Ísland ætti að vekja athygli á ástandinu í Súdan

Á meðan augu heimsins, í það minnsta Vesturlanda, eru á hörmungarástandinu í Úkraínu eftir innrás Rússlands og á Gasasvæðinu eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael, verða fáir varir við ekki minni hörmungar sem dynja á íbúum í Súdan. Þar hafa tveir stríðsherrar, annar í hlutverki leiðtoga landsins og hersins og hinn fyrrverandi næstráðandi og núverandi leiðtogi svokallaðra hraðsveita, barist af mikilli hörku í rúmt ár.

Eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins í fyrradag eru 25 milljónir, rúmur helmingur súdönsku þjóðarinnar, nú á vergangi vegna stríðsátakanna og einungis lítill hluti þessa fólks hefur fengið neyðaraðstoð þrátt fyrir að margir séu í brýnni þörf.

Hungursneyð vofir yfir Súdönum að því er fram kemur í sameiginlegri skýrslu 92 hjálparsamtaka sem starfa í tengslum við Sameinuðu þjóðirnar að mannúðarmálum.

Lýsingar íbúanna á grimmdinni sem þeir hafa orðið fyrir eru sláandi og miskunnarleysi hinna stríðandi fylkinga algert. Þungum vopnum er beitt, íbúðarhús brennd og almennir borgarar vísvitandi myrtir, allt í þeim tilgangi að þrengja að andstæðingunum og knýja fram sigur hvað sem það kostar.

Ástandið er um þessar mundir, eins og stundum fyrr, einna verst í Darfur-héraði þar sem um fjórðungur landsmanna býr. Sem stendur lítur út fyrir að lokabarátta standi um síðustu stóru borgina í héraðinu, en hraðsveitirnar hafa náð hinum á vald sitt.

Fátt bendir til að átökunum linni á næstunni og hætta á hungursneyð ofan á annað mannfall vegna stríðsátakanna er veruleg.

Ísland getur ekki breytt miklu um ástandið í Súdan, en það getur þó vakið máls á því á þeim alþjóðlega vettvangi þar sem Ísland hefur rödd. Hörmungarnar í Súdan mega ekki lengur falla algerlega í skuggann af öðrum stríðs­átökum.