Georg Páll Skúlason
Georg Páll Skúlason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Engar kröfur eru gerðar varðandi kolefnisspor bóka þegar veittir eru styrkir til útgáfu íslenskra bóka.

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir og Georg Páll Skúlason

Nærri allar íslenskar bækur eru prentaðar erlendis. Það heyrir til undantekninga að bækur séu prentaðar hér á landi og smám saman mun fagþekking á slíku prentverki hverfa algjörlega. Fyrirkomulag á styrkjum stjórnvalda sem var ætlað að blása lífi í íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu blæs lífi í erlendar prentsmiðjur í Evrópu og Kína og dregur mátt úr íslenskum prentsmiðjum.

Nýverið var haldin ráðstefna um stöðu bókarinnar á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis. Þar var rýnt í árangur af lögum um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Lögin, sem voru lögð fram árið 2018, segja til um endurgreiðslu bókaútgefenda vegna kostnaðar við útgáfu bóka. Stærsti hluti kostnaðar varðar prentun bóka.

Frá því að styrkjafyrirkomulagið var tekið upp hefur prentuðum bókum á íslensku fækkað um 6,35% en fækkun þeirra sem prentaðar eru hér á landi nemur 22,58%.

Íslensk bókaútgáfa er stór heimur fagfólks

Það er ekkert tillit tekið til íslensks handverks og útgáfu í prentun, auglýsingagerðar og myndskreytinga þegar kemur að veitingu styrkjanna. Þá eru styrkirnir bundnir við það að lágmarksupphæð prentverks sé yfir milljón krónum. Litlir útgefendur eiga því ekki kost á að nýta sér niðurgreiðsluna, nokkuð sem myndi henta bæði íslenskum prentsmiðjum og útgefendum til þess að byggja upp bókaprentun innanlands að nýju. Lægra þak á styrkjum, allt niður í 300 þúsund krónur, myndi stuðla að fjölbreyttari útgáfu.

Íslensk bókaútgáfa er ekki þröngur heimur rithöfunda og útgefenda þeirra. Í þessum heimi eru líka teiknarar, þýðendur, hönnuðir, íslenskt markaðsfólk og grafískir miðlarar; prentarar, bókbindarar og prentsmiðir. Ekki gleyma unga fólkinu sem leggur á sig nám í grafískum greinum, vill vinna í útgáfu og miðlun, og vill vera samkeppnishæft við kollega sína í öðrum löndum. Þetta er stór, skapandi og skemmtilegur heimur fagfólks sem við viljum styðja.

Engar kröfur gerðar um umhverfisvæna prentun

Íslenskar prentsmiðjur leggja verulega hart að sér til þess að uppfylla kröfur um umhverfisvænan iðnað og sjálfbærni og eru flestar Svansvottaðar. Þessu fylgir mikill kostnaður og að baki er margra áratuga vinna sem hefur skilað sér í því að kolefnisspor íslenskra prentsmiðja er minna en annarra prentsmiðja í nágrannalöndum enda eru öll aðföng og orka til framleiðslu sjálfbær. Þá eru aðstæður og kjör starfsfólks góð og til eftirbreytni.

Engar kröfur eru gerðar varðandi kolefnisspor bóka þegar veittir eru styrkir til útgáfu íslenskra bóka. Það hlýtur að vera algjört lágmark að íslensk stjórnvöld geri þá kröfu þegar þau veita styrki í prentun. Eða getur það verið í lagi að prenta í Kína þar sem kolefnisspor prentunar er hundraðfalt stærra en í Evrópu? Núna auka styrkirnir á umhverfisvandann, þvert á stefnu stjórnvalda hér og víðast hvar um heiminn.

Minna kolefnisspor ef bókin er prentuð á Íslandi

Margir telja að kolefnisspor íslensks prentiðnaðar hljóti að vera stærra en í nágrannaríkjum okkar þar sem við flytjum inn nærri allt hráefni til framleiðslunnar. Það er ekki rétt, kolefnisspor íslensks prentiðnaðar er töluvert minna en í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Kolefnisspor bókar sem er prentuð á Íslandi er neikvætt, eða –42g CO2 (EFLA, 2024). Stór hluti bóka sem eru gefnar út á Íslandi er prentaður í Lettlandi. Kolefnisspor bókar sem er prentuð í Lettlandi er 66 CO2 og kolefnisspor bókar sem er prentuð í Kína ber gríðarstórt kolefnisspor eða 722 CO2. Talið er að um 8% bóka sem gefnar eru út á Íslandi séu prentuð í Kína.

Hleypum lífi í íslenska bókaprentun

Samkeppnisstaða íslensks prentiðnaðar gagnvart samanburðarlöndum er skökk. Það er sorglegt að stjórnvöld eigi beinan þátt í því að skekkja samkeppnisstöðu íslenskra prentsmiðja. Nú þarf að bæta stöðuna, það er öllum í hag. Gerum meiri kröfu um gæði prentunar, styðjum við það góða starf sem íslenskar prentsmiðjur hafa unnið í umhverfismálum og lækkum þakið á styrkjum vegna útgáfu bóka. Þannig hleypum við lífi í bókaprentun á Íslandi, minnkum kolefnissporið og varðveitum dýrmæta þekkingu fagfólks í iðnaðinum.

Kristjana Björg er leiðtogi prent- og miðlunargreina hjá Iðunni fræðslusetri. Georg Páll er formaður Grafíu.