Forystumaður Ásgeir Ásgeirsson setti sterkan svip á íslenskt þjóðlíf í marga áratugi. Hófstilling á alla lund þótti einkenna hans störf og málflutning.
Forystumaður Ásgeir Ásgeirsson setti sterkan svip á íslenskt þjóðlíf í marga áratugi. Hófstilling á alla lund þótti einkenna hans störf og málflutning.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ásgeir Ásgeirsson (1894-1972) er eitt af stóru nöfnunum í Íslandssögunni. Á því herrans ári 1932 var pólitíkin í landinu komin í pattstöðu svo engum málum varð komið í gegn. Og þó reið mjög á slíku í miðri heimskreppu þegar erfiðleikar voru miklir. Ríkisstjórn Framsóknarflokksins undir forsæti Tryggva Þórhallssonar náði ekki að afgreiða fjárlög á Alþingi og Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur vildu gera breytingar á kjördæmaskipan. Tryggvi fól því Ásgeiri Ásgeirssyni, mági sínum og flokksbróður, að reyna myndun ríkisstjórnar, sem honum tókst. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum í júníbyrjun 1932 og sat næstu tvö árin.

Þegar hér var komið sögu hafði Ásgeir Ásgeirsson verið fjármálaráðherra í stjórn Tryggva Þórhallssonar í eitt ár. Jafnhliða forsæti í ríkisstjórn var hann áfram fjármálaráðherra og þufti sem slíkur að beita sér í ýmsum ráðstöfunum þegar í landinu voru „erfiðir tímar og atvinnuþref“ svo vitnað sé til Maístjörnu Halldórs Laxness.

Atvinnuvegir í kaldakoli

„Fjársukk síðustu ára er að koma ríkinu á knje. Ríkissjóður er gertæmdur, lánstraustið glatað og atvinnuvegir landsmanna í kaldakoli. Þó ekki megi búast við, að þessi nýja ríkisstjórn geti unnið stórvirki á þessu sviði, má vænta þess að henni verði eitthvað ágengt. Annars mun það vel við eiga að láta hina nýju stjórn sýna í verkefni hvað hún vill og hvers hún er megnug áður en nokkur dómur verður upp um hana kveðinn,“ sagði í yfirlýsingu þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu 3. júní 1932.

Með Ásgeiri Ásgeirssyni í ríkisstjórn sátu Þorsteinn Briem úr Framsóknarflokki, sem varð atvinnu-, kirkju- og kennslumálaráherra og úr Sjálfstæðisflokki kom Magnús Guðmundsson, ráðherra dóms-, heilbrigðis- og samgöngumála. Þeir tóku strax til óspillra málanna – og mótaðar voru tillögur í kjördæmamálinu, sem svo var kallað.

Kosningareglum breytt

Sumarið 1933 var svo efnt til aþingiskosninga, eftir nýrri skipan kjördæma. Áfram voru kjörnir þingmenn hverrar sýslu um sig en nú hafði vægi atkvæða úr Reykjavík verið aukið og fulltrúum á Alþingi sem þaðan komu hafði verið fjölgað. Atkvæðisrétt hafði fólk 25 ára og eldri, utan hvað þiggjendur sveitarstyrks gátu ekki kosið. Þetta voru aðrar alþingiskosningarnar sem Sjálfstæðisflokkurinn í núverandi mynd bauð fram, það er eftir sameiningu Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins. Kosningasigur flokksins var sá mesti í sögu hans en hann hlaut tæpan helming atkvæða, en 20 þingmenn. Þingmönnum hafði líka verið fjölgað úr 42 í 49. Með þessu missti ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar meirihluta sinn og baðst forsætisráðherrann því lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Sendi ósk þar um til Kristjáns X Danakonungs, þá þjóðhöfðingja Íslands, sem fól Ásgeiri þó að sitja áfram – eins og gekk eftir.

Kosningar eftir nýrri kjördæmaskipan voru áformaðar árið eftir og fram yfir þær sat stjórnin með Ásgeir í forsæti. Hann hafði þá sagt skilið við Framsóknarflokkinn og bauð sig fram 1934 utan flokks í kjördæmi sínu, sem var Vestur-Ísafjarðarsýsla. Gekk svo seinna til liðs við Alþýðuflokkinn.

