Heimilisofbeldi Einsemd er vaxandi í okkar samfélagi, ekki síst hjá öldruðum. Sumir hafa ekki aðgang að öðrum en þeim sem beita þá ofbeldinu.
Heimilisofbeldi Einsemd er vaxandi í okkar samfélagi, ekki síst hjá öldruðum. Sumir hafa ekki aðgang að öðrum en þeim sem beita þá ofbeldinu. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Óskar Bergsson oskar@mbl.is Ofbeldi gegn eldra fólki er meinsemd í okkar samfélagi og oft er erfitt að upplýsa og greina málin sem upp koma þar sem þolendurnir eru oftar en ekki háðir ofbeldismönnunum.“

Sviðsljós

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Ofbeldi gegn eldra fólki er meinsemd í okkar samfélagi og oft er erfitt að upplýsa og greina málin sem upp koma þar sem þolendurnir eru oftar en ekki háðir ofbeldismönnunum.“

Þetta segir Hjördís Garðarsdóttir, fræðslustýra Neyðarlínunnar, en hún flutti erindi um ofbeldi gegn öldruðum á landsfundi Landssambands eldri borgara, LEB, í vikunni.

Ofbeldið er margskonar, svo sem líkamlegt, andlegt, fjárhagslegt, stafrænt og kynferðislegt, auk margskonar vanrækslu. Hjördís segir bestu forvörnina vera umræðu og virkt nágrannasamfélag.

Háð stuðningi ofbeldismanna

Hjördís segir ofbeldið gegn eldra fólki því miður staðreynd í okkar samfélagi og mikla meinsemd.

„Hversu umfangsmikið það er vitum við ekki, því það hafa verið gerðar mjög takmarkaðar rannsóknir. Að sama skapi vitum við að aldraðir eru líklegri til að vera útsettir fyrir ofbeldi en aðrir þjóðfélagshópar og ólíklegri til að tilkynna það. Það kemur til af því að sá sem beitir ofbeldinu er oft sá sem viðkomandi er háður. Það getur verið maki, barn, starfsmaður heimaþjónustu eða hjúkrunarheimilis sem viðkomandi er háður stuðningi frá í daglegu lífi. Þess vegna er þolandinn mjög ólíklegur til að tilkynna um ofbeldi sem hann verður fyrir,“ segir Hjördís.

Hún segir einsemd vaxandi í okkar samfélagi og ekki síst meðal eldri borgara. Það leiði af sér að aldraðir hafi ekki aðgang að öðrum en þeim sem beita þá ofbeldinu.

Besta forvörnin er samtalið

Afleiðingar ofbeldis gegn eldra fólki geta haft víðtæk áhrif.

„Besta forvörnin er umræðan og virkt nágrannasamfélag. Ef fólk sér að aldraður einstaklingur sé óhreinn eða með sjáanlega áverka er mikilvægt að gefa sig á tal við viðkomandi og sýna áhuga og stuðning. Það getur verið erfitt að stíga inn í líf fólks með þessum hætti, en við þurfum að vera tilbúin að gera það,“ segir Hjördís.

Hún segir Neyðarlínuna ekki alltaf fá alla myndina þegar tilkynningar berast. „Það breytir því ekki að við þurfum að vera tilbúin að taka á móti fólki þegar haft er samband. Þeir ofbeldisflokkar sem birtast helst hjá okkur eru annars vegar stafræna ofbeldið og svo þetta mikla líkamlega ofbeldi,“ segir Hjördís

Neyðarlínan er með undirsíðu á vef sínum er nefnist Ofbeldisgáttin (https://www.112.is/ofbeldisgatt112). Þar er búið að taka saman upplýsingar um ofbeldi, hvernig megi bregðast við því og hvert sé hægt að vísa fólki.

Gerendur leiti sér aðstoðar

Á síðunni eru einnig upplýsingar fyrir gerendur. Hjördís segir að ekki sé hægt að stoppa ofbeldið með því einu að hjálpa þolendum.

„Við þurfum að stoppa það hjá gerendum og hjálpum þeim að leita sér aðstoðar.“

Þeir staðir sem veita þjónustu vegna ofbeldis eru félagsþjónustur á hverju svæði, Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð, Neyðarmóttakan og Heimilisfriður sem er þjónusta fyrir þá sem beita ofbeldi.

Víðtæk áhrif

Fjárhagslegt ofbeldi

Eldra fólk er oft háð aðstoð ættingja eða annarra með heimabanka og annað slíkt sem er háð tæknilegum lausnum og ekki allir sjálfbjarga með. Fjárhagslegt ofbeldi getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þolandann, því hann hefur ekki sömu möguleika og áður að afla sér tekna og lágmarka skaðann. Aldraðir hafa líka orðið fyrir netsvikum.

Sama gildir með líkamlegt ofbeldi og aldraðir eru lengur að gróa sára sinna.

Ekki er vitað hversu umfangsmikið ofbeldið er, og mjög takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á því.

Andlegt ofbeldi er þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa. Það getur verið bæði með orðum og hegðun.

Vanræksla er þegar einhver sinnir ekki þörfum hjálparvana einstaklings sem þarf aðstoð.