Guðmundur Jóhannsson fæddist í Reykjavík 7. júlí 1929. Hann lést á Droplaugarstöðum 4. maí síðastliðinn.

Foreldrar Guðmundar voru Jóhann Garðar Jóhannsson, bryggjusmiður frá Öxney í Breiðafirði, f. 15.11. 1897, d. 21.2. 1965, og Friðrika Eggertsdóttir úr Fremri-Langey í Breiðafirði, f. 5.10. 1894, d. 28.2. 1988. Systkini Guðmundar eru Sjöfn, f. 1919, d. 2009, Erna, f. 1920, d. 2008, Unnur, f. 1922, d. 1923, Hörður, f. 1923, d. 1975, Þorgeir, f. 1927, d. 1937, Hrefna, f. 1930, d. 2003, Unnur, f. 1932, Bergrún, f. 1933, og Gerður, f. 1936.

Guðmundur kvæntist þann 6.11. 1955 Eddu Bergljótu Jónasdóttur, f. 25.12. 1933, d. 17.8. 2018. Börn þeirra eru: Jónas, f. 1956, kvæntur Cristinu Guðmundsson og Björg, f. 1966, gift Kristbirni Orra Guðmundssyni. Barnabörn Guðmundar eru 7 og barnabarnabörn 2.

Útför Guðmundar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 16. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Pabbi minn ólst upp á Ásvallagötu 59, í verkó, eitt tíu systkina. Hann bar æskuheimilinu alltaf vel söguna, þar leið honum vel. Tólf manns og alltaf var pláss fyrir gesti. Pabbi gekk menntaveginn, fór í vélskólann og var til sjós í 18 ár, fyrst á Gullfossi þar sem hann kynntist mömmu þegar hún var í stúdentsferð. Foreldrar mínir giftust árið 1955 og þau áttu 63 ár saman, en mamma lést árið 2018.

Það var mikil heppni að eiga þau hjónin Guðmund Jóhannsson og Eddu Bergljótu Jónasdóttur sem foreldra. Þau voru alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og ég með. Sem barn og unglingur ferðaðist ég með þeim út um allar koppagrundir. Það er varla til sá vegarslóði á landinu sem við höfum ekki keyrt, á einhverjum af mörgum jeppum pabba. Á veturna var fjölskyldan á skíðum, hér á landi eða í Austurríki. Best fannst foreldrum mínum þó að vera á Glammastöðum í Svínadal þar sem þau byggðu sumarbústað 1957 og svo aftur 1988 eftir að gamla húsið brann. Þar plöntuðu þau trjám og skilja eftir sig fallegt ræktað land.

Þegar pabbi hætti á sjónum fór hann fyrst að vinna hjá Vífilfelli og síðar Sanitas, þar sem hann var yfir gosdrykkjavéladeildinni fyrir veitingastaði landsins. Það átti vel við pabba, hann átti svo auðvelt með að eiga samskipti við fólk. Hann var góður og greiðvikinn, hlýr, skemmtilegur, fyndinn og ákaflega orðheppinn. Maður er manns gaman nema að leiðinlegur sé, sagði pabbi eitt sinn og sló þar naglann á höfuðið. Ég erfði andlitsblindu frá pabba. Ég er alltaf að afsaka mig í einhverjum vandræðagangi en pabbi átti löng og áhugaverð samtöl við fólk sem hann hafði ekki hugmynd um hvert var, jafnvel um fólk sem hann vissi enn síður deili á. Pabba fannst fátt skemmtilegra en að tefla við góða skákmenn en fannst ekki gaman að tefla við styttra komna og gaf þá yfirleitt skákina fljótlega til að vera kurteis.

