Framganga körfuboltafólks Grindavíkur í vetur er án efa eitt af því dýrmætasta fyrir byggðarlagið sem gengið hefur í gegnum fádæma hremmingar vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga. Bæði karlalið og kvennalið Grindavíkur hafa verið í fremstu röð á …

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Framganga körfuboltafólks Grindavíkur í vetur er án efa eitt af því dýrmætasta fyrir byggðarlagið sem gengið hefur í gegnum fádæma hremmingar vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga.

Bæði karlalið og kvennalið Grindavíkur hafa verið í fremstu röð á Íslandsmótinu og nú er karlaliðið komið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn eftir hreint lygilega frammistöðu gegn Keflavík í fyrrakvöld.

Grindvíkingar hafa fjölmennt í Smárann, bráðabirgðaheimili grindvíska körfuboltans í Kópavogi, í allan vetur og vor og eiga nú fyrir höndum þrjá til fimm úrslitaleiki um meistaratitilinn, þar og á Hlíðarenda.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari karlaliðs Grindvíkinga, orðaði þetta mjög vel í viðtali við mbl.is eftir sigurinn á Keflavík í fyrrakvöld.

„Þetta snerist ekki bara um að fara áfram og halda markmiðinu gangandi, heldur fáum við fleiri samverustundir í Smáranum með samfélaginu okkar, sem er geggjað,“ sagði Jóhann.

„Það er það sem þetta snerist um, sérstaklega fyrir okkur sem erum fæddir og uppaldir í Grindavík og þekkjum ekkert annað en að búa í Grindavík. Það er málið, að fá að njóta með fólkinu okkar. Þú sérð mætinguna hjá Grindvíkingum, þetta er bara sturlað,“ sagði þjálfarinn.

Aðstæðurnar í kringum lið Grindvíkinga eru einstakar í íslenskri íþróttasögu. Bara það að Grindavík sé í þessu úrslitaeinvígi er magnað, hvað þá ef liðinu tækist að landa meistaratitli. Við eigum í það minnsta afar sérstakt einvígi fyrir höndum.