Sigurður og Jóhannes Kjarval huga að pappírum á vinnustofu málarans.
Sigurður og Jóhannes Kjarval huga að pappírum á vinnustofu málarans. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég aðstoðaði Sigurð Ben. í nokkur ár við bókauppboðin sem þessi mikli listmunauppboðshaldari stóð að.

Bragi Kristjónsson

Hver var Sigurður Benediktsson uppboðshaldari?

Ungur hlaut Sigurður mikla opinbera viðurkenningu, þegar hann bjargaði bróður sínum ungum úr lífsháska. Fyrir það fékk hann tækifæri til að fara til útlanda og mennta sig. Hann hélt til Kaupmannahafnar og gerðist lærlingur á danska dagblaðinu Politiken. Þar var hann í rúmt ár en hélt síðan til Íslands og hóf að gefa út blöð.

Fyrst tímaritið var Vikan, sem hann stofnaði ásamt Ragnari heitnum í Smára bókaútgefanda og fleirum. Síðar mörg önnur tímarit, m.a. fyrir herliðið í stríðinu. Síðar gaf hann út Stundina, Hádegisblaðið og ýmis fleiri tímarit.

Ég aðstoðaði Sigurð Ben. í nokkur ár við bókauppboðin sem þessi mikli listmunauppboðshaldari stóð að. Þau voru haldin i Listamannaskálanum við Kirkjustræti, litla salnum í Þjóðleikhúskjallaranum og í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll.

Sigurður Ben. var ekki allra. Ritsmíðar hans í Morgunblaðinu og í hinum ýmsu tímaritum voru oddhvöss ádeila á alls konar þjóðfélagslegt óréttlæti. Kjarval var einkavinur Sigurðar, en Kjarval mat hann umfram aðra menn.

Sigurður Ben. situr ekki lengur til borðs á Borginni með Kjarval og öðrum mektarborgurum. En andi hans og réttlætiskennd lifir í þeim sem hittu hann og dáðu.

Höfundur var bókakaupmaður í Reykjavík í 40 ár.

Höf.: Bragi Kristjónsson