Birna Valgerður Benónýsdóttir, miðherji Keflavíkur og landsliðskona í körfuknattleik, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik gegn Stjörnunni á dögunum og tekur því engan þátt í úrslitaeinvígi liðsins gegn Njarðvík

Birna Valgerður Benónýsdóttir, miðherji Keflavíkur og landsliðskona í körfuknattleik, varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í leik gegn Stjörnunni á dögunum og tekur því engan þátt í úrslitaeinvígi liðsins gegn Njarðvík. Karfan greindi frá að ómskoðun hefði leitt í ljós slitið krossband og rifu á liðþófa. Slík meiðsli þýða venjulega sex til níu mánaða fjarveru.

Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði sitt annað mark í áttunda leik sínum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðið lagði Stabæk að velli, 3:2, í gær. Lilleström er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig. Stigin væru 15 en norska knattspyrnusambandið ákvað fyrr í vikunni að draga eitt stig af liðinu vegna fjárhagsvandræða félagsins. Stjórnendur Lilleström hafa tvær vikur til þess að áfrýja dómnum.

Hollendingurinn Pep Lijnders var í gær ráðinn þjálfari austurríska knattspyrnuliðsins Salzburg til þriggja ára. Hann hefur starfað hjá Liverpool á Englandi frá 2014, að undanskildum fimm mánuðum árið 2018, og var fyrst aðstoðarmaður Brendans Rodgers og síðan Jürgens Klopps.