Héraðsdómur Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir aðhaldsráðstöfunum.
Héraðsdómur Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir aðhaldsráðstöfunum. — Morgunblaðið/Þór
„Ekki verður séð að unnt sé að bregðast við vanfjármögnun héraðsdómstóla og boðaðri aðhaldskröfu nema með því að fækka dómurum um tvo til þrjá og/eða leggja niður a.m.k. einn einmenningsdómstól

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

„Ekki verður séð að unnt sé að bregðast við vanfjármögnun héraðsdómstóla og boðaðri aðhaldskröfu nema með því að fækka dómurum um tvo til þrjá og/eða leggja niður a.m.k. einn einmenningsdómstól. Það yrði ekki gert nema með breytingum á lögum.“ Þetta segir í umsögn sem dómstólasýslan hefur sent fjárlaganefnd vegna fjárheimilda til dómstóla, sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun áranna 2025-2029.

Að mati dómstólasýslunnar þarf að auka framlög til dómstólanna á gildistíma fjármálaáætlunarinnar. Talsvert vanti upp á að grunnfjárheimildir á fjárlögum vegna héraðsdómstóla standi undir rekstrarkostnaði. Bæta þurfi mönnun á skrifstofum dómstóla vegna mikils og viðvarandi álags og veikinda o.fl.

Í fjármálaáætluninni sé hins vegar gert ráð fyrir sértækum aðhaldsráðstöfunum hjá dómstólunum, upp á 40 milljónir kr. á árinu 2026, 50 millj. kr. á árinu 2027 og 60 millj. kr. á árinu 2028.

Dómstólasýslan bendir á að við mat á því hvort og hvernig unnt sé að bregðast við með lækkun útgjalda verði að skoða fjármögnun og rekstur málefnasviðsins. Ráða megi af rekstraráætlun héraðsdómstóla fyrir árið 2024 að framlög til héraðsdómstóla á fjárlögum yfirstandandi árs séu um 90 millj. kr. undir grunnrekstrarþörfum þeirra.

„Þá sýna aðrar áætlanir á málefnasviðinu að lítið sem ekkert svigrúm er til lækkunar kostnaðar hjá Landsrétti, Hæstarétti og dómstólasýslunni. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að um 96% kostnaðar hjá dómstólum eru launagjöld og gjöld vegna húsnæðis. Fjöldi dómara og föst laun þeirra eru lögbundin. Öðru starfsfólki hjá dómstólum hefur ekki fjölgað síðustu áratugi og er það undir miklu álagi,“ segir í umsögninni.

Dómstólasýslan tekur einnig fram vegna aðhaldskröfunnar að þessu til viðbótar gæti þurft að hægja verulega á stafrænum breytingum hjá dómstólum „sem væri afar bagalegt með hliðsjón af þörf fyrir nútímalegra aðgengi að dómstólum og bættri þjónustu við borgara“, segir í umsögn dómstólasýslunnar, sem óskar jafnframt eftir fundi með fjárlaganefnd eins fljótt og kostur sé á.