Lára V. Júlíusdóttir
Lára V. Júlíusdóttir
Forseti þarf að vera alþýðlegur í framkomu, tala fallegt mál og ná til fólksins og að geta verið fulltrúi lands og þjóðar á erlendum vettvangi.

Lára V. Júlíusdóttir

Forsetakosningar nálgast, einu almennu kosningarnar þar sem þjóðinni gefst kostur á að velja tiltekinn einstakling í embætti, æðsta embætti þjóðarinnar. Embættið sjálft er þó ekki valdaembætti, heldur eru skyldur forseta bæði gagnvart þjóð og þingi fremur táknrænar. Íslensk þjóð hefur átt sína sex forseta sem hver með sínum hætti hefur lagt sínar áherslur, sett svip á embættið og mótað það. Áherslurnar eru þó ævinlega allar í þágu þjóðarinnar. Sem betur fer hafa að þessu sinni margir frambærilegir fulltrúar gefið kost á sér, konur og karlar. Því þarf að vega og meta og vanda valið. Forseti þarf meðal annars að vera alþýðlegur í framkomu, tala fallegt mál og ná til fólksins. Hann verður líka að geta verið fulltrúi lands og þjóðar á erlendum vettvangi.

Skyldur hans eru þó ekki allar gagnvart þjóðinni heldur einnig þinginu. Hann verður að vera í góðu sambandi við ráðandi öfl hverju sinni og þekkja innviði stjórnkerfisins. Í embætti forseta Íslands þarf að veljast Íslendingur sem er reiðubúinn að taka hlutverkið að sér og sinna því allan sólarhringinn alla daga ársins þann tíma sem hann gegnir embættinu. Hvar sem hann kemur, hvert sem hann fer, er hann bundinn embættinu.

Með allt þetta í huga fagna ég því að Katrín Jakobsdóttir skuli gefa kost á sér í embætti forseta. Allt frá því að Katrín var ung stúlka hefur hún skarað fram úr í hverju því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, bæði í námi og starfi. Félagsmálum hefur hún einnig sinnt af miklum dugnaði. Þess vegna hafa henni verið falin trúnaðar- og forystustörf allt frá unga aldri. Þótt ég hafi líklega aldrei sjálf kosið sama stjórnmálaflokk og Katrín tel ég hana ótvírætt best fallna af hópi frambjóðenda til að gegna þessu embætti. Hún býr yfir yfirburðaþekkingu á innviðum stjórnsýslunnar, hún vandar vel til allra verka, kynnir sér í þaula þau mál og þau ólíku sjónarmið sem upp koma og er mannasættir. Hún hefur sýnt endurskoðun stjórnarskrárinnar mikinn áhuga og leitast við að leysa þær deilur sem þar hafa skapast og lagt fram frumvarp á Alþingi í þá veru. Auk þess hefur hún staðið sig afburðavel sem fulltrúi þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi og eignast þar vini meðal þjóðhöfðingja álfunnar. Með allt þetta í huga ætla ég að vanda valið og mun því kjósa Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta Íslands.

Höfundur er lögmaður.