Við hvetjum Minjastofnun til að afturkalla samþykki sitt fyrir þarflausum breytingum á Sundhöllinni.

Þröstur Ólafsson, Hjörleifur Stefánsson, Holberg Másson, Helgi Hjálmarsson, Leifur Breiðfjörð, Þórarinn Gunnarsson, Helgi Gíslason, Helgi Þorgils Friðjónsson, Lárus Halldórsson, Haukur Haraldsson, Magnús Gunnarsson og Jón Þór Hannesson, ásamt fjölmörgum öðrum velunnurum og gestum Sundhallarinnar.

Opið bréf til Rúnars Leifssonar, forstöðumanns Minjastofnunar Íslands, og Péturs Ármannssonar, deildarstjóra sömu stofnunar.

Hópur fastagesta Sundhallar Reykjavíkur telur brýnt að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkvæmdir sem í ráði er að hefja fljótlega við Sundhöll Reykjavíkur og munu skerða menningarsögulegt og listrænt gildi byggingarinnar að þarflausu. Flestir úr hópi okkar hafa stundað Sundhöllina áratugum saman og sumir lærðu þar að synda í hópi þorra reykvískra barna um miðja 20. öldina. Við þekkjum Sundhöllina afar vel því hún er snar þáttur í lífi okkar og venjum. Við vitum öll að Sundhöllin er einstakt mannvirki, sem hefur mikið gildi sem byggingarlist og vegna menningarsögulegs hlutverks hennar, enda er hún friðuð samkvæmt lögum um menningarminjar.

Nú er stefnt að því að gerbreyta sundlaugarbökkunum og endurbyggja þá í því horfi sem þykir hæfa í nýjum sundlaugum. Enga nauðsyn ber til þessarar breytingar. Einu rökin sem við höfum séð eru á þá leið að nútímasundlaugarbakkar henti betur við sundkennslu. Þetta teljum við svo léttvæg rök að þeim beri að hafna. Reynslan hefur rækilega sýnt að sundlaugarbakkar Sundhallarinnar henta vel. Þeir kunna að hafa einhverja galla en það hafa nútímabakkar líka og þess má vænta að senn komi fram enn nýjar hugmyndir um enn betri sundalaugarbakka. Bakkar laugar Sundhallarinnar eru hluti af heildarhönnun hússins, sem þykir einstaklega falleg og stórmerkileg. Breyting á þeim myndi skerða listrænt gildi hússins og slíkt má ekki eiga sér stað nema í þeim tilvikum þegar mjög brýna nauðsyn ber til, til dæmis að lýðheilsu sé stefnt í voða eða annað þaðan af alvarlegra. Minjastofnun Íslands hefur því miður samþykkt þessar fyrirhuguðu breytingar án þess að séð verði að það sé stutt þungvægum rökum.

Í lögum um Menningarminjar segir í 1. grein: „Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.“ Verði sundlaugarbökkunum breytt munu komandi kynslóðir erfa Sundhöllina spillta og að því leyti má segja að samþykki Minjastofnunar gangi þvert á lögin. Við hvetjum Minjastofnun Íslands til að endurskoða fyrri ákvörðun sína, draga samþykki sitt til baka og endurhugsa afstöðu sína í anda fyrstu greinar laga um menningarminjar. Vert er að benda einnig á 1. grein Feneyjaskrárinnar, þar sem er að finna alþjóðlegar viðmiðanir um hvernig staðið skuli að varðveislu sögulegra minja: Markmið varðveislunnar er að vernda bæði listaverkið og hinn sögulega vitnisburð. Hvergi er gert ráð fyrir því að listaverki sé breytt að þarflausu.

Alþjóðasamfélagið hefur einnig samþykkt reglur, Feneyjaskrána, sem kveða á um viðhald og verndun minja og verndaðra mannvirkja. Í 3. grein hennar segir: „Varðveisla sögulegra minja krefst þess fyrst og fremst að tryggt sé stöðugt viðhald.“ Sundhöll Reykjavíkur hefur alls ekki hlotið það stöðuga viðhald sem nauðsynlegt er og hún verðskuldar.

Auk þess að afturkalla samþykki sitt fyrir breytingum á sundlaugarbökkunum hvetjum við Minjastofnun til að knýja á um að Reykjavíkurborg virði þá skyldu sína að halda hinni friðuðu byggingu sómasamlega við.

Þröstur Ólafsson, Hjörleifur Stefánsson, Holberg Másson, Helgi Hjálmarsson, Leifur Breiðfjörð, Þórarinn Gunnarsson, Helgi Gíslason, Helgi Þorgils Friðjónsson, Lárus Halldórsson, Haukur Haraldsson, Magnús Gunnarsson og Jón Þór Hannesson, ásamt fjölmörgum öðrum velunnurum og gestum Sundhallarinnar.