Alda Benediktsdóttir fæddist 16. apríl 1942. Hún lést 26. apríl 2024.

Útförin fór fram 8. maí 2024.

Tengdamamma mín Alda Ben var einstök manneskja, ákaflega skemmtileg og glæsileg kona. Er mér minnisstætt þegar ég hitti Öldu í fyrsta sinn á heimili hennar og hún er í símanum eins og venjulega. Hún heilsar mér og spyr mig hvort ég geti ekki ryksugað fyrir hana heimilið þar sem hún væri svo slæm í öxlunum. Ég er nú frekar greiðvikinn maður og fannst það nú sjálfsagt mál. Notaði hún þetta á mig nokkrum sinnum aftur og var hún bara að athuga hvað hún kæmist langt með mig. Mér er minnisstætt að þegar hún fór út á lífið kom ég oft til að skutla henni og vinkonum hennar. Þurfti iðulega að bíða allavega í 20 mínútur úti í bíl og endaði síðan á að koma inn og reka á eftir þeim. Þá vildi hún sýna vinkonum sínum hvað tengdasonur hennar væri nú fallegur.

Alda doblaði mig í hestmennskuna í 10 ár þar sem hana vantaði einhvern til að sjá um sína hesta, með því að gefa mér hest sem kallaður var brúni klárinn. Þetta var mjög viljugur rokuhestur sem erfitt var að sitja, sérstaklega þegar heim á leið var haldið. Ég var samt mjög ánægður með þennan klár og hélt að hestar ættu að vera svona.

Alda passaði börnin okkar Pálu og hugsaði vel um þau og erum við henni ákaflega þakklát fyrir. Var þetta mikil hjálp fyrir okkur þar sem við vorum ung þegar við eignuðumst okkar fyrsta barn og enn í námi. Alda Ben var dugnaðarforkur og vann sem dagmóðir ásamt því að ala upp sín eigin börn.

Elsku Alda Ben! Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur Pálu og hafðu það sem allra best í draumalandinu.

Með kveðju,

uppáhaldstengdasonurinn þinn,

Kristján G.
Kristjánsson.