„Yngri hluti aldamótakynslóðarinnar svokölluðu átti mun erfiðara með að komast inn á húsnæðismarkaðinn heldur en aðrar kynslóðir, ef miðað er við húsnæðisuppbyggingu og fjölda íbúa á þrítugsaldri.“ Þetta segir í greiningu sem birt er á…

„Yngri hluti aldamótakynslóðarinnar svokölluðu átti mun erfiðara með að komast inn á húsnæðismarkaðinn heldur en aðrar kynslóðir, ef miðað er við húsnæðisuppbyggingu og fjölda íbúa á þrítugsaldri.“ Þetta segir í greiningu sem birt er á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, þar sem bornar eru saman kynslóðir ungs fólks á þrítugsaldri á mismunandi tímabilum og hversu margir á þeim aldri voru um hverja nýbyggða íbúð sem stóð til boða á hverjum tíma.

Fram kemur að meðlimir eldri kynslóða bjuggu við meira framboð af nýju húsnæði á þrítugsaldri en aldamótakynslóðin. Uppgangskynslóðin svonefnda (e. baby boomers) sem komst á þrítugsaldur á árunum 1969-1984 bjó við mesta framboðið. Þá voru að jafnaði 20 íbúar á þrítugsaldri á hverja nýbyggingu. Til samanburðar voru um 30 íbúar á þrítugsaldri á hverja nýbyggingu þegar X-kynslóðin svonefnda, sem komst á þrítugsaldur á árunum 1985-2000, var að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum.

„Yngri meðlimir aldamótakynslóðarinnar, sem fæddir voru á tímabilinu 1988-1993, voru hins vegar langsamlega óheppnastir á húsnæðismarkaði ef litið er til framboðshliðarinnar. Allt að 100 íbúar á þrítugsaldri voru fyrir hverja nýbyggingu þegar þessir árgangar voru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði,“ segir í greiningunni.

Hlutdeild ungra kaupenda minnkaði hratt eftir hrunið

Hafa ber í huga að fjöldi fólks á þessum aldri hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Í fyrra voru t.d. um 60 þúsund á þessu aldursbili en þeir voru um 30 þúsund árið 1969.

Bent er á að með minna framboði íbúða á árunum 2008-2013 minnkaði hlutdeild ungra kaupenda á fasteignamarkaði hratt. Hlutdeild ungra kaupenda á fasteignamarkaði hafi helmingast á tímabilinu 2008-2013 og hún ekki enn náð sömu hæðum og fyrir hrun. „Á sumarmánuðum 2008 voru 37 prósent allra fasteignakaupenda undir þrítugu, en í ársbyrjun 2013 var sama hlutfall komið niður í 18 prósent. Síðan þá hefur hlutdeild ungra kaupenda aukist nokkuð, en þó er hún ekki jafnmikil og hún var fyrir tveimur áratugum.“ omfr@mbl.is