hélt skrifstofunni gangandi frá degi til dags. Við Vilborg (og fleiri) fluttum síðan í núverandi húsnæði héraðsdóms að Fjarðargötu 9 um síðustu aldamót. Mörgum árum seinna hvarf ég á önnur og ólík mið, sinnti m.a. húsverkum og garðyrkjustörfum í Brussel, haslaði mér seinna völl sem lögmaður og fór að sækja dómþing í Héraðsdómi Reykjavíkur. Og hver hittist þá fyrst fyrir nema hún Vilborg mín; ég „útlendingurinn“ frá Brussel og hún „útlendingurinn“ úr Hafnarfirði. Fyrir Guðs mildi komumst við bæði aftur heim í okkar héraðsdóm og gátum endurnýjað gifturíkt starfssamband. Vilborg var andlit héraðsdóms og fyrsti pósturinn gagnvart öllum sem hingað sækja þjónustu. Jákvæðni, greiðvikni og dugnaður einkenndu hennar viðmót og störf. Ég veit ekki hversu oft ég bað Vilborgu um aðstoð, t.d. við ljósritun stórra skjalabunka í tveimur eintökum og sagði jafnan að ekki lægi mikið á, en ágætt væri að fá ljósritin innan viku. Og sjaldan gerðist annað en að ljósritin voru komin á mitt borð samdægurs eða degi síðar. Þetta er lýsandi fyrir kraftinn í þessari konu. Við sem fengum að vinna með henni nutum þess einnig á ýmsan annan hátt, s.s. með óvæntum jólapökkum sem biðu okkar að morgni og allir klóruðu sér í hausnum yfir því hver jólasveinninn væri. Þótt rökstuddur grunur beindist að Vilborgu var hún ávallt stóísk á svip og ekki við greiðri játningu að búast á þeim bænum. Um síðustu jól varð henni þó að falli að lauma brjóstsykri í grænum umbúðum með í pakkana; brjóstsykri sem hún keypti árið um kring fyrir aðra að njóta og þá varð ekki lengur efast. Það er þetta sem er svo lýsandi fyrir Vilborgu; hún var alltaf að hugsa um aðra. Við í héraðsdómi eigum eftir að sakna hennar sárt. Við erum þakklát fyrir öll árin okkar saman og vottum Ólafi eiginmanni hennar, börnum þeirra og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Þau hafa misst mikið.

F.h. starfsmanna Héraðsdóms Reykjaness,

Jónas Jóhannsson
dómstjóri.