Bréfaskipti Í bókinni má finna samtöl á milli Bjarna og móður hans um nýjan veruleika.
Bréfaskipti Í bókinni má finna samtöl á milli Bjarna og móður hans um nýjan veruleika.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókin Mennska eftir leikarann Bjarna Snæbjörnsson er komin út. Hún er byggð á leiksýningunni Góðan daginn faggi sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu en Bjarni fór einnig með víðs vegar um landið og meira að segja alla leið til Edinborgar

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Bókin Mennska eftir leikarann Bjarna Snæbjörnsson er komin út. Hún er byggð á leiksýningunni Góðan daginn faggi sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu en Bjarni fór einnig með víðs vegar um landið og meira að segja alla leið til Edinborgar. Þar segir Bjarni, með aðstoð dagbóka sinna og bréfaskipta við vini og ættingja, frá leiðinni út úr skápnum.

Leiksýningin hlaut góðar viðtökur hér á landi og reyndi hópurinn í kjölfarið svo fyrir sér á Fringe-hátíðinni í Edinborg.

„Það var hellað, algjörlega galið, við sýndum þar í stóru leikhúsi. Okkur gekk mjög vel, sýndum alltaf og fengum góða dóma. En það komu mjög fáir og ég varð ógeðslega veikur og við töpuðum miklum peningum á þessu. Maður heyrir svo mikið af fallegum sögum af sýningum sem ganga vel en svo eru aðrar sem koma og fara og ná ekki í gegn. Það er líka bara allt í lagi. Þetta var rosalegur lærdómur,“ segir hann og bætir við að ef hann færi aftur út með sýningu gerði hann það ekki á eigin vegum.

Ætti þetta að vera bók?

Daginn eftir frumsýningu leiksýningarinnar hér á landi fékk Bjarni skilaboð frá ritstjóra á Forlaginu. „Hæ, ætti þetta efni kannski að vera bók?“ Bjarni játti því strax og minnist þess þegar hann skrifaði það í dagbókina sína sem ungur strákur. „Þetta efni er byggt á dagbókinni minni og þegar ég er 21 árs þá skrifa ég ógeðslega mikið. Þá var ég að reyna að átta mig á sjálfum mér og skildi ekki af hverju mér fannst þetta allt svona erfitt og svona. Þar velti ég fyrir mér af hverju ég sé alltaf að skrifa í dagbók og að ég voni að einn daginn verði þetta bók,“ segir hann og hlær.

Hann segir skrýtna tilfinningu að gefa út bók, taugakerfið sé þanið og hann sofi lítið. Alls konar tilfinningar komi fram eins og kvíði, þakklæti, spenningur, hræðsla og berskjöldun. Þakklætið er honum þó efst í huga. „Ég er meyr og það er stutt í kjarnann. En svo er alltaf húmor, við verðum að muna það.“

Ekki ein einasta fyrirmynd

„Ég fer alltaf í stóra samhengið. Ég er svo þakklátur að búa í landi þar sem ég get skrifað hinsegin söguna mína og hún er ekki brennd á báli. Hún er ekki bönnuð í skólakerfinu eða af stjórnmálafólki sem stendur í heimreiðinni hjá sér og brennir hana í ruslatunnunni með eldvörpunni sinni. Það er í alvöru að gerast í Ameríku,“ segir Bjarni.

„Svo ég er í dag fullur þakklætis. Það er svo mikilvægt að við áttum okkur á því að vissulega hafi verið alls konar skrýtið í gangi, spurningar um hvað sé venjulegt og hvað sé venjuleg fjölskylda, en í fyrsta lagi, hvað er venjulegt? Ef við ætlum að fara að skilgreina einhver ríkisvenjulegheit, þá erum við á vondum stað. Það að fá að taka pláss og leyfa okkur að vera alls konar er besta leiðin til að búa til fallegt samfélag.“

Bjarni viðurkennir að uppvaxtarárin hans hefðu verið mun auðveldari ef hann hefði getað lesið bók sem þessa sem lítill strákur. „Eins og ég tek fram í sýningunni og í bókinni þá var mitt stærsta „tráma“ að alast upp á Vestfjörðum á níunda áratugnum með engar fyrirmyndir. Ekki eina einustu. Vitandi ekki hvað það var annað en eitthvað ógeðslegt, það sem ég var. Það er sári sannleikurinn. Þess vegna verðum við að halda áfram að segja sögur og mæta. Ég trúi því innilega að við séum sem þjóð svo góð.“

Hann segir Íslendinga fulla af náungakærleik og þó að sumir ruglist þá sé það allt í lagi. „En samtalið er mikilvægast og við verðum að muna að ég held að 95% af fólki séu með fjölbreytileikanum í liði.“

Þó að bókin sé byggð á sýningunni þá segir Bjarni bókina mun ýtarlegri og öðruvísi, enda annað listform. Í einum kafla bókarinnar birtir hann bréf á milli sín og móður sinnar á þeim tíma sem hann var að koma út úr skápnum. „Ég legg alla tölvupóstana til grundvallar og þau eru öll þarna. Það er svo skýrt hvernig við erum að reyna að eiga við skömmina sem við skiljum ekki og vitum ekki hvernig við eigum að fara í gegnum saman. En þetta er allt þarna, allt í bókinni.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Bjarna í heild sinni á K100.is.