Sálfræðitími María segist verða berskjölduð þegar hún mætir í hljóðverið.
Sálfræðitími María segist verða berskjölduð þegar hún mætir í hljóðverið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Maiaa – The Problem Is You Söngkonan Maiaa, eða María Agnesardóttir, gaf nýverið út lagið The Problem Is You og segir það eitt rólegasta lag sem hún hefur samið. „Þetta er mjög persónulegt, einlægt og snýr að meðvirkni í samböndum

Maiaa – The Problem Is You

Söngkonan Maiaa, eða María Agnesardóttir, gaf nýverið út lagið The Problem Is You og segir það eitt rólegasta lag sem hún hefur samið.

„Þetta er mjög persónulegt, einlægt og snýr að meðvirkni í samböndum. Melódían í laginu var fljót að koma en textinn var erfiðari og tók lengri tíma. Að vera í hljóðveri er eins og að vera hjá sálfræðingi, þar sem maður opnar sig og verður berskjaldaðri. Margir ættu að geta tengt við lagið, þeir sem byrjuðu kannski ungir í sambandi og voru ekki endilega með þroskann til þess. En lagið er hins vegar aðeins ein hlið á mikilli meðvirkni í sambandi,“ segir hún í kynningunni á laginu.

Ari Árelíus – Glory Box

Tónlistarmaðurinn Ari Árelíus sendi nýverið frá sér ábreiðu af laginu Glory Box eftir bresku hljómsveitina Portishead. Ábreiðan færir lagið inn í slípaða blöndu af djassi og þjóðlaga- og sálartónlist.

Útgáfa lagsins markar upphaf nýrrar vegferðar Ara Árelíusar inn í heim súrrealískrar þjóðlagatónlistar sem mun ljúka með nýrri breiðskífu sem kemur út í nóvember á þessu ári. Platan mun heita Frank Poison and the Manufactured Feelings.

Lovisa – Einskonar ást

Söngkonan Edda Lovísa Björgvinsdóttir kynnti nýja lagið sitt Einskonar ást. Lagið er endurgerð af samnefndu lagi með Brunaliðinu sem má finna á plötunni Úr öskunni í eldinn. Útgáfu Eddu Lovísu má einnig finna í samnefndri kvikmynd sem hún fer með hlutverk í.

„Það var gaman að fá að vera partur af þessu lagi. Ógeðslega gaman, ógeðslega skemmtilegt verkefni og mér finnst þetta lag geggjað þó ég segi sjálf frá,“ segir Edda Lovísa.

Birkir Blær – Leaders

Tónlistarmaðurinn Birkir Blær Óðinsson segir nýja lagið sitt, Leaders, kraftmikið. Hann samdi það sjálfur og útsetti ásamt bróður sínum.

„Lagið fjallar um að leiðtogar heimsins séu ekki að taka á umhverfismálum og að græðgi virðist vera í meiri forgangi en að gera heiminn betri. Eins og ég segi í
viðlaginu: Þið kallið ykkur leiðtoga en ljúgið svo að okkur. Hvert eruð þið að leiða okkur og hvar munið þið skilja okkur eftir?“ segir
Birkir.

Gríma – Burt

Söngkonan Theodóra Gríma Þrastardóttir, eða Gríma, hefur verið að syngja frá því hún man eftir sér. Hún kynnti nýja lagið sitt, Burt, í þættinum.

„Ég hef gefið út tvö frumsamin lög. Upp á nýtt og Rock My World og núna er ég að gefa út mitt þriðja, Burt. Lagið er í popp- eurodansstíl og fjallar um sambandsslit sem geta stundum verið erfið.“