— Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Íslenska ríkið á fjölda fasteigna og lóða í Reykjavík sem það hyggst koma í verð. Sumar lóðanna eru vel staðsettar og í þeim felast tækifæri til uppbyggingar.

Einn slíkur reitur er kominn í skipulagsferli. Hann kallast Borgartúnsreitur vestur, en þar standa húsin Borgartún 5 og 7 og Guðrúnartún 6. Þarna voru höfuðstöðvar Vegagerðarinnar til ársins 2021.

Mikil uppbygging hefur verið á þessu svæði á undanförnum árum, bæði á atvinnu- og íbúðarhúsnæði.

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) óskaði eftir samráði við Reykjavíkurborg um nýtt deiliskipulag fyrir Borgartúnsreitinn. Hann afmarkast af Borgartúni í suðri, Guðrúnartúni í norðri og Katrínartúni í austri.

Tilgangurinn er að skýra og móta byggingarheimildir á lóðunum fyrir blandaða byggð íbúða, þjónustu og atvinnu. Málinu var vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem samþykkti að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við skipulagslög. Ráðgert er að hún verði auglýst í júní nk. í skipulagsgátt.

Þróa verðmætan reit

Fram kemur í gögnum málsins að FSRE hafi fyrir hönd ríkissjóðs áhuga á að þróa deiliskipulag fyrir reitinn sem nýtir þau verðmætu tækifæri sem þar eru fyrir hendi. Reiknað er með að selja lóðirnar og byggingar sem á þeim standa.

Stefnt verði að því að allt að 250 íbúðir verði heimilar á lóðunum enda standist þær kröfur um birtuskilyrði og dvalarsvæði utanhúss í samræmi við íbúðargerðir. Við strandlengju í norðri eru heimiluð hærri hús, þ.e. 5-8 hæðir, á umræddum reit.

Reiturinn er að miklu leyti randbyggður með bakhúsum og stóru porti. Gildandi deiliskipulag, frá 2001, gerir ráð fyrir niðurrifi bakhúsa. Reiturinn er opinn fyrir hafgolu að norðan en sú hlið er að litlu leyti byggð.

Borgartún 7, sem er 7.480 fermetrar og byggt árið 1949, stendur á horni Borgartúns og Katrínartúns og er sterkt kennileiti í hverfinu. Sömuleiðis Kaaber-húsið sem stendur norðan til á reitnum en það er utan umfjöllunar þessarar deiliskipulagsbreytingar, segir í lýsingu FSRE.

Kaaber-húsið stendur við Guðrúnartún 8 og þar hefur auglýsingastofan Pipar/TBWA aðsetur. Húsið er byggt 1952-53 og þar var um árabil starfrækt Kaffibrennsla Ó. Johnson & Kaaber. Húsið Borgartún 5, þar sem höfuðstöðvar Vegagerðarinnar voru, er rúmlega 2.700 fermetrar og byggt árið 1948.

Uppbygging á svæðinu

Í gögnum FSRE kemur einnig fram að frá því gildandi deiliskipulag var staðfest hafi nær samfellt staðið yfir framkvæmdir á Höfðatorgsreit, næsta reit fyrir sunnan og göturými Borgartúns hafi verið endurnýjað. Nærliggjandi gatnamót við Snorrabraut hafa verið endurhönnuð og í gildi er samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið sem felur í sér miklar breytingar á fjárfestingum í almenningssamgöngum og hjólreiðainnviðum. Þá hafa verið gerðar breytingar á skipulagi næsta reits til suðausturs, Borgartúns 18-24, með tilkomu íbúðarhúss á lóð Borgartúns 24.

Helstu viðfangsefni nýs deiliskipulags eru að endurmóta byggingarreiti og heimilaðar hæðir bygginga, endurskoða áform um niðurrif og endurnýtingu bygginga, setja fram skilmála um byggingarmagn og íbúðafjölda og hlutfallslega skiptingu íbúðastærða.

Þá verði komið til móts við markmið Reykjavíkurborgar um húsnæði á viðráðanlegu verði, inngarðar afmarkaðir, aðkomuleiðir mótaðar, fjöldi hjóla- og bílastæða tilgreindur og kannað hvernig megi koma til móts við þörf fyrir innviði svo sem skóla og leikskóla.