Sverrir Júlíusson fæddist á Háteigi í Reykjavík 27. október 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 8. maí 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Jónína Margrét Jónsdóttir húsfreyja, f. 17. jan. 1891 í Garðabæ á Eyrarbakka, d. 6. sept. 1970, og Júlíus Magnússon verkamaður, f. 12. júlí 1883 í Hagasókn á Rangárvöllum, d. 4. jan. 1931.

Sverrir var yngstur í hópi sjö systkina sem nú eru öll látin, elstur var Sigurður, f. 4. des. 1917, d. 14. feb. 1984, þá Guðrún, f. 30. apríl 1920, d. 24. okt. 2015, Guðmunda Kristín Sigríður, f. 12. mars 1922, d. 7. sept. 1995, Jóhanna Svanhvít, f. 19. des. 1923, d. 23. júlí 2009, Guðmundur Óskar, f. 3. des. 1926, d. 16. sept. 2008, og Valur, f. 13. mars 1928, d. 5. júlí 2020.

Sverrir kvæntist 27. des. 1958 Guðrúnu Dagnýju Ágústsdóttur, f. 20. des. 1929, d. 15. sept. 2022. Foreldrar hennar voru Ágúst Benediktsson vélstjóri, f. 25. ágúst 1897, d. 22. júlí 1964, og Þórdís Dagbjört Davíðsdóttir húsfreyja, f. 7. okt. 1903, d. 11. mars 1998.

Synir Sverris og Dagnýjar eru: 1) Trausti Þór kennari, f. 2. maí 1957, kvæntur Marcellu Martinelli. Fyrri eiginkona Trausta Þórs var Dóra Kondrup, d. 4. júlí 2006, börn þeirra eru: a) Júlía, b) Ólafur Sverrir. Sonur Dóru og fóstursonur Trausta Þórs er Jóhann Meunier. 2) Ágúst Örn læknir, f. 30. nóv. 1965. Hann var kvæntur Arndísi Jónasdóttur, synir þeirra eru: a) Snorri, b) Sverrir. 3) Freyr ráðgjafi, kvæntur Janet L. Sawin, sonur þeirra er Finnian. 4) Sverrir flugstjóri, f. 18. des. 1971. Sonur Sverris og Marion Herrera er Skorri Pablo. Sonur Sverris og Emmu Hartman er Júlíus Garri.

Sverrir missti föður sinn á öðru aldursári en eignaðist fóstra, Ágúst Jóhannsson, sem bjó með móður hans og systkinahópnum á Grettisgötu 46. Sverrir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1950 og kynntist þar eiginkonu sinni. Hann lauk prófi í rekstrarhagfræði við Oslóarháskóla 1955 og réðst þá til starfa á Raforkumálastofnun. Hafði hann þar umsjón með fjölmörgum þáttum er lutu að uppbyggingu og framgangi raforkumála, m.a. við byggingu Steingrímsstöðvar og lagningu sæstrengs til Vestmannaeyja. Sverrir réðst til starfa við fjármálaráðuneytið 1970 og varð sérfræðingur á sviði tollamála í samskiptum við Evrópubandalagið á vettvangi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Sverrir fylgdi málaflokknum til viðskiptaráðuneytis og síðar utanríkisráðuneytis þar sem hann lauk starfsævi sinni 1999.

Að loknu námi og störfum í Osló hófu Sverrir og Dagný búskap á rislofti Vegamótastígs 9, hjá foreldrum Dagnýjar. Sverrir og Dagný byggðu íbúð í Geitlandi og síðar hús í Beykihlíð og fluttu þangað að lokinni starfsævi árið 2000.

Sverrir var formaður Starfsmannafélags ríkisstofnana (SFR) og fulltrúi þess í BSRB þegar hrint var í framkvæmd hugmyndinni um orlofshúsabyggð í Munaðarnesi í Borgarfirði sem tekin var í notkun 1971.

Útför Sverris fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 16. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Þegar ég kom til þín í Sóltún, pabbi minn, eftir að mamma dó, áttum við dýrmætar stundir sem ég hefði viljað hafa miklu fleiri. Fjórar bækur voru á náttborðinu: Sárið og perlan eftir Sigurbjörn Einarsson, Íslensk hómilíubók, úrval úr Passíusálmunum og ljóðakver Braga Ólafssonar Fjórar línur og titill. Þar er þetta upphafserindi:

Það er ekki mitt að ákveða

hvort ég er að heilsa eða kveðja

þegar ég lyfti hægri hönd minni

og læt hana opnast eins og blævæng.

Ég veit að þú beiðst óþreyjufullur eftir að kveðja okkur og heilsa mömmu á nýjum stað. Við eigum þá minningarnar, trúna, vonina, kærleikann. Fáein kvöld las ég með þér hugleiðingar herra Sigurbjörns, naumt endurgjald fyrir allt það sem þú gafst mér.

Ég man: Þú hélst mér á háhesti á Holmenkollen. Þú sigldir með mig til Danmerkur á Árvakri. Þú leiddir mig um stræti Kaupmannahafnar að kvöldlagi. Þú bauðst mér í Hallgrímskirkju að hlusta á séra Jakob. Þú útskýrðir fyrir mér mikilvægi staðla fyrir opinber skjöl. Þú komst með jarðarber og Leonidas-súkkulaði frá Brussel. Þú hlustaðir með mér á Pastoral-sinfóníu Beethovens. Þú kenndir mér að binda steypustyrktarstál. Þú lagðir á ráðin með mér fyrir kappræður um orkumál í MR. Þú gafst mér þjóðlagasafn séra Bjarna Þorsteinssonar. Þú tókst mig með þér til Genfar að loknu stúdentsprófi. Þú sýndir mér hvað var að finna í Lexicon poeticum. Þú hjálpaðir mér að greina kjarnann frá hisminu.

Allt þetta man ég og miklu, miklu fleira. Það vil ég þakka. Hjónaband ykkar mömmu sem bundið var í Neskirkju reyndist jafnsterkt og stálið sem þú lagðir þar í kirkjugrunninn á námsárum þínum. Það hefur ekki slitnað og mun aldrei gera.

Ég fel í sérhvert sinn

sál og líkama minn

í vald og vinskap þinn,

vernd og skjól þar ég finn.

(Hallgrímur Pétursson, úr 47. passíusálmi)

Trausti Þór
Sverrisson.