Eftir að við fluttum til USA fyrir tveimur áratugum höfðu foreldrar mínir hjá okkur vetrarsetu og eftir að mamma dó bjó pabbi hjá okkur á meðan heilsa leyfði. Við hjónin og dóttir okkar, Regína, unnum mikið heima í faraldrinum og við áttum mjög góðan tíma með pabba. Pabbi hafði iðkað jógaöndun og íhugun í marga áratugi og þarna gafst okkur loksins tími til að nema af meistaranum. Hann var líka svo ótrúlega duglegur, hann pabbi minn. Á tíræðisaldri fór hann á hverjum degi út að vinna í garðinum, sem hann gerði glæsilegan. Pabbi vingaðist við nágranna okkar, bæði menn og dýr, og átti sína vini meðal fugla og íkorna sem borðuðu úr höndum hans. Pabbi hafði líka alltaf gaman af tónlist, fór síðast á tónleika í Hörpunni í mars sl. Í USA fórum við m.a. á tónleika Of Monsters and Men þegar pabbi var níræður auk margra klassískra tónleika.

Þegar pabbi flutti á Droplaugarstaði í ársbyrjun 2022 fékk hann myndsamskiptatæki og við gátum því sést daglega. Dætur okkar voru líka ótrúlega duglegar að heimsækja afa sinn enda góðir vinir hans. Ég kom oft til landsins en það var samt erfitt að búa svona langt í burtu.

Nýlega tilkynnti pabbi mér að hann ætlaði að deyja fljótlega en þangað til ætlaði hann að hafa það svakalega gott. Hann stóð við það, hann pabbi minn, og í okkar síðasta samtali fyrir svefninn langa bauð hann mér góða nótt. Sofðu vært og rótt, elsku pabbi minn, og hafðu þökk fyrir allt og allt. Ég elska þig.

Björg.

„Í bænum var ein gata og var það aðalgata bæjarins.“ Þetta er einn af óteljandi gullmolum sem ultu upp úr Guðmundi tengdaföður mínum og lýsir vel hinum einstaka húmor sem þessi yndislegi maður var gæddur. Það var vandfundinn fyndnari, ljúfari og hjálpsamari maður en Guðmundur var. Ég kynntist þeim hjónum Guðmundi og Eddu fyrir rúmum 30 árum þegar ég og Björg dóttir hans fórum að slá okkur upp og þau tóku mér einstaklega vel frá fyrstu kynnum og okkur varð fljótt vel til vina.

Í lok árs 2005 fluttumst við fjölskyldan til Bandaríkjanna til náms og starfa. Þegar bæði Edda og Guðmundur voru komin á eftirlaun eyddu þau vetrarmánuðunum með okkur og veittu okkur ómetanlega hjálp við að sinna dýrum og dætrum, sérstaklega þeirri yngstu. Við Guðmundur áttum okkar góðu stundir saman við að dytta að ýmsum hlutum og skemmtum okkur vel í bílaviðgerðum. T.d. áttum við einu sinni Saab 9-5 sem bilaði illa og þurftum við að taka vélina í sundur. Það reyndist áskorun að koma henni saman aftur og þá var gott að hafa vélfræðinginn sér við hlið. Í hverri viku spilaði ég í innifótboltadeild í liði með kollegum af vinnustaðnum og kom Guðmundur alltaf með mér og sat á áhorfendapöllunum og hvatti mig áfram. Liðsfélagar mínir voru ansi öfundsjúkir yfir stuðningnum og fannst frábært að hafa hann á leikjum. Síðan var það ófrávíkjanleg regla hjá okkur tengdapabba að fá okkur sjeik eftir hvern leik og sitja í bílnum til að kryfja frammistöðuna og spjalla um heima og geima, ekki síst lífvísindi því Guðmundur hafði mikinn áhuga á því sem við Björg vorum að fást við.

