Drög Rífa á skrifstofuhúsið en byggja við prentsmiðjuna vinstra megin.
Drög Rífa á skrifstofuhúsið en byggja við prentsmiðjuna vinstra megin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásbergssalurinn í Kringlubíói var þéttsetinn í fyrrakvöld þegar kynnt voru áform um uppbyggingu við Kringluna. Svo margir mættu að fólk þurfti að sitja á göngum. Skipulagssvæðið er í eigu Reita. Um er að ræða drög að deiliskipulagstillögu 1

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ásbergssalurinn í Kringlubíói var þéttsetinn í fyrrakvöld þegar kynnt voru áform um uppbyggingu við Kringluna. Svo margir mættu að fólk þurfti að sitja á göngum.

Skipulagssvæðið er í eigu Reita. Um er að ræða drög að deiliskipulagstillögu 1. áfanga Kringlusvæðis, sem nær til lóðanna Kringlunnar 1-3 og Kringlunnar 5.

Félagið Kringlureitur gerði fyrir hönd Reita samkomulag við dönsku arkitektastofuna Henning Larsen og THG arkitekta um þróun á fyrsta áfanga Kringlusvæðisins og eru stofurnar höfundar tillögunnar.

Á fundinum var kynnt tímalína verkefnisins. Næsta skref er að deiliskipulagstillagan verður auglýst opinberlega með athugasemdafresti í sumar. Að óbreyttu er ætlað að tillagan taki gildi í desember.

Samsíða Sjóvárhúsinu

Skipulagssvæðið afmarkast af Kringlugötu, Listabraut og Kringlumýrarbraut en lóðarmörk til norðausturs eru hér um bil samsíða Sjóvárhúsinu. Sjá má stærstan hluta svæðisins á loftmyndinni hér hægra megin við miðju.

Á svæðinu er skrifstofuhús við Kringluna 1 sem byggt var fyrir Morgunblaðið. Var blaðið með aðsetur þar á árunum 1993 til 2006 er það flutti í Hádegismóa í Reykjavík.

Fram kom í Morgunblaðinu 28. janúar síðastliðinn að sérfræðingar á vegum Reita væru að meta hvort skrifstofuhúsið við Kringluna 1 yrði nýtt í breyttri mynd eða rifið.

Samkvæmt nýju tillögunni verður skrifstofuhúsið rifið. Hins vegar er gert ráð fyrir að hluti prentsmiðjuhússins verði endurgerður sem menningarhús og byggt við það til vesturs.

Sofia Lundeholm hefur leitt hönnunarvinnuna hjá Henning Larsen ásamt Joachim Makholm.

Vísað í matjurtagarða

Lundeholm fjallaði í erindi sínu um sögu skipulagssvæðisins. Um miðja síðustu öld hefðu verið þar matjurtagarðar og væri skírskotað í þá sögu með þróun garða. Síðan hefði Hús verslunarinnar risið, Borgarleikhúsið og Kringlan sem hefði verið byggð í anda verslunarmiðstöðva í Bandaríkjunum.

Arkitektar Henning Larsen hefðu kynnt sér sögu Reykjavíkur og hvernig þétt borgarbyggð vék fyrir bílaskipulagi og byggðin þandist út.

Fyrir vikið væru margir byggingarstílar í Reykjavík. Svo sýndi hún ljósmynd úr Grjótaþorpinu í Reykjavík. Sú götumynd hefði orðið arkitektunum að sérstökum innblæstri: Fjölbreytt göturými með óreglulegum strætum og gróðursælum reitum. Form og hlutföll húsa væru innblásin af fjölbreyttu byggðamynstri Reykjavíkur. Mynda ætti skjól fyrir hávaða og vindi en mikil umferð er við svæðið. „Við vildum að svæðið yrði lífvænlegt og með görðum þar sem samfélagið getur blómstrað en það á rætur í sérkennum Reykjavíkur,“ sagði Lundeholm.

Bílaumferð takmörkuð

„Við vitum að þar sem garðar geta þrifist getur fólk líka þrifist,“ sagði Lundeholm og benti á að svæðið yrði varið fyrir vindi. Til að skapa rými fyrir fólk og gróður yrði bílaumferð takmörkuð. Þá væri ætlunin að skapa sameiginleg rými fyrir íbúa með almenningstorgi og menningarhúsi.

Í stað þess að vinna út frá almennri og einkennalausri hönnun (e. generic) sem finna mætti hvar sem er í heiminum væri leitað í sérkenni Reykjavíkur. Það birtist meðal annars í hallandi þökum og hæð húsa. Flestar byggingarnar yrðu fjórar til sex hæðir.

Samkvæmt tillögunni verður reist 14 hæða hús gegnt Borgarleikhúsinu þar sem skrifstofuhúsið við Kringluna 1 stendur nú. Það verður hæsta byggingin á svæðinu og jafn há Húsi verslunarinnar. Gegnt menningarhúsinu til norðurs verður torg með aðstöðu til að njóta veitinga þegar veður leyfir. Þá verða tengingar bættar að Kringlunni í austri og Hamrahlíð í vestri.

Gert er ráð fyrir 450 íbúðum og að byggðir verði 6.200 fermetrar af atvinnuhúsnæði og að um 420 bílastæði verði í bílakjallara undir íbúðarhúsunum. Horfið hefur verið frá hugmyndum um sameiginlegan bílakjallara fyrir allt svæðið.

Joachim Makholm, kollegi Lundeholm hjá Henning Larsen, sagði athuganir benda til að skrifstofuhúsið í Kringlunni 1 hefði ekki mikið varðveislugildi. Með endurgerð á hluta prentsmiðjuhússins væri haldið í söguna. Prentsmiðjan var tekin í notkun 1984.

Áhyggjur af þéttleika

Eftir kynninguna var tekið við spurningum úr sal. Spurt var um skuggavarp en einn fundargestur hafði áhyggjur af því að ekki yrði næg dagsbirta í íbúðunum. Siv Friðleifsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra kvaðst sem nágranni hafa áhyggjur af þéttleika byggðarinnar. Það mætti ætla að rúmlega þúsund manns myndu búa í hinu fyrirhugaða hverfi. Þ.e.a.s. í áfanga 1.

Samkvæmt lýsingu í Skipulagsgátt verður áfangi 2 að stærstum hluta á lóð nr. 7 við Kringluna þar sem byggingar VR standa. Loks verður 3. áfangi að hluta til á lóð nr. 7 og að hluta til á borgarlandi norðan lóðar.

Höf.: Baldur Arnarson