Helgi Þorláksson
Helgi Þorláksson
Sem forseti mun hún njóta sín í starfi, orðfim, glaðvær og glögg, og ná til fólks almennt og er líkleg til að sameina þjóðina í blíðu og stríðu.

Helgi Þorláksson

Katrín Jakobsdóttir hefur ófáa kosti til að bera sem prýða forseta. Ég kynntist henni sem kennari þegar hún var nemandi við háskóla, glögg og glaðvær og skaraði fram úr. Næst kynntist ég störfum hennar lítillega þegar hún var menntamálaráðherra, glögg og glaðvær sem fyrr og fann lausnir, greinilega fundvís á pólitískar útgönguleiðir. Hún naut sín í starfi. Sem forsætisráðherra fékk hún orð á sig fyrir að fá fólk með ólíkar stjórnmálaskoðanir til samstarfs og ávann sér traust innan flokks og utan. Hún er orðfim og áheyrileg en þessir hæfileikar hennar hafa notið sín ítrekað í ávörpum og stuttum ræðum sem ég hef heyrt hana flytja, iðulega á sviðum sem standa mér nærri, sögu Íslands, tungu og menningar. Oftar en ekki hefur hún í önnum sem ráðherra fundið tíma til að kynna sér málin og talað þá af meiri þekkingu en búast hefði mátt við og það sem hún flutti alltaf verið vel samið og vandað. Hún býður sig fram til forseta og störf á þeim vettvangi krefjast hæfileika að þessu leyti. Sem forseti mun hún njóta sín í starfi, orðfim, glaðvær og glögg, og ná til fólks almennt og er líkleg til að sameina þjóðina í blíðu og stríðu. Tímabært er orðið að kona með mikla stjórnmálareynslu verði forseti landsins. Ég styð Katrínu Jakobsdóttur til að gegna embætti forseta Íslands.

Höfundur er fv. prófessor í sagnfræði.

Höf.: Helgi Þorláksson