Eftir að Edda tengdamóðir mín lést sumarið 2018 dvaldist Guðmundur hjá okkur í Bandaríkjunum og var þar þegar covid-faraldurinn braust út. Honum leiddist svo sannarlega ekki og eyddi miklum tíma, dag hvern, í að sinna garðverkum og svo hjálpuðumst við að við að smíða pall í bakgarðinum sem var okkar stóra covid-verkefni. Í garðinum átti hann marga vini, fugla af ýmsum stærðum og gerðum og íkorna sem allir komu til Guðmundar að fá eitthvað gott í gogginn. Hann náði einhvern veginn að fá öll þessi dýr til að treysta sér og mörg þáðu mat út höndum hans.

Oft sátum við saman og horfðum á fótbolta, oftast landsleiki eða enska boltann. Í þeim enska fylgdumst við með liðunum þar sem Íslenskir leikmenn voru að spila því Guðmundi fannst skemmtilegt að fylgjast með gengi þeirra. Uppáhaldsleikmaðurinn hans var hins vegar Zlatan Ibrahimovic og reyndum við að ná leikjum hans hjá LA Galaxy eða AC Milan ef við gátum. Við vorum með plön um að ferðast og sjá Zlatan spila en covid kom í veg fyrir það.

Við tefldum líka oft og var það frekar sársaukafullt því Guðmundur var firnasterkur skákmaður. Ég grínaðist gjarnan með að vilja helst ekki tefla við hann nema hann væri illa fyrirkallaður eða hálfsofandi. Guðmundur hélt skákgetunni fram á síðasta dag og lokaleikurinn okkar, sem hann vann að sjálfsögðu, var tefldur í mars sl.

Ég kveð Guðmund tengdaföður minn og vin með miklum söknuði og þakka þann tíma sem við áttum saman.

Kristbjörn Orri
Guðmundsson.

Hann elsku afi er fallinn frá.

Við afi vorum alltaf mjög góðir vinir.

Ég var þeirra forréttinda aðnjótandi að alast upp í sama húsi og afi og amma. Þau bjuggu í íbúðinni fyrir ofan okkar og ég eyddi miklum tíma þar.

Afi sá um það að keyra mig og sækja mig í skólann meðan ég var í Ísaksskóla. Stundum mættu bæði afi og kötturinn okkar, Elliði, að sækja mig (eða seinna okkur Karen systur mína). Þá vildi afi gjarnan meina að köttinn hefði langað mikið að koma með og ekki hefði afi geta neitað honum um það. Þeir félagar voru ekkert að vesenast með ferðabúr eða neitt svoleiðis, hann spígsporaði bara pollrólegur í aftursætinu og það var ekkert sérstaklega erfitt að trúa að kötturinn hefði beðið hann um að fá að fara með í bíltúr.

Afi sá svo meira og minna um dagvistun okkar systra. Ég hef ekki tölu á öllum þeim danssýningum og leikritum sem við systur settum á svið í stofunni á efri hæðinni og skikkuðum afa til að horfa á.

Það er er eiginlega ekki hægt að hugsa um tímann með afa án þess að hugurinn leiti upp í sumarbústað. Afi og amma eyddu alltaf eins miklum tíma og þau gátu uppi í sumó. Afi var alltaf að smíða og laga. Pallurinn var meistaraverk sem afi var alltaf að finna leiðir til að viðhalda og bæta. Þegar við fórum með afa upp eftir í fyrra, þegar afi átti orðið ansi erfitt með gang, vorum við nánast í fullri vinnu við að halda afa frá því að demba sér í vinnu við pallinn. Þegar við vorum yngri smíðaði afi líka fyrir okkur sandkassa og setti upp leikkofa fyrir okkur bæði úr við og þegar þannig viðraði, úr snjó.

Við fjölskyldan fluttum út til Bandaríkjanna þegar ég var unglingur. Afi og amma komu alltaf og voru hjá okkur góðan hluta úr ári. Þegar amma dó skyndilega sumarið 2018 fór afi að vera meira úti en í lok þess árs flutti ég aftur heim til Íslands. Í covid festist afi svo úti í (vellystingum hjá mömmu og co.). Eftir að hann kom aftur áttum við afi í alveg einstaklega góðu sambandi. Ég var mjög tíður gestur hjá afa eftir að hann flutti inn á Droplaugarstaði. Afi reyndi að nýta þennan tíma í að kenna mér að tefla áður en við gáfumst bæði upp á athyglisbrestinum í mér (ég löngu á undan afa). Ég gat alltaf séð ef hann var eitthvað illa stemmdur eða illa sofinn á því hvernig hann tefldi. Það var þá sem afi algjörlega rústaði mér. Gleymdi þá aðeins að hann var að reyna að gera mig að betri skákmanneskju og tefldi bara eins og hann var vanur. Við fórum stundum saman á tónleika enda afi mikill tónlistarunnandi og fórum saman út að borða. Þá mátti ég passa mig að vanda valið þegar ég pantaði, því afi vildi helst alltaf panta það „það sama og þú“ en var svo ekkert sáttur ef ég valdi mér eitthvað sem honum fannst ekki nógu spennandi.

Þess á milli töluðum við um allt og ekkert, brostum og hlógum mikið því hann afi var svo skemmtilegur.

Vinar míns, hann afa, er sárt saknað.

Edda Lind Styrmisdóttir.

Elsku afi hefur lagst til hins langa svefns og það er svo sárt að missa þessa góðu, kláru, skemmtilegu og fyndnu sál sem ég hef verið svo heppin að fá að alast upp með. Afi hugsaði mikið um okkur systur í æsku þar sem hann bjó fyrir ofan okkur þangað til við fluttum til Bandaríkjanna árið 2005. Æska mín er full af minningum um allar góðu samverustundir okkar systra með afa á efri hæðinni. Hann var rosalega þolinmóður við okkur og horfði á margar dans- og leiksýningar sem við systur og vinkonur okkar settum upp og þegar hann var búinn að sjá nóg þá stóð hann upp í miðri sýningu og klappaði með miklum fagnaðarlátum enda var hann líka rosalega mikill húmoristi.

Þegar við fluttum til Bandaríkjanna komu hann og amma eiginlega bara með og voru með okkur úti í nokkra mánuði á hverju ári. Þau voru oftast heima á sumrin og komu til okkar yfir veturinn. Ég átti það til að koma heim yfir sumarið líka og vera í vinnu á Íslandi og þá var svo gott að geta verið mikið hjá afa og ömmu. Þau eyddu sumrinu í sumarbústað í Svínadal og þá fór ég oft þangað um helgar og eyddi tíma með þeim, sem var mér mjög dýrmætur. Afi var alltaf til í að skjótast í bæinn að sækja mig um leið og ég sýndi áhuga á að koma til þeirra.

Afi var líka ótrúlega duglegur og var mikið að snúast í því að byggja upp bústaðinn og pallinn og hann var mjög handlaginn og alltaf til í að hjálpa. Hann hjálpaði mér að gera upp bílskúr svo að ég hefði aðstöðu til að mála á Íslandi og mér fannst ótrúlega skemmtilegt að fá að vera með í svona verkefni með honum. Hann var alltaf til staðar fyrir mig og hjálpaði mér með hvað sem ég tók mér fyrir hendur. Hann mætti á allar listasýningarnar mínar sem hann mögulega gat, sendi mér góða strauma í hverju einasta atvinnuviðtal sem ég fékk eða við önnur tækifæri sem mér buðust og gaf alltaf af sér endalaust af jákvæðni, góðri orku og húmor.

Síðustu ár dvaldi hann á Íslandi og þá hringdi ég í hann eins oft og ég gat. Í hvert sinn sem ég hringdi spurði hann hvort hann gæti gert eitthvað fyrir mig sem ég svaraði neitandi og svo þegar ég spurði hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert fyrir hann þá svaraði hann „vertu bara eins og þú ert, það er nóg“. Hvíldu í friði, elsku afi, þín er sárt saknað.

Karen Ösp Pálsdóttir.