Í alþingiskosningnum 1934 miðaðist kosningaréttur við 21 ár í stað 25 ára áður og afnumin voru efnahagsleg skilyrði fyrir kosningarétti, það er að hann félli niður þægi fólk sveitarstyrk. Eftir breytinguna voru skilyrðin þau að kjósandi hefði íslenskan ríkisborgararétt, hefði verið búsettur í landinu í fimm ár á kjördegi, hefði óflekkað mannorð og væri fjárráða.

Nokkur efnisatriði hér að framan ættu að vera kunnugleg í nútímanum. Glíman við efnahagsmálin – að halda hlutunum á réttu róli – er eilíft verkefni í stjórnmálum, enda þótt brekkurnar á hverjum tíma séu misjafnlega brattar. Og enn – rétt eins og fyrir 90 árum – vega atkvæði landsbyggðar þyngra en þéttbýlis og þrýst er á um breytingar á því.

Fólkið á stóra sviðinu

Á hinu stóra sviði stjórnmálanna er líka fólk sem færist milli hlutverka. Guðfræðingurinn Ásgeir Ásgeirsson gegndi um sína daga embætti fræðslumálastjóra, var alþingismaður, forseti Sameinaðs þings, bankastjóri og ráðherra. Svo fór líka árið 1952 að forsætisráðherrann fyrrverandi bauð sig fram til embættis forseta Íslands og vann kosningarnar.
Til þess hefur verið vitnað að undanförnu að forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttir eigi sér að nokkru fordæmi í sögu Ásgeirs; það er að forsætisráðherra gefi kost á sér til búskapar á Bessastöðum. Formerkin eru reyndar ólík; tæp 20 ár liðu frá því Ásgeir lét af embætti forsætisráðherra þar til hann fór í framboð til forseta. Katrín fór hins vegar beint úr forsæti ríkisstjórnar í framboð til forsetakosninga, sem verða 1. júní næstkomandi.

En lítum nú aftur til ársins 1932 og þess sem þá var efst á baugi. Frásagnir Morgunblaðsins endurspegla tíðarandann ágætlega, sbr. frétt í blaðinu 22. janúar þar sem segir frá því að kommúnistar, eins og þeir eru kallaðir, hafi fyrirskipað allsherjarvinnustöðvun í Vestmannaeyjum. Þetta er sagt hafa verið atlaga sem verkafólk, sjómenn og útgerðin hafi brotið á bak aftur. Hart mætti hörðu. Hvergi virðist þó harðar hafa verið tekist á en á Siglufirði, þar sem síldarspekúlantar og verkamenn tókust á um mikla hagsmuni.

En auðvitað var líka bryddað upp á ýmsu öðru og skemmtilegu. Í júlí árið 1932 var afhjúpaður minnisvarði um Leif heppna á Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Bandaríkjamaðurinn Alexander Stirling gerði styttuna sem var gjöf Bandaríkjamanna til Íslendinga í tilefni af Alþingishátíðinni á Þingvöllum sem haldin hafði verið tveimur árum fyrr. Hátíðlegri athöfn, þegar styttan var afhjúpuð, stýrði Ásgeir Ásgeirsson forsætisráðherra. Í ávarpi þakkaði Ásgeir vináttu sem í gjöfinni fælist.

Gæfa til afreksverka

„Gjöfin mun eiga þátt í að varðveita góðan hug og samúð milli hinnar fámennu þjóðar, sem þetta land byggir og hinnar miklu þjóðar Bandaríkjanna. Þessi kveðja Bankaríkjanna er okkur hjartfólgin. Við metum ekki þjóðirnar eftir mannfjölda heldur manngildi, Afreksmenn eru stolt hverrar þjóðar og við gleðjumst þegar viðurkenndur er með svo glæsilegum hætti uppruni ágætis manns, sem bar gæfu til afreksverka, er minnst verður um aldir. Við höfum sett styttu Leifs þar sem hæst ber í höfuðborginni, en þó í hálfgerðri óbyggð. Umgerð náttúrunnar er glæsilegri en mannanna, verk eiga hér eftir að vaxa,“ sagði Ásgeir og að síðustu:

„Styttan er ímynd karlmensku og framsóknar. Naddoddur, sá er fann Ísland, Eiríkur rauði, er nam Grænland og Leifur heppni er fyrst út sigldi til Vesturheims, voru allir af einni ætt. Það var þróttur og framtak í þeirri ætt, enda var sjósókn í þá daga, og raunar aldrei, heiglum hent. Hafið hefir jafnan lokkað þá sem þrá æfintýrið. Leifur var einn þeirra manna sem færðist mikið í fang og bar gæfu og gervileika til mikils árangurs.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson