Kassar Framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar segir viðskiptavini vilja umhverfisvænni umbúðir um leið og þeir vita að þær standa til boða.
Kassar Framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar segir viðskiptavini vilja umhverfisvænni umbúðir um leið og þeir vita að þær standa til boða.
Sjávariðjan á Rifi á Snæfellsnesi gekk nýverið frá samningi við Stora Enso um kaup á vél til að útbúa pappakassa undir ferskan hvítfisk til útflutnings. Kassar af þessari tegund hafa verið í notkun um nokkurt skeið en vinsældir þessarar lausnar…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Sjávariðjan á Rifi á Snæfellsnesi gekk nýverið frá samningi við Stora Enso um kaup á vél til að útbúa pappakassa undir ferskan hvítfisk til útflutnings. Kassar af þessari tegund hafa verið í notkun um nokkurt skeið en vinsældir þessarar lausnar virðast fara vaxandi í íslenskum sjávarútvegi og meðal kúnna erlendis.

„Við höfum verið að prófa okkur áfram með þetta og erum komin með kúnna sem við gætum verið að selja um 40 þúsund kassa (af fiski) til að byrja með og ákváðum að slá til og kaupa vél til að búa til þessa kassa,“ segir Alexander Friðþjófur Kristinsson, framkvæmdastjóri Sjávariðjunnar.

Hann segir markmiðið með að taka pappann í notkun hafa verið að geta boðið viðskiptavinum umhverfisvænni lausn og gera betur í umhverfismálum, en pappinn er endurvinnanlegur, sem frauðplast er ekki.

Pappakassarnir hafa reynst ágætlega að sögn Alexanders Friðþjófs, en helsta áskorunin sé að tryggja hitastigið þar sem pappinn hefur ekki sömu eiginleika og frauðplastið hvað varðar einangrun.

„Hitastigið þarf auðvitað að vera í lagi, það er forsenda þess að þetta gangi upp. Pappinn heldur ekki hitastiginu, en hvað varðar okkar kúnna erum við komin með ferla þar sem er búið að tryggja öruggar flutningsleiðir sem halda. Bæði hvað varðar flug og frakt. Þegar kúnninn ákveður að hann vilji þessa lausn þá látum við það ganga, það er bara svoleiðis.“

Spurður hvort algengt sé að viðskiptavinir biðji um umhverfisvænni flutningsumbúðir sem þessar viðurkennir Alexander Friðþjófur að viðskiptavinir leiti ekki sérstaklega eftir því að eigin frumkvæði, en það sé aðallega vegna þess að þeir viti ekki af þessum möguleika. „Þegar kúnnanum stendur þessi lausn til boða þá vill hann hana,“ segir hann.

Miklir kostir

„Þetta er komið á hreyfingu. Fleiri eru farnir að gera sig tilbúna í að færa sig úr frauðplastinu yfir í umhverfisvænni umbúðir. Það hefur verið erfiðleikum háð að eyða frauðplasti,“ segir Haraldur E. Jónsson, sölustjóri Stora Enso á Íslandi.

Hann fullyrðir að pappakassinn hafi fjölmarga kosti fram yfir frauðplastið og bendir á að pappinn sé 100% endurvinnanlegt efni með sömu umhverfisvænu eiginleika og pappír sem brotnar niður í náttúrunni. Þá sé einnig mun minna kolefnisspor af flutningi pappans þar sem hinu flötu kassar taka aðeins einn sjöunda af því plássi sem frauðplastkassar taka, til að mynda þarf aðeins eitt bretti af pappakössum á móti heilum vörubíl af frauðplastkössum til að ná sama fjölda.

„Verðið hefur verið sambærilegt og á frauðplastkössunum en hefur orðið aðeins lægra en á frauðplastinu undanfarið,“ segir Haraldur.

Reynst vel víðar

Sjávariðjan er alls ekki fyrsta fyrirtækið til að taka í notkun pappa undir sjávarafurðir til útflutnings hér á landi en er fyrst til að hefja stórfelldan útflutning á ferskum hvítfiski í slíkum umbúðum.

Áður hefur meðal annars Premium of Iceland í Sandgerði tekið umbúðir af þessum toga í notkun og hafa fulltrúar fyrirtækisins lýst mikilli ánægju með þær. Gylfi Þór Markússon, framkvæmdastjóri Premium of Iceland, sagði meðal annars í viðtali í blaði 200 mílna að kúnnahópurinn stækkaði eftir að farið var að bjóða umhverfisvænni flutningskassa.