Við fráfall Guðmundar 4. maí sl. eru heiðurshjónin á Freyjugötu 49, þau Edda Bergljót og Guðmundur, bæði fallin frá. Í tæp 40 ár hef ég verið svo lánsöm að þekkja þau hjónin og hafa þau verið hluti af lífi mínu allt frá því að vinskapur okkar Bjargar dóttur þeirra hófst.

Frá fyrstu tíð var mér tekið opnum örmum af fjölskyldunni á Freyjugötu, og þó þar færi Edda fremst í flokki í skipulagningu og samræðum þá var Guðmundur aldrei langt undan. Hann sagði oft og tíðum ekki margt en það var greinilegt að hann hlustaði því ósjaldan kom hann með skemmtileg innlegg í umræðuna og var staðinn upp að erindast áður en óskað var eftir aðstoðinni. Hann var ætíð til taks til að sinna því sem kvenskörungarnir í húsinu þurftu með í hvers kyns skipulagningu, bæði stóru og smáu. Aðstoðar hans fengu allir að njóta, börn, barnabörn, vinir þeirra, nágrannar eða aðrir ættingjar, enda kallaður Guðmundur góði af mörgum okkar.

Guðmundur var með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst. Ég verð þó að viðurkenna að hér áður fyrr náði ég ekki húmor hans alltaf í fyrstu. Ég var kannski komin hálfa leið heim af Freyjugötunni þegar ég allt í einu skellti upp úr við að fatta loks skondinn brandara frá Guðmundi. Þetta lærðist þó smátt og smátt enda ekki óalgengt að heimsóknir mínar á Freyjugötuna byrjuðu á spjalli við Guðmund sem sat í jeppanum sínum að njóta vindils. Eftir að Björg og fjölskylda fluttu til Bandaríkjanna fjölgaði samverustundum mínum með þeim hjónum einum. Einnig voru tengsl á milli foreldra minna og Eddu og Guðmundar, tengingar sem urðu til löngu áður en vinskapur okkar Bjargar hófst, hittingar, máltíðir í sumarbústöðum þeirra beggja, hjá mér og á veitingahúsum.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt Guðmund kvarta. Hann leitaðist ætíð við að sjá það jákvæða í hverjum aðstæðum og hið góða í fólki. Þessi jákvæðni smitaði út frá sér og mátti merkja að hann var í pínu uppáhaldi hjá starfsfólki og íbúum Droplaugarstaða. Ætíð þakklátur fyrir það sem fyrir hann var gert og taldi sig lánsaman í lífinu. Samband þeirra feðgina var einstaklega náið. Það hefur verið gaman að fylgjast með uppátækjum þeirra í gegnum tíðina, að ógleymdri aðkomu tengdasonarins Orra, en þeir Guðmundur reyndust gott teymi í hinum ýmsum viðhaldsverkefnum. Fjölskyldan öll bjó saman á Freyjugötu þar til Björg og Orri ásamt dætrum fluttu til Bandaríkjanna, náin samvera hélt áfram því að í kjölfarið dvöldu Guðmundur og Edda mánuðum saman hjá þeim hvert ár og Guðmundur nær samfellt síðustu ár þar til hann flutti á hjúkrunarheimili sökum heilsubrests. Leið ekki sá dagur að Björg hefði ekki samband og gætti að líðan pabba síns á milli þess sem hún ferðaðist reglulega til Íslands til að líta á hann.

Í síðustu heimsókn minni til hans merkti ég að hann var þreyttur en sáttur við lífshlaup sitt, tilbúinn að flytja í sumarlandið til Eddu sinnar. Ég þakka þeim góð kynni og mun ávallt minnast þeirra með hlýju.

Elsku Björgu, Orra, Eddu Lind, Karen, Regínu og öðrum ættingjum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minning Guðmundar vera jákvætt ljós í lífi ykkar alla tíð.

Anna Bryndís.